Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 23:27:05 (4125)

2001-01-22 23:27:05# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[23:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við prófessora við Háskóla Íslands og ég veit ekki nákvæmlega hvað þeir sögðu og í hvaða samhengi þeir sögðu þetta.

Mér er hins vegar alveg ljóst að auðvitað skipta lokaorð í dómi miklu máli. En þau skipta ekki öllu máli. Ég hef aldrei vitað til þess að dómur sé túlkaður með því að lesa aðeins síðustu setninguna. Síðasta setningin vegur sjálfsagt þungt en hún skiptir ekki öllu máli þó hún skipti miklu máli. Ég hef ekkert annað heyrt frá þessum háttvirtu prófessorum og kennurum við Háskóla Íslands sem hér eru nefndir til en að það lagafrv. sem hér um ræðir standist algjörlega stjórnarskrá Íslands. Það hefur komið fram í máli þessara aðila.

Það vill svo til að minni hlutinn vitnar aðeins í þessa lögfræðinga en ekki þá lögfræðinga sem minni hlutinn krafðist að væru sérstaklega kallaðir til. Þeir eru ekki nefndir á nafn.