Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:47:55 (4108)

2001-01-22 22:47:55# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:47]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Sem svar við spurningum hv. þm. Ögmundar Jónassonar vil ég taka fram og endurtaka það sem ég hef sagt í þessum ræðustól, að þegar úrskurður Hæstaréttar er skilinn á þann hátt að það lágmark sem felst í lögunum hafi verið of lágt þá stendur upp á löggjafann að ákveða nýtt lágmark. Niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna er að það sé ekki talið óheimilt að skerða tekjutrygginguna vegna tekna maka örorkulífeyrisþegans og þá er að sjálfsögðu ekki hægt að láta sem slík skerðing sé óheimil. Því þarf að ákveða mörk og slík mörk eru í sjálfu sér alltaf pólitísks eðlis fremur en lögfræðilegs eðlis.

Þegar farið er út í þá sálma að reyna að ákveða hvert það lágmark sé sem standist ákvæði stjórnarskrárinnar þá er væntanlega tekið tillit til stöðu öryrkjans og þeirra tekna sem hann sjálfur getur haft, hvað hann getur sjálfur unnið sér inn á ári þegar fullri skerðingu tekjutryggingar er náð en það eru um 450 þús. kr. Þá er rétt að taka tillit til þess líka að frítekjumark makans sem veldur engri skerðingu er árlega 1.611 þús. kr. en grunnlífeyrir er 207 þús. kr. Þegar þetta er skoðað í heild þá sjást brúttótekjurnar sem koma út úr þessu og menn hljóta að leggja pólitískt mat á hvaða fjármuni þurfi að veita til að standast lágmarkskröfu. Það er að sjálfsögðu matið sem kemur fram hér í frv. ríkisstjórnarinnar.