Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 23:16:51 (4116)

2001-01-22 23:16:51# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[23:16]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er sérkennilegt að eitt helsta erindi framsóknarmanna í ræðustólinn hefur verið að barma sér undan því að það hafi á köflum verið hiti í umræðunni og gripið hafi verið fram í fyrir þeim eins og alsiða er og hefur lengi verið á Alþingi og ákveðið umburðarlyndi sýnt í þeim efnum af forsetum þingsins svo lengi sem ég man og örugglega lengur.

En ef taugaástand framsóknarmanna er svoleiðis í þessu máli að þeir þoli ekki frammíköll, kunni ekki að bregðast við þeim og eru gráti nær af sjálfsmeðaumkun yfir því verður að beina því til forseta að setja sérreglu, sérstakt hlífðarákvæði þegar svona stendur á hjá Framsfl. að hann getur ekki tekið þátt í umræðu með þeim hætti sem hefur verið alsiða og þolir illa að einhver hiti sé í umræðunni þó að það hendi svo jafnvel hæstv. ráðherra sjálfan, hafandi barmað sér lengi eina kvöldstund yfir frammíköllum, að grípa svo fram í sjálfur þegar næsti maður fór í ræðustólinn. En það er önnur saga.