Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 11:13:28 (4151)

2001-01-23 11:13:28# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[11:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. virðir skoðun mína og ef hún virðir persónu mína og virðir mig sem þingnmann má hún ekki segja að skoðun mín sé röng og að ég sé að brjóta stjórnarskrána. Hún getur í hæsta lagi sagt að hún telji að ég sé að brjóta stjórnarskrána. Og hún getur í hæsta lagi sagt að hún telji að ég sé að brjóta mannréttindi. Hún getur ekki sagt að ég sé að brjóta mannréttindi. Á þetta hef ég lagt áherslu. Ég hef aldrei nokkurn tíma sagt --- ég ætla að vona a.m.k. að ég hafi ekki sagt það --- að skoðun annarra þingmanna sé röng eða að þeir hafi á röngu að standa. Ég get í hæsta lagi sagt að ég telji að skoðun þeirra sé röng eða að þeir hafi á röngu að standa. Við verðum að bera virðingu hvert fyrir öðru og ekki vera með fullyrðingar um að við höfum fundið sannleikann og aðrir vaði í villu og svíma.