Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:40:13 (4104)

2001-01-22 22:40:13# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:40]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ef dómurinn er óskýr og ég hef leitt að því rök og vitnað í virta lögfræðinga sem telja að dómurinn sé óljós þó að þeir telji að það megi skilja hann á mismunandi hátt. Ef dómurinn er óljós verður að leita skýringa í forsendum dómsins. Það er einmitt í forsendum dómsins sem menn finna rök fyrir því að þar sé farið svolítið óljóst með hugtök og þar finna menn einnig rök fyrir því að dómurinn sé ekki að banna almennt, banna með öllu skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka örorkulífeyrisþega.

Ef það var skoðun Hæstaréttar að hann bannaði með öllu skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka örorkulífeyrisþega hvers vegna segir hann það þá ekki í forsendum dómsins skýrt og skorinort? Hann gerir það ekki heldur fer hann þvert á móti út á þær brautir að taka það sérstaklega fram með hvaða hætti þetta var gert í lögunum og það væri gert samkvæmt þessari grein og það væri þetta skipulag sem hann væri að fást við og hann væri að dæma sem svo að það gengi gegn stjórnarskránni. Þetta skildu þessir lögspekingar, ekki bara fjórmenningarnir heldur aðrir, sem svo að þarna væri túlkunin óljós og það væri óhjákvæmilegt að bregðast við þessu.

Það eru því sjálfar forsendur dómsins sem byggja undir þessa túlkun og sú staðreynd að hvergi í forsendunum er tekinn af allur vafi um hvað dómurinn er að fara. Og það er það sem veldur því að menn hafa talið að niðurstaðan sé óljós.