Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 23:20:21 (4119)

2001-01-22 23:20:21# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[23:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að öllum megi vera ljóst að ríkisstjórninni gengur ekki það til í þessu máli að koma illa fram við tiltekinn fram við þjóðfélagshóp, hvað þá að beita hann fantaskap eða níðingsskap svo notuð séu orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Ríkisstjórninni og meiri hluta Alþingis gengur það eitt til að fara að dómi Hæstaréttar, bregðast við honum í einu og öllu og gera það sem stjórnarskráin býður okkur. Það þýðir ekki að þar með sé pólitísku starfi þess meiri hluta sem er nú á Alþingi lokið. Það starf mun halda áfram og við höfum þegar lýst því yfir að við munum flýta því starfi. Sú flýting er ekki ákveðin með einhverjar illar hugsanir í huga heldur þvert á móti og það veit hv. þm.