Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 22:53:57 (4111)

2001-01-22 22:53:57# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[22:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir starf hv. heilbr.- og trn. að þessu máli sem hefur verið mikið að vöxtum og margir kallaðir fyrir og þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég er þeirrar skoðunar að þótt málið sé umdeilt á Alþingi hafi ýmislegt skýrst við þá meðhöndlun sem það hefur hlotið.

Í máli margra hv. þm., sérstaklega í upphafi þessarar umræðu, hefur komið fram að sá dómur sem hér er verið að fjalla um sé afskaplega einfaldur og skýr og að tiltölulega lítið mál að túlka hann og fara eftir honum. Eins hefur það oft verið túlkað þannig að dómur hefði fallið þannig að öll kröfugerð þess sem höfðaði málið hefði verið samþykkt af Hæstarétti og viðurkenningardómurinn gengi út að fallast á allt sem þar hefði fram komið.

Í nokkrum mæli í þessari umræðu, einnig hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, hefur hins vegar komið fram að hér séu álitamál. Þar með er viðurkennt að dómurinn sé nú kannski ekki jafneinfaldur og skýr og í upphafi virtist.

Mér hefur jafnframt fundist einkenna þessa umræðu frá upphafi að mjög margir héldu því fram að jafnvel væri óþarft fyrir Alþingi að koma saman út af málinu, það þyrfti ekki að setja lög af þessu tilefni. Ég hef hins vegar heyrt að fleiri og fleiri viðurkenna að svo sé ekki og nauðsynlegt sé að setja lög af þessu tilefni. Þar með tel ég hafa komið í ljós að ekki hafi eingöngu verið nauðsynlegt heldur algjör forsenda þess að hægt væri að greiða út þessar bætur að Alþingi kæmi saman og lög væru sett af þessu tilefni.

Í þriðja lagi var því gjarnan haldið fram að hér væri um augljóst stjórnarskrárbrot að ræða og ekki léki nokkur vafi á því að þeir sem stæðu að þessu frv. brytu stjórnarskrána og því var jafnvel haldið fram að það væri gert vísvitandi. Ég hef tekið eftir því að menn segja í meira mæli við umræðuna að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða að þeirra áliti. Það er nokkuð annað og ég tel að það mikla framför í þessari umræðu að því sé ekki haldið fram að þeir sem að þessu standa vilji vísvitandi brjóta stjórnarskrá landsins sem þeir hafa eiðsvarið að þeir muni aldrei gera.

Ég tel það einnig hafa komið mjög skýrt fram í þessari umræðu að málið varðar ekki alla öryrkja í landinu, eins og margir meðal þjóðarinnar töldu í upphafi, með réttu eða röngu, hver svo sem átti hlut að því. Í dag er öllum ljóst orðið að þetta mál varðar aðeins lítinn hluta öryrkja í landinu.

Að mínu mati er aðalágreiningurinn í þessu máli tiltölulega einfaldur. Hann er þessi: Má miða við tekjur maka? Segir hæstaréttardómurinn að ekki megi miða við tekjur maka? Í framhaldi af því er spurt: Er pólitískt rétt að miða við tekjur maka? Um það virðist pólitískur ágreiningur á hv. Alþingi.

[23:00]

Við sem stöndum að þessu máli höfum túlkað dóm Hæstaréttar og fært fyrir því margvísleg rök að dómur Hæstaréttar þýði ekki að bannað sé að taka mið af tekjum maka. Við höfum fært fyrir því rök að Hæstiréttur taki fram að ekki megi skerða með þeim hætti sem gert var og skiljum það svo að lágmarkið þyrfti að hækka og gæti ekki verið þær 18 þús. kr. sem áður var. Samkvæmt þessu frv. er því ákveðið að hækka þessa lágmarksfjárhæð um 25 þús. kr.

Við höfum skilið það svo að þegar Hæstiréttur segir að það verði að miða við tiltekið lágmark, sem áður var 18 þús. kr., þá eigi hann ekki við að það lágmark sé hámarksbætur eða 51 þús. kr. Við skiljum dóminn ekki svo að Hæstiréttur eigi við að lágmarkið eigi að vera hámark. Við skiljum ekki af hverju Hæstiréttur talar um lágmark ef hann á við hámarkið.

Við höfum líka skilið það svo að þegar Hæstiréttur talar um að málefnaleg rök geti verið fyrir því að miða við tekjur maka þá sé ljóst að að hans mati þurfi ekki að banna allar tekjutengingar. Kannski er ágreiningurinn á Alþingi um hvort almennt eigi að miða við tekjur maka helstu pólitísku tíðindin í þessari umræðu. (Gripið fram í: Það hefur ekki verið ágreiningur um það.) Er enginn ágreiningur um það? Það er gott að heyra.

Það er talað um varúðarreglu í þessu sambandi. Ég minni á að t.d. í ályktun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um þetta mál stendur, með leyfi forseta:

,,Miðstjórn ASÍ telur óumflýjanlegt að ráðast í endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfisins og að í þeirri vinnu verði meðal annars að taka mið af efnisatriðum dóms Hæstaréttar.``

(Gripið fram í: Þeir segja meira.) Þeir segja meira já, þeir segja líka m.a.:

,,Þá hefur ASÍ farið fram á þátttöku í yfirstandandi vinnu við endurskoðun almannatrygginga og samspil þeirra við skattkerfið og lífeyrissjóðina en án árangurs hingað til.``

Getur ekki verið að miðstjórn Alþýðusambandsins sé að álykta í þessa átt vegna þess að miðstjórn Alþýðusambandsins geri sér grein fyrir því hversu flókið þetta mál er?

Hið sama kemur fram í ályktun Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson hristir höfuðið en þar stendur, með leyfi forseta:

,,39. þing BSRB krefst þess að tekjutenging við laun maka öryrkja og lífeyrisþega verði afnumin.``

Ég á von á því að fleirum en þeim sem hér stendur detti í hug að einhverjir telji að það beri að lögjafna í þessu máli að því er varðar lífeyrisþega og málið snúist ekki eingöngu um öryrkja. Ég tel ekki ólíklegt að þeir sem fái þær bætur telji augljóst að ef ekki mætti lengur miða við tekjur maka að því er varðar öryrkja þá eigi hið nákvæmlega sama við um ellilífeyrisþega. (Gripið fram í: Hver er skoðun ráðherrans á tengingunni?) Skoðun ráðherrans sem hér stendur á því er að eðlilegt sé að þar sé lögjafnað á milli ef dómur Hæstaréttar er túlkaður með þeim hætti að að bannað sé að miða við tekjur maka. Ég hef haldið því fram í þessari umræðu að það eigi að vera pólitískt mat og ákvörðun Alþingis.

Það liggur ljóst fyrir að frv. sem hér er lagt fram er lagt fram vegna dóms Hæstaréttar, vegna þess að það verður að bregðast við dómi Hæstaréttar. Þar með er ekki sagt að störfum Alþingis og löggjafarvaldsins sé lokið í þessu máli og það verði aldrei neinar frekari breytingar á almannatryggingakerfinu. Ég hef haldið því fram að það sé ekki rétt að þær breytingar séu framkvæmdar á Alþingi af þessu tilefni. Ég tel að það vald eigi að vera hjá löggjafarvaldinu. Það er þar en hins vegar er okkur skylt að bregðast við dómi Hæstaréttar.

Ég heyri það hins vegar á umræðunni að hv. þm. stjórnarandstöðunnar telja rétt að skilja dóm Hæstaréttar með þeim hætti að tekjutenging af þessu tilefni sé bönnuð. Ég hlýt að taka eftir því sem segir í nefndaráliti stjórnarandstöðunnar:

,,Undir orðalag 65. gr., þar sem rætt er um ,,stöðu að öðru leyti``, fellur ljóslega hjúskaparstaða.``

Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru sem sagt vissir um það, þó að það hafi aldrei verið sagt í umræðum um stjórnarskrárbreytinguna á sínum tíma, að undir orðalagið falli ljóslega hjúskaparstaða og segja í framhaldi af því, án þess að það sé nokkur fyrirvari þar á: ,,Þegnum ríkisins verður því ekki mismunað vegna hjúskaparstöðu.``

Í þessari setningu segir ekkert að þetta eigi eingöngu við um öryrkja. Það stendur hér ... (BH: Það er verið að tala um öryrkja.) Það stendur ekkert hér. Það stendur bara --- það er verið að túlka þetta hér --- að þegnum ríkisins verði því ekki mismunað vegna hjúskaparstöðu.

Það má vel vera að það henti hv. þm. stjórnarandstöðunnar að draga nú í land og það er vel. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að svo skuli vera. En um þetta snýst málið. Hér er því um mikið prinsippmál að ræða. Það ber að meðhöndla það sem slíkt. Við sem stöndum að þessu máli teljum það í samræmi við hæstaréttardóminn og í samræmi við stjórnarskrána, enda dytti okkur aldrei í hug að fara fram með frv. á Alþingi ef við tryðum því ekki samkvæmt okkar bestu samvisku að það stæðist stjórnarskrá landsins. Ég trúi því ekki að þeir sem stóðu fyrir þessu máli 1993, en þá var málið borið fram af hæstv. ráðherra Alþfl., Guðmundi Árna Stefánssyni, ef ég man rétt, að hann hafi ekki gert það í þeirri góðu trú að það stæðist stjórnarskrá landsins. Ég er viss um að svo hafi verið með þann ráðherra sem að því stóð.

Ég skil ekki að nokkrum detti í hug að núv. ríkisstjórn vilji standa þannig að málinu að það standist ekki stjórnarskrá landsins. (Gripið fram í: Þú verður að vera viss.) Verð að vera viss? Ég er eins viss og ég get verið en ég veit ekki allt eins og mér hefur nú skilist stundum á hv. þm. stjórnarandstöðunnar í þessu máli.

Ég stóð t.d. í góðri trú á sínum tíma að lagasetningu um sjávarútveginn og taldi að það stæðist að öllu leyti stjórnarskrá landsins. Ég hafði fyrir mér í því orð mjög hæfra lögfræðinga. En Hæstiréttur hefur síðasta orðið, þannig er okkar kerfi og enginn getur úrskurðað um það að lokum nema hann. Alþingi getur ekki úrskurðað um það, þjóðin getur ekki úrskurðað um það, aðeins Hæstiréttur sem getur úrskurðað um það. (RG: Hann er búinn að því.) Er hann búinn að því? (SJS: Og eigum við ekki að una dómi hans?) Hann er búinn að því.

Ég skal, herra forseti, ekki vera lengur í ræðustól. Ég hef ekki farið oft í ræðustól í þessari umræðu (Gripið fram í.) en aldrei hefur það nú komið fyrir að mér hafi ekki verið heimilað að vera hér án stöðugra frammíkalla. Ég er mjög undrandi á því að hluti af þingheimi skuli vera svo óstilltur að geta ekki hlýtt á mál mitt án þess að vera með stöðug frammíköll. Ég skal ekki þreyta hv. þm. með frekari ræðuhöldum. Það er nokkuð liðið að miðnætti en hins vegar er hér um það mikilvægt mál að ræða að hv. þm. verða að þola að sá sem ber ábyrgð á málinu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við þessar aðstæður fari um það nokkrum orðum í lok umræðunnar. Það verður að sjálfsögðu að hafa sinn gang þótt hv. þm. verði að bæta nokkrum orðum við sinn annars tiltölulega langa málflutning.