Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 11:09:21 (4147)

2001-01-23 11:09:21# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[11:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég sagði var að fyrir mér er hugtakið mannréttindi og mannréttindabrot mjög alvarlegur hlutur og ég sagði að ég gæti ekki þynnt það út eins og menn hafa gert. Aðrir geta haft aðra skoðun á þessu. Verði þeim að góðu. Ég virði þá skoðun. En menn geri svo vel að leyfa mér að hafa skoðun líka, mína skoðun.

Varðandi einstaklingshyggjuna og jafnaðarmennskuna þá skil ég ekki hvernig hv. þm. getur látið fólk sem er jafnvel með yfir 400 þús. kr. tekjur --- þeir eru þó nokkrir með fjölskyldutekjur yfir 400 þús. kr. --- fá bætur sem eru fjármagnaðar með sköttum lágtekjufólks. Þetta er það sem ég ekki skil. Þetta félagslega réttlæti gengur ekki inn í minn huga. En að sjálfsögðu virði ég skoðun hv. þm. að það sé réttlætanlegt að skattleggja lágtekjufólk til að borga hátekjufólki bætur.