Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:02:38 (4100)

2001-01-22 22:02:38# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:02]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að þingnefndin fékk vitnisburð þriggja kennara í lögfræðideild háskólans. (Gripið fram í.) Það liggur líka fyrir að þingnefndin fékk vitnisburð frá Guðrúnu Gauksdóttur og Oddnýju Mjöll Arnardóttur, sem eru báðar í doktorsnámi í mannréttindafræðum, sem voru nákvæmlega sömu skoðunar og þessir þrír háskólakennarar. Þegar við liggjum undir þeim miklu ásökunum hér stjórnarliðið, að við séum að brjóta mannréttindi, að við séum að brjóta hér stjórnarskrána o.s.frv. hlýtur það að vera krafa að við fáum að vita hvað það er sem er rangt í greiningu þessara prófessora og þessa fólks á dómnum. Við höfum vitnisburð frá þeim um það að það sé hvorki mannréttindabrot, brot á stjórnarskránni né á neinn hátt verið að ganga á snið við dóm Hæstaréttar. Heldur alveg öfugt. Við höfum vitnisburð þeirra fyrir því að það sé alls ekki verið að gera það, heldur sé verið að fullnusta dóm Hæstaréttar. Við hljótum að bera upp þá kröfu: Hvað er rangt í greiningu þeirra á dómnum? Fái ég ekki svar við því núna held ég áfram að spyrja. Vonandi getur einhver svarað þessu.