Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 23:19:07 (4118)

2001-01-22 23:19:07# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[23:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ber ábyrgð á orðum mínum og hef ekki beðið um hjálp frá Halldóri Ásgrímssyni til þess að axla hana.

Ég held að það muni ekki ganga hjá hæstv. utanrrh. eins og hann reyndi hér, verandi síðasti maður á mælendaskrá, að snúa þessri umræðu í þá átt að hún hefði bætt hæpinn málstað ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti tel ég að hún hafi kristallað að framganga ríkisstjórnarinnar í þessu máli öllu hefur verið einstaklega fantaleg. Viðbrögð hennar við þessum dómi eru þannig að í öllum fjórum meginefnisatriðum frv. eru breytingarnar eins óhagstæðar þolandanum í málinu, öryrkjunum sem hér eiga í hlut, og kostur er. Það varðar það að bera fyrir sig fyrningu, það varðar afturvirkni laganna, það varðar það að vextir eru hafðir eins lágir og hugsast getur og það varðar það að áfram er haldið í skerðinguna og með því er að okkar mati verið að framlengja það brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sem málið snýst um.

Niðurstaðan er skýr, herra forseti. Í öllum þessum tilvikum er tillaga ríkisstjórnarinnar öryrkjunum í óhag.