Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 23:38:15 (4135)

2001-01-22 23:38:15# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[23:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Efnisatriði þessa ákvæðis til bráðabirgða I eru lýsandi fyrir framgöngu ríkisstjórnarinnar í málinu. Þetta ákvæði hlýtur að mega kallast hraklegt. Það felur bæði í sér afturvirkni hinnar nýju skerðingarreglu fyrir árin 1999 og 2000 og að borið er við fyrningu þannig að með fyrningu á að hafa af öryrkjum það sem dæmt hefur verið með röngum og ólögmætum hætti af þeim tekið.

Þetta ætlar ríkisstjórnin að gera til að þurfa ekki að skila því sem var ranglega tekið af hópi öryrkja á árunum 1994--1997. Bæði þessi atriði, afturvirknin og það að bera við fyrningunni, lýsa mikilli hörku, því sem ég hef leyft mér að kalla og endurtek og stend við, miklum fantaskap í framgöngu ríkisstjórnarinnar því í hvorugu tilvikinu þurfti ríkisstjórnin að bregðast svona við.