Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 10:32:26 (4137)

2001-01-23 10:32:26# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég hef undirstrikað við þessa umræðu að ég virði skoðanir hv. stjórnarandstöðu og sannfæringu fyrir því sem hún les úr dómi Hæstaréttar. Ég skildi reyndar dóminn á sama hátt við fyrsta yfirlestur. En þegar ég las V. kafla í atkvæði meiri hluta Hæstaréttar ítrekað taldi ég mig skilja hvað meiri hluti Hæstaréttar er að fara. IV. kafli atkvæðis meiri hlutans styrkti þetta álit mitt.

Ég er ekki þar með að segja að aðrar skoðanir eða mat eigi ekki rétt á sér. Ég hef ætíð gert mér far um að vera gagnrýninn á eigin niðurstöðu og gera ráð fyrir að niðurstaða mín gæti verið röng. Það er reyndar fyrsta boðorðið þegar stundaðar eru vísindalegar rannsóknir að menn forðist að finna sannleikann, trúa gagnrýnislaust í staðinn fyrir að skilja og rökstyðja. Ég hef vandað mig við að segja ekki um skoðanir annarra að þær séu vitleysa eða rangar.

Ef við hv. þm. virðum ekki skoðanir hvers annars þá líkist umræðan trúardeilum í staðinn fyrir að vera málefnaleg umræða sem varpað gæti ljósi á viðfangsefnið. Mér finnst nokkuð skorta á að ég mæti sama viðmóti hjá hv. stjórnarandstöðu, því viðmóti að ég megi skilja dóm Hæstaréttar á annan hátt en hún, að ég megi hafa aðra sannfæringu en hún.

Herra forseti. Fallið hafa ótrúlega þungar ásakanir. Mannréttindabrot. Undir mannréttindabrot flokka ég þegar ríkisvaldið tekur fólk af lífi án dóms og laga, þegar ríkisvaldið stundar pyndingar, þegar ríkisvaldið notar hópnauðganir í stríðsrekstri, þegar ríkisvaldið heldur fólki í fangabúðum vegna skoðana sinna eða trúar eða jafnvel af tilviljun árum saman. Það er í mínum huga mannréttindabrot. Við höfum séð slíkt hjá talebönum í Afganistan, Saddam Hussein, hjá Stalín og Hitler.

Ég hef velt því fyrir mér hvort það geti verið að það að taka tillit til tekna fjölskyldu þegar veita á bætur úr sameiginlegum sjóði ríkisins megi setja í flokk með mestu grimmdarverkum mannkynssögunnar. Er ekki verið að þynna út hugtakið mannréttindi, herra forseti?

Þá hafa fallið orð um brot á stjórnarskránni. Ég hef svarið eið að stjórnarskránni og það er mér mikils virði og það er mér mikið atriði. Það er ekki eitthvað sem ég hef gert léttum huga. Stjórnarskráin er lífakkeri einstaklingsins og vörn hans gegn ofríki ríkisvaldsins. Getur það verið að minn skilningur á dómi Hæstaréttar og sannfæring mín sé svo miklu minna virði en skilningur og sannfæring t.d. hv. þm. Þuríðar Backman að hún geti leyft sér að segja mig brjóta eið minn að stjórnarskránni? Mér er þetta mikið mál, herra forseti.

Slíkar fullyrðingar hef ég nóterað eftir hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hv. þm. Þuríði Backman og fleirum. Þau hafa ekki sett fyrirvara eins og ,,ég tel`` eða ,,ég skil það þannig`` heldur hafa þau fullyrt: ,,Þetta er stjórnarskrárbrot. Þetta er mannréttindabrot.`` Meira að segja hef ég grun um að einhver hafi sagt ,,vísvitandi`` sem er enn þá verra.

Er ég ásamt öðrum stjórnarliðum í þessum hópi ómenna mannkynssögunnar eða eru þessi orð úr ræðustól hins háa Alþingis bara orðin tóm, kjaftæði, blaður? Mér líkar hvorug lausnin, herra forseti. Hvernig fæ ég úr þessu skorið, herra forseti? Má ég ekki gera þá kröfu til hv. stjórnarandstöðu að hún líki ekki pólitískum andstæðingum sínum við ótínda glæpamenn í hita leiksins?

Þegar leið á 2. umr. í gær urðu orðin enn heiftúðugri og dómarnir harðari. Það er kannski skiljanlegt ef hv. stjórnarandstaða er svo sannfærð um að hún ein hafi höndlað sannleikann og dóm Hæstaréttar beri að skilja bara á þann hátt sem hún gerir. Þá er hún eins og trúboði sem er að reka út illan anda. Hún trúir og þá skil ég hana.

Herra forseti. Ég er ekki að kveinka mér undan málefnalegri umræðu. En ég vil ekki að sannfæring mín sé metin minna en sannfæring annarra. Ég hlýt að eiga þann sama rétt og aðrir að hafa sannfæringu og mega skilja dóm Hæstréttar eins og ég skil hann.

Herra forseti. Hvernig komst ég að þeirri niðurstöðu sem ég hér hef lýst? Upphaflega, við fyrsta yfirlestur dómsins, hafði ég sama skilning og hv. stjórnarandstaða. Ég las niðurstöðu dómsins, dómsorðið, og ég las kröfu Öryrkjabandalagsins og af þeim yfirborðskennda yfirlestri komst ég að þeirri niðurstöðu að ekki mætti taka tillit til tekna maka þegar bætur öryrkjans voru ákveðnar. En svo fór ég að lesa IV. kafla í atkvæði meiri hluta Hæstaréttar og það var sérstaklega ein setning sem kom mér á sporið að það gæti verið að Hæstiréttur væri að meina eitthvað annað og það var eftirfarandi setning, með leyfi herra forseta:

,,Verður tæpast annað sagt en að réttur öryrkja til framfærslu fjölskyldu sinnar verði smár hafi hann aðeins tekjur, sem nema grunnörorkulífeyri.``

Hafi hann aðeins tekjur sem nema grunnörorkulífeyri, þ.e. 18 þús. kr. á mánuði, þá er réttur hans til framfærslu fjölskyldunnar smár. Síðan í sama kafla atkvæðis meiri hlutans stendur nokkrum sinnum að þetta séu ákveðin lágmarksréttindi sem miðuð séu við einstakling, en að löggjafinn geti sett upp skipulag sem ákveði þessi lágmarksréttindi. Þegar ég hafði lesið þetta og sérstaklega þegar ég las orðin ,,á þann hátt`` sem menn hafa deilt mikið um, þá komst ég að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur væri í rauninni að segja að hver einstakingur yrði að hafa ákveðið lágmark til þess að leggja fram til fjölskyldu sinnar til þess að halda reisn sinni og það lágmark sem hingað til hefur verið ákveðið 18 þús. kr. væri of lágt. Þetta var það sem ég las úr dómi Hæstaréttar og ég hlýt að mega hafa þessa sannfæringu mína í friði fyrir öðrum.

Ég held að ég fari ekki nánar út í þetta. Ég fór í gegnum þetta við 1. umr. þannig að ég held að ég láti það duga. En það er niðurstaða mín að það megi taka tillit til tekna fjölskyldu þegar ákveðnar eru bætur úr sameiginlegum sjóði landsmanna.

Herra forseti. Gætum við komist af án þess að setja ný lög? Því var haldið fram í byrjun umræðunnar, en ekki eins mikið núna enda má segja að ef maður lítur á 5. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar þá stendur þar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Nú nýtur aðeins annað hjóna örorkulífeyris og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna eru ekki hærri en 1.086.048 kr. á ári`` --- það hefur reyndar verið hækkað síðan --- ,,og skal þá greiða tekjutryggingu til viðbótar lífeyri þess að upphæð ...``

Í þessari málsgrein er sagt um mörkin og að það megi borga tekjutryggingu. Svo stendur að hafi hjón hins vegar tekjur umfram þessi mörk þá eigi að skerða tekjutrygginguna um 45% þeirra tekna sem umfram eru.

Nú er spurningin: Hvað fellur eiginlega niður við dóm Hæstaréttar? Hvernig getur maður borgað út lífeyri? Ég hef spurt að því. Hvað á að borga? Á að miða við að seinni málsliðurinn falli niður og þá bara af þeirri tekjutryggingu sem er undir mörkunum en hinir fái ekkert sem eru yfir, sem hafa fengið eitthvað hingað til? Varla getur verið að fyrri málsliðurinn eigi að falla niður því að þá fengi enginn tekjutryggingu. Hvað vilja menn? Vilja menn líta á þetta eins og þetta séu einstaklingar, þ.e. samkvæmt 4. mgr. sömu greinar? Þá gerðist það að þau hjón þar sem örorkulífeyrisþeginn er með hærri tekjur en makinn, sem kemur fyrir í nokkrum hundruðum tilfella, mundu tapa á þessu, þ.e. þau hjón. Vilja menn það? Greinilega ekki þannig að ég get ekki séð hvað eigi að borga. Ég get ómögulega séð það. Því er brýn nauðsyn að setja lög um hvað eigi að gera, hvernig eigi að fullnægja dómi Hæstaréttar sem að sjálfsögðu allir vilja hlíta. Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem ekki ætlar að hlíta dómi Hæstaréttar. Það er bara spurningin um skilninginn á dómnum og hvort menn megi skilja hann öðrum skilningi en þeim eina sem sumir trúa á.

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði í andsvari við 1. umr. að meðaltekjur maka öryrkja væru 132 þús. sem sé í andstöðu við frétt á baksíðu Morgunblaðsins sem nokkuð hefur verið til umræðu, en þar segir að meðaltekjur þeirra sem fá hækkun vegna frv. séu 338 þús. miðað við árið 1999. Skýringin á þessu misræmi er að sjálfsögðu sú að þeir sem ekki fá bætur núna eru allir með fjölskyldutekjur undir 200 þús. kr. Þeir eru teknir út úr meðaltalinu. Þar með hækkar meðaltalið að sjálfsögðu. Sá mikli fjöldi öryrkja sem eru giftir og ekki fær neitt samkvæmt dómi Hæstaréttar eru allt saman lágtekjufólkið sem er með tekjur undir 200 þús. kr. Þeir sem fá bætur eru þær fjölskyldur sem eru yfir 200 þús. kr. og eins hátt og verkast vill, maki forstjóra o.s.frv. eða skipstjóra. Það eru þeir sem eru að fá bæturnar.

[10:45]

Herra forseti. Spurt var í 2. umr. um siðfræði í nefndinni, hvort það hefði ekki komið til tals og framsögumaður meiri hlutans, hv. þm. Jónína Bjartmarz, sagði að við fyrningu hefði ekki verið rætt um siðfræði. Ég er reyndar ekki alveg sammála því í nefndinni var rætt mjög mikið um siðfræði. Ég tel siðfræði vera málefnalega umræðu eins og hvað annað, eins og um peninga. Í nefndinni spurði ég gesti, sem komu til nefndarinnar t.d. fulltrúa ASÍ, aftur og aftur hvort þeir teldu eðlilegt að skattleggja lágtekjuheimili eins og þau sem félagar í ASÍ mynda. Þeir félagar í ASÍ eða BSRB sem mynda heimili eru með lægri tekjur, herra forseti, en þær fjölskyldur sem eru að fá greitt eru með að meðaltali. Ég spurði hvort þetta væri siðlegt, herra forseti. Ég spurði hvort það væri siðlegt að skattleggja lágtekjufólk til að borga bætur til hátekjufólks. Er þetta ekki siðfræði, herra forseti?

Ég spurði hvort það gæti verið siðlegt að hverfa frá þeirri stefnu, sem við höfum haft í velferðarkerfinu, að það megi gera vel við þá sem minnst mega sín. Það er siðfræði. Velferðarkerfi okkar hefur gengið út á að gera vel við þá sem minnst mega sín en borga ekki bætur til fólks sem hefur háar tekjur, háar fjölskyldutekjur. (Gripið fram í: Eru 18 þús. kr. hátekjur?) 400 þús. kr. plús 18 þús. eru háar tekjur já, herra forseti. Það eru háar tekjur. En auk þess er ég með orðið, herra forseti. Er það ekki þannig?

Ég kom líka inn á það sem er eitt af grundvallaratriðum í lífeyristryggingakerfinu að ekki skuli greiða út kapítal, ekki skuli greiða út uppsafnaðan lífeyri. Í almannatryggingalögunum er 48. gr. um að ekki eigi að úrskurða lífeyri lengra en tvö ár aftur í tímann til þess að vera ekki að borga út kapítal. Menn lifa ekki fyrir tveim árum, fyrir fjórum árum eða fyrir sjö árum á peningum sem greiddir eru í dag. Þeir eru búnir að komast af. Þetta er lífeyrir sem á að greiða og þess vegna er andstætt allri hugsun í lífeyristryggingakerfi að borga kapítal, meira að segja hjá lífeyrissjóðunum þar sem fólk á innstæðu er ekki greitt lengra en í hæsta lagi fjögur ár aftur í tímann ef ég man rétt. Þess vegna er sú hugsun sem stjórnarandstaðan kemur með um að greiða sjö ár aftur í tímann og meira að segja óskert og meira að segja með dráttarvöxtum sem gerði sennilega upphæðina --- ég hugsa að það séu svona 4 millj. sem yrðu greiddar til velflestra. 4 millj. á að fara að greiða á einu bretti úr ríkissjóði með sköttum lágtekjufólksins. Á að greiða 4 millj. að kröfu stjórnarandstöðunnar? Veikari krafa er 3 millj. ef ekki eru dráttarvextir. Þetta á að fara að borga til fólks sem hefur það sæmilegt með sköttum þeirra sem hafa það oft og tíðum mjög slæmt. Þetta er ekki lífeyrir, herra forseti. Þetta eru þær siðfræðispurningar sem ég kom upp með í hv. heilbr.- og trn. Það er ekki rétt að ekki hafi verið rætt um siðfræði í hv. nefnd.

Svo er það spurningin, herra forseti, talandi um fyrningar sem mér finnst Hæstiréttur hafa bent á. Hæstiréttur segir í VI. kafla í atkvæði sínu, rétt á undan dómsorðinu, að taka þurfi tillit til 48. gr. almannatryggingalaga þar sem talað er um að ekki megi greiða lengur en tvö ár aftur í tímann. Þetta segir Hæstiréttur sjálfur. Hvað er hann að gefa í skyn? Af hverju segir hann þetta? Af því að hann vill ekki greiða þetta lengur aftur í tímann en tvö ár. Síðan er spurning hvort maður má miða við þann dag sem málið var dómtekið, 19. jan. 1999. Þá eru einmitt fjögur ár frá deginum í dag þannig að það er farið að vilja Hæstaréttar í því máli með því að miða við þann dag sem þetta var dómtekið.

Herra forseti. Svo er það spurning: Ef þetta er mannréttindabrot, og mannréttindabrot fyrnast ekki eins og sumir hafa sagt, af hverju skyldu þau þá fyrnast eftir sjö ár? Af hverju gerir stjórnarandstaðan ekki kröfu um 29 ár? Það væru þá aldeilis stórar summur sem sumir fengju. Þá er það ekki bara einn jeppi, þeir yrðu sennilega tveir eða þrír sem einstaka maður fengi. Reyndar er ekki mjög algengt að menn séu öryrkjar í 29 ár en ólíklegustu menn og dánarbú fengju þá lífeyri í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég hef ekki lagt í vana minn að gagnrýna Hæstarétt og ætla ekki að fara inn á þá braut. Hins vegar verð ég að segja að þessi dómur er ekki það skýr að hann leysi úr þeim vanda sem honum var ætlað að leysa. Ég hefði talið æskilegra að dómurinn væri skýrari, að hægt væri að lesa út úr honum einum skilning hvað átt er við. Ef Hæstiréttur hefði dæmt í einni setningu og sagt: Ekki er heimilt að taka tillit til tekna maka við úrskurð bóta örorkulífeyrisþega þá hefði ég strax skilið það og þá þyrftum við ekki að ræða meira. Ef Hæstiréttur hefði sagt að taka megi tillit til tekna fjölskyldunnar við úrskurð bóta, þá hefði þetta líka verið kristaltært en hann gerir hvorugt. Það er ljóður. En greinilegt er að dómurinn er undirstrikun á einstaklingshyggju. Hann er undirstrikun á rétti einstaklingsins og það er mjög mikilvægt og í sjálfu sér er ég ánægður með það þó að niðurstaðan sé að mínu mati félagslega ekki rétt, þ.e. sú niðurstaða að skattleggja lágtekjufólk til að borga hátekjufólki lífeyri.

Herra forseti. Á fundi nefndarinnar kom fram að 43% öryrkja eru ekki með lífeyri úr lífeyrissjóði og reyndar kemur það einnig fram í staðtölum Tryggingastofnunar. Ég spurði hvort það gæti verið að það fólk hefði ekki greitt í lífeyrissjóð þó að það hefði átt að gera það. Svarið var að það væri vissulega mjög oft tilfellið. Ég vil að menn hætti að tala eins og öryrkjar fái bara lífeyri úr almannatryggingum. Skylduaðild að lífeyrissjóðum var sett í lög fyrir 26 árum, árið 1974 á hinu háa Alþingi til þess að menn ættu rétt. Allir launþegar eiga að hafa greitt í lífeyrissjóð frá 1974 og verði þeir öryrkjar frá þeim tíma eiga þeir að fá lífeyri úr lífeyrissjóði og í flestum tilfellum framreiknað nema náttúrlega hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þar sem BSRB hefur ekki staðið nægilega vörð um réttindi félagsmanna sinna. En það eru einu dæmin um virkilega lakan lífeyri. Það er um fólk sem var opinberir starfsmenn og varð öryrkjar og svo náttúrlega fólk sem sveikst um að greiða í lífeyrissjóð og hefur brotið lög sem er allt of algengt.

Í dag fær maður á aldrinum frá þrítugu til fertugs sem er með meðaltekjur ASÍ-félaga, segjum 160 þús. lífeyri sem er um það bil 100 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði sínum vegna framreiknings. Hann fær alla jafna réttindi til 67 ára aldurs. Ég vil að menn tali þannig á hinu háa Alþingi að launþegar hafi farið að lögum, geri ekki alltaf ráð fyrir því að menn hafi ekki farið að lögum og tali um það að menn fái aðeins lífeyri frá almannatryggingum. Þeir sem geta bara fengið lífeyri frá almannatryggingum eru nokkrir hópar og það þarf að kanna þá. Það eru t.d. þeir sem eru í umönnunarstörfum og uppeldisstörfum. Konur sem eru t.d. heima yfir þremur börnum þar sem borgar sig ekki að vinna vegna kostnaðar við barnaheimili fá ekki lífeyrisrétt. Við hv. þm. þurfum að taka á þeim vanda. Af einhverjum ástæðum lendir umönnum alltaf á konum. Þær annast um Alzheimer-sjúka foreldra sína eða maka og geta oft verið heima í áratugi án þess að fá neinn lífeyrisrétt. Þetta þurfum við að athuga, herra forseti. Við hv. þm. þurfum að vinna í þessu því að það erum við sem setjum þessi lög. Í einstaka tilfellum fa námsmenn engan lífeyri. Örorkulíkurnar eru reyndar afskaplega litlar fyrir tvítugt fólk eða fólk undir þrítugu. En það kemur fyrir að námsmenn verði öryrkjar og fólk sem er jafnvel í grunnskóla eða í framhaldsskóla. Í þeim tilfellum var til regla fyrir nokkru þar sem námsmenn fengu námslán sem var greitt af í lífeyrissjóð, Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Það var aflagt, því miður. Þessu þurfum við að huga að líka þannig að þessi hópur manna sé tryggður. Þó að líkurnar séu afskaplega litlar er það jafnslæmt fyrir þá sem lenda í því. Fyrir hinum borgurum þessa lands sem fara aldrei á vinnumarkað, og þá er ég að tala um fatlaða, mismunandi mikið fatlaða, er nokkuð vel séð. Að minnsta kosti hefur verið gert mikið átak í sambýlum fatlaðra og fyrir þeim sem eru á stofnunum er líka nokkuð vel séð. Auðvitað getur verið að þar séu einhver dæmi sem eru ekki nógu góð.

Herra forseti. Í greinargerð minni hlutans segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Síðan hefur það gerst að kaupmáttur lágmarkslauna hefur aukist um 37,5% en kaupmáttur lífeyrisgreiðslna um 11,2% eða um þriðjunginn af því sem kaupmáttur lágmarkslauna hefur batnað.``

Herra forseti. Þetta er allt að því ósvífið. Menn eiga að vita að gert var sérstakt átak meðal aðila vinnumarkaðarins til að hækka lægstu laun. Í áratugi, herra forseti, man ég eftir umræðunni um að það ætti að hækka lægstu launin. Það var ekki hægt vegna þess að þau fóru upp í gegnum alla skala. Ef lægstu launin voru hækkuð, þá hækkaði iðnaðarmaðurinn og öryrkinn líka og allar lífeyrisskuldbindingar lífeyrissjóðanna voru meira að segja bundnar við lágmarkslaun, annan taxta Dagsbrúnar. Allar skuldbindingar lífeyrissjóðanna voru bundnar við þetta. Vegna þess arna var ekki hægt að hækka lægstu launin sem kom ekki niður á voðalega mörgum en nokkrum borgurum þessa lands sem unnu á lágmarkstaxta sem voru oft og tíðum konur. Ekki var hægt að hækka lágmarkslaunin. Ég man að ég sagði þegar ég kom inn á þing að það væri skömm að því hvað lægstu launin, sem voru þá 48 þús. kr., væru lág.

Nú hefur með sameiginlegu átaki verkalýðshreyfingarinnar tekist að hækka þessi lægstu laun og það átti að gerast án þess að hafa áhrif nokkurs staðar annars staðar. Það var sammæli allra aðila. Það átti ekki að hafa áhrif á laun iðnaðarmanna eða annarra. Þeir áttu ekki að klifra upp eftir bakinu á þeim sem voru með lægstu launin. Þetta hefur tekist. Þessi lægstu laun eru núna orðin nokkuð þokkaleg, mættu reyndar vera pínulítið betri. En að bera hækkanir á lífeyrisgreiðslum saman við þessi laun finnst mér vera ósvinna vegna þess að þessi laun áttu að hækka. Það var búið að halda þeim svo lengi niðri án tillits og áhrifa á aðra þætti.

Herra forseti. Ég benti á í fyrri ræðu minni að mjög mikilvægt væri fyrir samtök eins og Öryrkjabandalagið að vera í góðri samvinnu við löggjafarsamkunduna, hið háa Alþingi, og í góðri samvinnu við ríkisvaldið. Mér finnst að atburðir síðustu vikna séu ekki í þessa veru. Mjög mikilvægt er fyrir svona samtök að vinna með mörgum og eins og ég gat um átti ég frumkvæði að góðum fundi með formanni Öryrkjabandalagsins í sumar, eina dagstund þar sem ég fór í gegnum þau mál sem mér finnst brenna á öryrkjum og hleraði hann um þau vandamál sem brenna á öryrkjum frá þeirra hendi. Þetta finnst mér að þurfi að gera. Það eru nokkur mál sem ég hef getið um sem brenna á öryrkjum og mætti bæta. Ég kom inn á það í fyrri ræðu minni og ætla ekki að endurtaka það.

En nú gerist það að Hæstiréttur dæmir þennan dóm og dómurinn er metinn og hvað gerist? Tekjutengingin verður meiri. Hún verður óhjákvæmilega meiri. Þegar menn ætla að fara að taka meira tillit til einstaklingsins og fara að borga hátekjufólki aukinn lífeyri hlýtur tekjutengingin að verða meiri. Það er ekki til hagsbóta fyrir öryrkja sem getur unnið og vill vinna eitthvað eilítið. Mér finnst að hv. löggjafarsamkunda sem mótar stefnuna í þessu máli --- við höfum löggjafarvaldið, ekki ríkisvaldið --- eigi að taka sér tak og fara í gegnum málefni öryrkja og reyna að leysa þennan vanda. Ég vil nefnilega að öryrkjar geti unnið, þeir sem það vilja og geta, og að kerfið banni þeim ekki að vinna. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að það sé góður andi í samskiptum Öryrkjabandalagsins sem og annarra hliðstæðra samtaka og ríkisvaldsins og löggjafarsamkundunnar.