Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:38:23 (4103)

2001-01-22 22:38:23# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:38]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína í ræðu hv. þm. Tómasar Inga Olrichs að hann sagði sem svo að það væri hlutverk Hæstaréttar að leysa úr ágreiningi, ekki búa hann til. Undir þetta vil ég taka með hv. þm. Hann sagði jafnframt að mikil átök hafi verið í þjóðfélaginu vegna þessa máls og ef ég heyrði rétt þá sagðist hann harma það eða eitthvað í þá veruna, það væri ekki gott mál, og undir það vil ég taka líka.

En, herra forseti, ég vil benda hv. þm. á að Hæstiréttur leysir úr ágreiningi í máli þessu sem og mörgum öðrum málum með því að taka kröfugerð annars málsaðilans upp í dómsorð sitt.

Herra forseti. Ég held að það sé a.m.k. tilraun Hæstaréttar til að leysa úr þessum ágreiningi en ríkisstjórnin hefur síðan vísað þeirri skýru aðferð á bug með frv. sem hér liggur fyrir Alþingi. Ástæðan fyrir deilunum í þjóðfélaginu er sú að ríkisstjórnin túlkar þennan dóm í andstöðu við þetta. Hvernig getur Hæstiréttur orðað eða leyst betur úr ágreiningi en einmitt með því að taka kröfugerð annars aðila málsins, í þessu tilviki Öryrkjabandalagsins, nánast beint upp í dómsorð sitt? Ég get ekki séð að hægt sé að gera það á skýrari hátt fyrir þennan dómstól þjóðarinnar sem getur ekki tekið þátt í umræðunum um dóminn hér með okkur, eðli málsins samkvæmt, og út í þetta, herra forseti, held ég að þjóðin sé reið, út í viðbrögð ríkisstjórnarinnar en ekki út í Hæstarétt.