Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 11:18:34 (4156)

2001-01-23 11:18:34# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[11:18]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Umræðan um dóm Hæstaréttar gagnvart öryrkjum hefur verið löng hér á hinu háa Alþingi en ég hefði hugsað mér að hefja mál mitt á tilvitnun í blaðaviðtal við ungan öryrkja í Morgunblaðinu á sunnudaginn var og gera þau orð að mínum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Dómur Hæstaréttar er ekki aðeins sigur öryrkja í sambúð heldur allra öryrkja og raunar þjóðarinnar allrar enda veit enginn hver þarf næstur á örorkulífeyri að halda.``

Í framhaldi af þessum dómi hefur farið af stað mikil og kröftug umræða út um allt þjóðfélag vegna þessa máls og þá kannski alveg sérstaklega vegna arfavitlausra viðbragða hæstv. ríkisstjórnar við þessum dómi sem er reyndar alveg ótrúlegt og vonlaust að fá nokkurn botn í hvers vegna brugðist var við á þann hátt sem gert var. Hvers vegna var ekki gengið í að greiða út frá 1. janúar þær bætur sem öryrkjum var sannarlega dæmt að ætti að greiða, þær rúmar 51 þús. kr. sem við erum að deila um? Í þeirri umræðu sem ég hef hlustað á á hinu háa Alþingi, sérstaklega frá stjórnarsinnum, hef ég ekki komist að neinni niðurstöðu um hvað liggur að baki og hvers vegna talan 43 þús. er fundin en ekki 40 þús. eða 45 þús. Ekkert svar kemur heldur við því. Það er með ólíkindum, herra forseti, að ríkisstjórnin hefur hrakist út í það forarsvað og það stríð að ráðast á þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu eins og kemur fram í viðbrögðum hæstv. ríkisstjórnar við þessum dómi. Skipun háyfirréttar í framhaldi af því til þess að finna einhverjar færar leiðir til að fara á svig við dóm Hæstaréttar er líka með ólíkindum og hæstv. ríkisstjórnar til stórskammar. Þar voru fundnir til helstu skósveinar forustumanna ríkisstjórnarinnar til að reyna að koma með einhverjar tillögur til að gera það að verkum að ekki yrði greitt út og farið eftir fullnaðarsigri Öryrkjabandalagsins fyrir Hæstarétti.

Herra forseti. Í umræðu á Alþingi hefur margt verið sagt og fyrsti ræðumaður þessa dags, hv. þm. Pétur H. Blöndal, fór yfir þetta svið og komu frá honum ótrúleg ummæli og er rétt að ítreka enn einu sinni og spyrjast fyrir hvað hv. þm. á virkilega við í því sambandi. Ég sé að hv. þm. er farinn úr salnum en ég hefði talið æskilegra að hann væri á svæðinu þegar ég ræði um málflutning hans og önnur orð sem hann hefur látið frá sér fara. Mér er frekar illa við að gera það að honum fjarstöddum.

(Forseti (GuðjG): Hv. þm. er í húsinu. Forseti mun senda honum boð um að nærveru hans sé óskað.)

Já, takk. Ég kem þá að því síðar.

Herra forseti. Mjög stór hluti öryrkja er lítt efnum búinn og á verulega undir högg að sækja. Þannig hefur það verið alla starfstíð þessarar ríkisstjórnar og síðasta kjörtímabil líka. Lítið sem ekkert hefur verið gert til þess að bæta hag þeirra.

Þessir þjóðfélagshópar eiga verulega bágt í þjóðfélaginu. Ég trúi ekki öðru en hv. stjórnarsinnar séu í jafnmiklum tengslum við þetta fólk og aðrir og þeir séu ekki vel meðvitaðir um hvers konar kjör því eru búin og við hvaða lífskjör þetta fólk á að búa og hvernig það er jafnvel á síðustu dögum mánaðar að reyna að láta enda ná saman og nurla saman einhverju til að geta haft ofan í sig, maður talar nú ekki um á sig.

Herra forseti. Við þingmenn lentum í því ekki alls fyrir löngu að ganga í hús í landinu fyrir Rauða krossinn og safna peningum. Því langar mig að segja frá einu dæmi sem ég lenti í sem er brennt inn í huga minn og verður svo sennilega það sem eftir er. Við söfnunina lenti ég í því að til dyra kom öryrki, sem ég veit að hefur haft það mjög dapurt í þjóðfélaginu og hefur átt að lifa á strípuðu bótum, hafa engan lífeyrissjóð vegna þess að lífeyrissjóðir voru ekki til þegar þessi aðili var að vinna og þegar þeir voru til var þessi þegn heima hjá sér að ala upp börn og gæta aldraðs foreldris. Ég kynnti erindi mitt og þennan rauða bauk og fékk þá svarið að það væru hreinlega engir peningar til til að leggja inn í þetta þarfa verk, með ákveðnum orðum sem ég ætla ekki að hafa í frammi á hinu háa Alþingi. Mér var þetta ákaflega minnisstætt og sorglegt.

Herra forseti. Þær strípuðu bætur sem þessum þjóðfélagshópum eru skammtaðar og þeir verða að skrimta af eru jafnframt skilaboð frá stjórnvöldum hvers tíma um útskúfun úr því velmektarsamfélagi sem við teljum okkur vera að byggja upp á Íslandi. Þetta er aðskilnaðarstefna sem er í senn siðlaus og stórhættuleg.

Ef maður nefnir það í leiðinni sem varðar börn öryrkja og það sem við bjóðum þessu fólki liggur við að börn öryrkja finni það strax á unga aldri hvernig þau eru nánast útskúfuð úr þjóðfélaginu vegna þess að peningar eru ekki til til þess að þau taki þátt í ýmsum störfum samfélagsins eins og íþróttum og menningarstarfi. Þess vegna, herra forseti, er alveg með ólíkindum að þegar rætt er um þessi atriði skuli koma fram sjónarmið eins og komu fram áðan frá hv. þm. Pétri H. Blöndal þó ég taki skýrt fram að ég virði skoðanir hans eins og hann bað mann margsinnis um að gera en ég er 100% ósammála þeim. Mér finnst alveg með ólíkindum að menn á hinu háa Alþingi skuli láta það út úr sér sem kom fram í þessari ræðu áðan og að maður tali ekki um þátt sem var í sjónvarpi þegar Alþingi var að koma saman í byrjun október eftir að öryrkjar og aldraðir söfnuðust saman fyrir utan Alþingishús til að mótmæla bágum kjörum sínum. En fyrst aðeins að því sem kom fram í máli hv. þm. áðan.

Hv. þm. talaði um að ef þetta yrði allt greitt út eins og dómurinn segir til um, 51 þús. kr., væru hærri vextir o.s.frv. og þá væru það svo rosalega háar tölur sem öryrkjum yrðu greiddar að það væri jafnvel ekki eitt jeppaverð heldur tvö jeppaverð. Í þessu sambandi sagði hv. þm. eitthvað á þá leið að það væri ólíklegt að menn hefðu verið öryrkjar í 29 ár. Hvað á hv. þm. við með þessum orðum? Hv. þm. ræðir um fyrningar sem við höfum verið að deila um og hvernig á að greiða til baka. Ég leyfi mér að spyrja hv. þm.: Ef ég skulda þessum hv. þm. eina millj. kr. og á að borga það á árinu en tek mig til og borga honum helminginn eða 500 þús. á árinu, skerði með öðrum orðum umsamda greiðslu um 50%, mundi hv. þm. sætta sig við að fá bara helminginn? Ég geri ráð fyrir ekki. Ætli hann mundi ekki höfða dómsmál gegn mér og krefjast þess að ég borgaði honum það sem ég skulda og það sem hann átti sannanlega að fá og ef dómurinn félli þannig, sem er ekki ólíklegt, að mér yrði dæmt í óhag og ég ætti að greiða þetta fullkomlega þyrftum við þá nokkuð að setjast niður? Væri hv. þm. til viðræðu um að setjast niður þrátt fyrir dóminn og við mundum semja um að ég greiddi kannski bara 60% eða eitthvað svoleiðis?

Með öðrum orðum, dómur hefur fallið. Þau lög sem hér var verið að dæma um voru ólög og ekki var heimild til að gera þetta. Þarna hefur verið haft fé af fólki og því á að skila fullkomlega, nákvæmlega eins og þeirri milljón sem ég ætti að skila hv. þm. Pétri H. Blöndal ef ég skuldaði honum milljón en ekki bara 500 þús. eða 600 þús. eða eitthvað slíkt. Ég er ekki viss um að hv. þm. mundi semja um einhverja lágmarksvexti í þessu sambandi.

Herra forseti. Ég ætla þá að snúa mér að öðrum orðum sem hafa fallið í þessari umræðu eða réttara sagt sem féllu í umræðum um ekki ósvipað mál í upphafi þings og viðtal sem var við hv. þm. Pétur H. Blöndal á Stöð 2 í þætti sem heitir Svar óskast. Þar kemur fram skýring sem ég er ekki sáttur við og vil eiga orðastað við hv. þm. á Alþingi um og ég held að líka sé nauðsynlegt að festa ýmislegt úr þessu viðtali í þingtíðindi vegna þess að ekki eingöngu öryrkjum og öldruðum sárnaði það mjög sem þar kom fram heldur var ég mjög ósáttur við að starfsfélagi minn á Alþingi léti þessi orð falla þó ég ætli að virða skoðanir hans hvað það varðar þótt ég sé 100% ósammála þeim eins og ég sagði áðan. Ég ætla að grípa aðeins niður í þetta viðtal. Þetta er í framhaldi af því þegar aldraðir og öryrkjar söfnuðust saman við setningu Alþingis og mótmæltu kjörum sínum. Fréttamaðurinn heitir Róbert Marshall og gríp ég hér inn í þar sem aðalatriðin koma fram.

Fréttamaðurinn spyr hv. þm. hvort hann sé mjög ánægður með fjárlögin, með leyfi forseta: Hv. þm. Pétur H. Blöndal svarar: Já, þetta eru mjög góð fjárlög. Það er afskaplega óvenjulegt að sjá svona mikinn afgang, 30 milljarða kr.

[11:30]

Fréttamaðurinn spyr: Aldraðir eru ekki ánægðir með sitt. Hv. þm. svarar: Nei. Það er búið að koma því inn hjá öldruðum og þjóðinni allri að þeirra staða sé slæm, en það er bara ekki rétt.

Fréttamaðurinn spyr: Það er búið að koma því inn hjá öldruðum, það er búið að telja þeim trú um það? Hv. þm. Pétur Blöndal svarar: Já, það er búið að því. Þeirra lífeyrir hefur hækkað um 20% umfram verðlag á síðustu fimm árum og það þýðir að þeir geta keypt sér núna 20% meira en þeir gátu fyrir fimm árum.

Fréttamaðurinn spyr: Ertu að segja mér það, Pétur, að aldraðir finni það ekki á eigin skrokki að þeir hafi það ekki nógu gott? Hv. þm. svarar: Þegar maður talar við aldraða eða öryrkja, þá segir hver um sig að þeir hafi það í rauninni ágætt og ég er búinn að fara í gegnum fullt af dæmum.

Fréttamaðurinn spyr: Ertu að segja mér það að allt þetta fólk sem kom niður á Austurvöll í vikunni og hrópaði ... Hv. þm. tekur orðið og segir: Það var allt örugglega ekki fátækt.

Fréttamaðurinn: Heldurðu að það hafi verið eða var búið að glepja þetta fólk til þess að koma niður á Austurvöll og ...? Hv. þm. tekur orðið: Ég segi það, já. Umræðan er svo yfirborðskennd. Hún er svo yfirborðskennd að menn leyfa sér að taka einn lífeyri út úr öllum þeim fjölda bóta sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar eiga rétt á.

Fréttamaðurinn: Þannig að þetta eru nytsamir sakleysingjar sem eru fluttir niður á Austurvöll. Hv. þm. svarar: Já, ég held það. Í fyrsta lagi fá menn ellilífeyri. Síðan fá menn tekjutryggingu. Síðan fá menn heimilisuppbót og sérstaka heimilisuppbót. Síðan fá þeir sem vilja húsaleigubætur og svona má telja áfram og áfram.

Fréttamaðurinn: En menn voru að rifja upp þessar hundraðkallshækkanir sem þeir voru að fá. Hv. þm. Pétur Blöndal svarar: Akkúrat. Það er akkúrat dæmi um það hvað umræðan er yfirborðskennd.

Síðar í þessum þætti er spilað af spólu það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði héðan úr þessum ræðustól í umræðu utan dagskrár sem mig minnir að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hafi hafið um kjör aldraðra. Þessi ummæli eru spiluð í þættinum og þar kemur fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Auðvitað eru slæmar fjárhagsástæður hjá öldruðum eins og hjá öðrum hópum þjóðfélagsins. Fólk hefur fjárfest glannalega, tapað í atvinnurekstri, skrifað upp á og svo er auðvitað óreglan sem er allt of víða.``

Fréttamaðurinn kemur inn í: Offjárfesting og óregla. Kann gamla fólkið ekki að fara með peninga? Hv. þm. svarar: Nú skal ég segja þér eitt. Ég er búinn að fara í gegnum dæmi hjá mörgum, mörgum öryrkjum og ellilífeyrisþegum. Ég sit um það, ég vanda mig við að fá að heyra stöðu öryrkja og ellilífeyrisþega og flest dæmin þar sem staðan er vonlaus eða mjög slæm er vegna uppboðsskipta, vegna þess að menn hafa orðið gjaldþrota í atvinnurekstri eða menn hafa verið glannalegir í fjárfestingum eða hreinlega vegna óreglu. Og hvernig getum við lokað augunum fyrir því aðalfélagslega meini og fjölskyldumeini á Íslandi sem er óreglan?

Fréttamaðurinn Róbert Marshall kemur inn í og spyr: En getum við afgreitt vandamál ákveðins þjóðfélagshóps með því að segja þetta í Alþingi? Eru þessi ummæli sæmandi alþingismanni? Hv. þm. Pétur Blöndal svarar: Má ekki segja sannleikann? Má ekki segja það sem allir vita? Í hverri einustu fjölskyldu á Íslandi, --- ég fullyrði í nánast hverri einustu fjölskyldu er eitthvert vandamál með óreglu annaðhvort vegna áfengis, eiturlyfja eða vegna fjármálaóreiðu. Þetta er til og af hverju má ekki nefna hlutina?

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram til að fyrirbyggja allan misskilning að hér var ég að lesa það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði. Það er alveg með ólíkindum að þetta skuli koma frá hv. alþm. Ég tek skýrt fram að ég er ákaflega ósáttur við slík ummæli og mjög sár yfir því að þetta skuli vera sagt og ég veit að þetta fór mjög fyrir brjóstið á öryrkjum og öldruðum mörgum hverjum sem falla ekki undir neitt í þessari upptalningu.

Herra forseti. Það eru fjöldamargir ef ekki flestir öryrkja og mjög margir aldraðir sem hafa það mjög skítt í þjóðfélaginu þrátt fyrir að ekkert af ásökunum hv. þm. eigi við rök að styðjast. Það er alveg með ólíkindum að þetta skuli vera lagt svona fram og sýnir á hvaða plani þessi umræða er. Til langs tíma og í mörgum umræðum á Alþingi var hv. þm. Pétur H. Blöndal einn eða kannski annar tveggja í mesta lagi af talsmönnum Sjálfstfl. í umræðum um tryggingamál sem hafa verið í haust.

Einnig hefur verið rætt um kjör aldraðra í dag og oft hefur verið vitnað í Öryrkjabandalagið og að hæstv. forsrh. missti stjórn á skapi sínu einu sinni í umræðum á Alþingi út af auglýsingu sem Öryrkjabandalagið birti fyrir síðustu kosningar sem var á þá leið, með leyfi forseta, og ég ætla að lesa ýmislegt úr þessari auglýsingu. Hún er mjög góð og birtist mánudaginn 27. apríl 1999 í blaði allra landsmanna, Morgunblaðinu. Fyrirsögnin á þessari auglýsingu er þannig:

,,Á síðustu mánuðum hafa sífellt fleiri gengið fram fyrir skjöldu til að minna stjórnmálamenn á afdrifaríkasta siðferðisvanda einnar ríkustu þjóðar veraldar. Kjósum við óbreytt ástand?``

Þetta olli taugatitringi hæstv. forsrh. á einu augnabliki og fúkyrðum í garð Öryrkjabandalagsins héðan úr ræðustól. En gaman væri að vitna í nokkur atriði úr þessari auglýsingu vegna þess að í rauninni hefur ekkert breyst frá því að hún birtist og nægir þar að minna hv. þm. og aðra á, ef þeir hafa þá ekki klippt hana út, sérstaklega stjórnarsinnar, fimm dálka mynd sem birtist í blöðunum rétt fyrir jól sem sýndi biðröðina sem var hjá mæðrastyrksnefnd til að leita sér aðstoðar fyrir jólin. Sá biðlisti hefur ekki minnkað.

Í þessari auglýsingu segir m.a. herra Karl Sigurbjörnsson biskup, með leyfi forseta:

,,Á þriðja þúsund einstaklingar þurftu að þiggja aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir nýliðin jól, og það í mesta góðæri Íslandssögunnar. Þetta fólk er flest öryrkjar sem ættu samkvæmt viðurkenndum grundvallarsiðgildum okkar þjóðar að njóta velferðar og stuðnings samfélagsins. Eitthvað er nú að.``

Þetta sagði herra Karl Sigurbjörnsson biskup í nýársprédikun sinni í janúar 1999. Ástandið hefur ekki batnað.

Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, sagði m.a. í þessari auglýsingu:

,,Verstur er þó hlutur öryrkjanna, sem aldrei hafa beðið um sína örorku en eru háðir þeim smánarskammti sem hrekkur af borðum allsnægtarinnar.`` (Gripið fram í: Eru þessir menn flokksbundnir í Samfylkingunni?)

Ólafur Ólafsson, fyrrv. landlæknir, segir í sömu auglýsingu: ,,Upplýsingar um örorkugreiðslur hér á landi eru ekki til að fara með í aðra hreppa, þær eru svo lágar þrátt fyrir að við höfum verið ein tekjuhæsta þjóð í heimi í áratugi. Hafa menn gleymt tilgangi almannatrygginga?``

Og Bengt Lindqvist, umboðsmaður fatlaðra hjá Sameinuðu þjóðunum, segir þetta, og taki hv. þm. eftir: ,,Þó að íslenska ríkisstjórnin hafi verið ein sú fyrsta sem lét þýða grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra, þá er ekki nóg að þýða þær. Það þarf líka að framfylgja þeim.``

Forustugrein Morgunblaðsins í desember 1998: ,,Í ljósi réttsýni og sanngirni er tímabært, að ekki sé fastar að orði kveðið, að endurskoða stöðu öryrkja, sérstaklega þeirra sem urðu öryrkjar ungir.`` Þetta sagði Morgunblaðið í desember 1998. Hafa kjör þessa hóps eitthvað verið bætt? Nei.

Herra forseti. Umrædd auglýsing hefur orðið tilefni til mikilla umræðna og mjög hvassra hér á hinu háa Alþingi og mér segir svo hugur að það sé hluti af allt að því sem ég kalla hatri sem kemur fram frá nokkrum hæstv. ráðherrum í garð Öryrkjabandalagsins, sennilega vegna þessara auglýsinga. En þess ber að geta að Félag eldri borgara og Landssamband eldri borgara efndu sameiginlega til kröfugöngu og útifundar á sama tíma og með auglýsingu um sama efni og var tekið undir þau atriði sem þar voru sett fram.

Við getum síðan farið aðeins yfir það, herra forseti, hvernig þessir bótaflokkar hafa hækkað eða staðið í stað, sérstaklega með tilliti til yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar við gerð kjarasamninga sem hún gaf út 10. mars árið 2000. Stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík sendi öllum alþingismönnum bréf, en það er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Þann 10. mars 2000 gaf ríkisstjórn Íslands út yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga á árinu 2000. Stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni lýsir yfir miklum vonbrigðum og mótmælir harðlega þeim smánarlegu hækkunum almannatrygginga sem fyrirhugaðar eru samkvæmt yfirlýsingunni. Þessi yfirlýsing er algerlega í mótsögn við þau fyrirheit um að bæta hag þeirra lífeyrisþega sem hafa eingöngu greiðslur frá almannatryggingum. Samkvæmt yfirlýsingunni breikkar enn bilið milli lægstu launa og tryggingagreiðslna sem er alls ekki í samræmi við fyrri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar sem m.a. var sagt að greiðslur almannatrygginga skulu fylgja launaþróun í landinu.

Í kjarasamningum Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins sem framangreind yfirlýsing byggðist á er gert ráð fyrir að þeir sem voru á töxtum að upphæð 70 þús. kr. eða lægri munu hækka meira heldur en gert er ráð fyrir í almennu hækkuninni eða hækka upp í 91 þús. kr. á samningstímabilinu. Félag eldri borgara telur eðlilegast að greiðslur almannatrygginga miðist við þær hækkanir og krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði sérstaklega þennan hluta yfirlýsingarinnar þar sem verulegur hluti bótaþega almannatrygginga er undir 70 þús. kr. mörkunum.``

Hvernig var svo samningurinn? Þeir taxtar sem voru 70 þús. kr. og lægri áður en samningar náðust hækkuðu um 8,9% 1. mars árið 2000. Tryggingagreiðslurnar hækkuðu aðeins um 4,5% 1. apríl 2000. Það voru bæturnar sem aldraðir og öryrkjar héldu að væri aprílgabb. Þetta kom 1. apríl og þeir héldu að það væri aprílgabb frá hæstv. ríkisstjórn þegar þeir fengu hækkunina sem var á grunnlífeyri 151 kr., og á tekjutryggingu ellilífeyrisþega og öryrkja 260 kr., en það reyndist ekki aprílgabb, því miður.

Þessir sömu taxtar hjá 70 þús. kr. fólkinu og lægra áður en samningar náðust hækkuðu um 6,5% 1. janúar árið 2001 en tryggingagreiðslur aðeins um 3%. 1. janúar 2002 hækka þessir lægstu taxtar um 6,5% en tryggingagreiðslurnar aðeins um 3%, og í lokin hækka kauptaxtarnir um 5,25% 1. janúar 2003 en þá munu tryggingagreiðslurnar aðeins hækka um 2,25%, enda er það svo, herra forseti, að árið 1990 námu aðalbótaflokkar Tryggingastofnunar, þ.e. grunnlífeyrir og tekjutrygging, samtals 51,4% af meðaldagvinnulaunum verkamanna.

Árið eftir fór þetta hlutfall í 51,7%, en frá árinu 1991 hefur hlutfallið lækkað stöðugt. Það var 43,1% árið 1998 en hækkaði í 43,8% árið 1999. Þessar tölur sýna okkur, herra forseti, að grunnlífeyrir og tekjutrygging þurfa að hækka um 18% til að aldraðir standi kjaralega í sömu stöðu og þeir voru gagnvart verkafólki árið 1999.

[11:45]

Ef horft er til þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í vor stefnir í að grunnlífeyrir og tekjutrygging haldi áfram að lækka sem hlutfall af launum verkamanna, hlutfallið verði komið niður í 42,4% árið 2003 ef ekki komi til stefnubreyting af hálfu stjórnvalda varðandi hækkun bóta.

Herra forseti. Þetta er í takt við það sem ég var að lesa áðan um hækkaðar tryggingagreiðslur sem hæstv. ríkisstjórn skammtar því fólki sem getur ekki samið um eitt eða neitt heldur verður að þiggja þá brauðmylsnumola sem hrökkva af borðum hæstv. ríkisstjórnar um þessar mundir.

Herra forseti. Ég ætla að snúa mér aftur að þeim dómi sem við höfum verið að fjalla um og því lagafrv., því skerðingarfrv. sem hér er verið að keyra í gegnum Alþingi í krafti stjórnarmeirihlutans og þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum um það. Hér hefur mikið verið rætt um þetta og seint verðum við sammála um það.

Það er alveg með ólíkindum hvað hæstv. ríkisstjórn fór klaufalega í það mál eftir að þessi dómur féll. Sá sem tapaði málinu hefur aldrei gert sér far um að hafa samband við þann sem vann málið. Hæstv. ríkisstjórn hefur aldrei og ekki dottið það í hug að hafa samband við stjórnarandstöðuna um þetta mál á undirbúningsstigi þess. Nei, hún keyrir áfram í krafti meiri hlutans. Það gerir hún svo sannarlega.

Það hefði kannski verið örlítið meiri stíll á því hjá hæstv. ríkisstjórn að kalla Öryrkjabandalagið til viðræðna í framhaldi af þessu máli, greiða þeim það sem þeir eiga að fá samkvæmt dómnum 1. janúar og greiða svo hitt allt saman aftur í tímann fullkomlega eins og átti að gera. Jafnframt hefði verið smábragur á því hjá hæstv. ríkisstjórn að efna til samstarfs eða samvinnu innan hv. Alþingis meðal stjórnmálaflokka um hvernig á þessum málum skuli taka í framtíðinni þannig að við verðum ekki sífellt að ræða það hér.

Nei, það var ekki gert og það er óskiljanlegt hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutanum að keyra þetta svo í gegn. Það læðist að manni sá grunur að það sé vegna þess að það mátti ekki láta það koma þannig út að Öryrkjabandalagið hefði unnið fullnaðarsigur, ,,ippon`` eins og það heitir á júdómáli, sem það sannarlega gerði, og láta stjórnkerfið ganga frá hlutunum í framhaldi af því. E.t.v. hefur einhverjum hæstv. ráðherrum fundist það vera mikil niðurlæging og það kemur kannski heim og saman við það sem ég nefndi áðan sem mér finnst stundum hafa komið út eins og hálfgert hatur gegn Öryrkjabandalaginu sem kemur svo fram að sjálfsögðu gegn öllum öryrkjum.

Það var ljótur leikur og hreinlega ljótasti leikur í þessari deilu þegar hæstv. ríkisstjórn ætlaði að reyna að etja öryrkjum saman, að etja þeim upp í deilur um það sem ég var að ræða um áðan, þ.e. þær lágmarksbætur sem stór fjöldi öryrkja fær, þær smánarlegu bætur sem þar eru sem vonlaust er að draga fram lífið á eða að hafa mannlega reisn í þessu þjóðfélagi. Hún ætlaði að etja saman ,,ríku öryrkjunum`` eins og einhverjir hér hafa nefnt þá sem njóta þeirra forréttinda að hafa ekki þurft að skilja við maka sína og eiga maka sem e.t.v. eru fullvinnufærir og þéna töluverða peninga og svo hinum sem kannski hafa aldrei fundið sér maka eða hafa ekki farið þá leið. Það var einn ljótasti leikur þessarar deilu í framhaldi af þessum dómi. Hann var jafnvel verri en að skipa yfirhæstarétt til að fara í gegnum málið með nokkrum vildarvinum Sjálfstfl. og Framsfl. í lögfræðistétt.

Það er aumt hlutverk Framsfl. í þessu máli, flokks sem fyrr á árum nuddaði sér upp við félagshyggju, jafnaðarmennsku, samhjálp og annað, hvernig hann hefur látið Sjálfstfl. teyma sig út í það foráttufen eða það fen sem þeir eru komnir í nú. Það er sennilega svipað með Framsfl. í þessum málum og í byggðamálunum þar sem Framsfl. hefur farið langt frá sínum stefnumálum, svikið þau öll, þar sem hann hefur verið aðili að ríkisstjórn þegar ein mesta byggðaröskun hefur átt sér stað á þessu landi hin síðari ár.

En það ber að virða og það ber að taka ofan fyrir hæstv. félmrh. Páli Péturssyni sem hefur komið fram í fjölmiðlum og sagt beint og án nokkurra undanbragða að Framsfl. hafi gleymt landsbyggðinni. Þetta sagði hæstv. ráðherra í útvarpsviðtali norður í landi og það ber að virða þegar menn koma svo hreint til verks eins og hæstv. félmrh. gerði í þessu viðtali gagnvart byggðamálum.

En hæstv. ráðherrar og aðrir þingmenn Framsfl. hafa ekki viðurkennt neitt svona gagnvart þessu máli heldur göslast áfram, teymdir af sjálfstæðismönnum í þessari deilu, en koma ekki fram til að ræða þessi mál. Það er ákaflega gaman að geta þess að núna rétt á þessari stundu, herra forseti --- ég sé að búið er að skipta um forseta --- ég ætlaði að segja að tveir stjórnarþingmenn væru í salnum. En það er nú bara einn. Ég hélt þeir væru tveir. (Gripið fram í.) Það má virða hv. þm. Pétur H. Blöndal fyrir það að hann situr þó í þingsal þegar þessi mál eru rædd. Aðrir þingmenn Sjálfstfl. eru ekki hér, að (Gripið fram í.) maður tali ekki um framsóknarmennina. Ég er að spá í hvort framsóknarmenn hafi ekki áttað sig á því að þingfundur hófst kl. 10.30. Hér er enginn þingmaður núna og það er rétt, herra forseti, að geta um það sérstaklega hvað framsóknarmenn hafa haldið sig til hlés í þessari umræðu. (JB: Við erum ekki framsóknarmenn.) Nei, ég ætla ykkur ekki það slæmt að telja ykkur framsóknarmenn, hv. þm. Þuríður Backman og Jón Bjarnason, þegar þið gangið inn í salinn. Það dettur mér ekki til hugar.

En það er með ólíkindum hvað framsóknarmenn eru á flótta frá þessum málum öllum. Herra forseti. Það er líka gaman að geta þess svona aðeins til að festa það í þingsöguna og líka í þingskjöl að það kemur ansi oft fyrir núna upp á síðkastið við utandagskrárumræður á hinu háa Alþingi að fulltrúar frá Framsfl. ---- Framsfl. ætti nú yfirleitt að senda tvo fulltrúa í þær umræður --- að það hefur gerst æ ofan í æ í fjöldamörgum utandagskrárumræðum upp á síðkastið að framsóknarmenn hafa ekki mætt í þær umræður, ekki tekið þátt í þeim. Ég var að spá í það um daginn hvort Framsfl. væri orðinn hálfgert B-hlutdeildarskírteini í Sjálfstfl. Framsóknarmenn eru stikkfrí hér og láta ekki sjá sig, taka ekki þátt í umræðunni en eftirláta það bara A-deildarskírteininu, Sjálfstfl. Eins og við vitum fengu menn fyrst B-deildarskírteini í hlutafélagi sem að vísu er skráð í Ameríku og hafa svo fengið skipt yfir í A-deildarskírteini núna. Ég get ekki séð annað með Framsfl. en hann sé bara orðin deild innan Sjálfstfl. og að Hannes Hólmsteinn Gissurarson sé kominn hálfa leið með að sameina Sjálfstfl. og Framsfl. sem hann telur eitt brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála í dag.

Herra forseti. Það mætti ræða áfram um margt af því sem komið hefur fram í þessari umræðu. Eitt er það atriði sem ég hef hlustað eftir og hef alltaf verið að bíða eftir einhverju svari við frá hv. stjórnarþingmönnum, þ.e. um þessar 8 þús. kr., þessa skerðingu úr 51 þús. kr. ofan í 43 þús. kr. Þetta er aðeins rúnnað af.

Þessar 8 þús. kr. komu hér við sögu í umræðu í gærkvöld. Hæstv. utanrrh., starfandi heilbr.- og trmrh., lét það koma fram að þetta væru um 700 manns eða 5,6 milljónir á mánuði. Eftir skatta voru þetta svona 3,4--3,5 milljónir á mánuði sem þessi skerðing er eða rétt rúmar 40 milljónir á ári. Hvers vegna er verið að ganga þessa leið fyrir þessar 40 milljónir? Hvað liggur að baki því að þetta er svona skert?

Förum aðeins yfir það hvað 40 milljónir eru miklir peningar í þeirri hít sem ríkissjóður er og við erum hér að fjalla um í lok hvers árs er við semjum fjárlög til að fara eftir. 40 milljónir eru 60--80 millj. kr. lægri tala en Þjóðmenningarhúsið, sem hæstv. forsrh. var byggingarstjóri að, fór fram úr áætlun. Og þessar 40 milljónir eru smáaurar í samanburði við það húsnæði sem verið er að innrétta í Austurstræti 8--10 undir þingflokk Sjálfstfl. sem mun kosta 210 millj. aðeins í innréttingunum, takið þið eftir, ekki bygging hússins vegna þess að húsið byggir annar aðili og Alþingi leigir húsið. En Alþingi tekur að sér að innrétta þetta húsnæði fyrir þingflokk Sjálfstfl. og áætlað er að kosti 210 milljónir að innrétta húsið. (PHB: ... atkvæði með því?) Ég greiddi ekki atkvæði með því, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að áætlunin um innréttinguna í þessu húsi yrði í kringum 80 milljónir en lokakostnaðurinn um 210. Og ég trúi því ekki (Gripið fram í.) að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé ánægður með ráðstöfun á þessu fé. (Gripið fram í.) Gott hjá þér. En þú ætlar að flytja í húsnæðið? (PHB: Ég neyðist til þess.) Menn láta ekkert neyða sig til eins eða neins í þessum efnum.

Þessi marmarahöll sem á að hýsa þingflokk Sjálfstfl. á komandi árum kostar 210 milljónir eins og ég segi og hefur farið um það bil 130 milljónir fram úr áætlun. Áætlunin var 85 millj. kr. Og þetta er húsnæðið þar sem gleymdist að teikna og hanna rafmagnið inn í efstu hæðina. Það hefði kannski verið allt í lagi að einhver hluti þingflokks Sjálfstfl. hefði verið á efstu hæðinni rafmagnslaus.

En upphæðin sem verið er að níðast á öryrkjum með, öryrkjum sem sannanlega eru búnir að vinna mál fyrir Hæstarétti og eiga að fá það til baka sem af þeim hefur verið tekið vegna þess að það hafði ekki lagastoð, var 40 milljónir. Og ef við förum enn hærra finnum við í fjárlögum íslenska ríkisins dæmi um 450 millj. kr. greiðslu vegna ullarkaupa, geymslu og aksturskostnaðar vegna ullar í sauðfjársamningi. Það er alveg með ólíkindum hvaða leið menn leggja á sig fyrir þessar 40 milljónir. Í mínum huga er þessi skerðing, þessar 40 milljónir, smáaurar hvað þetta varðar, miðað við þennan dóm og það að ekkert tækifæri var notað núna til þess að semja sátt innan Alþingis milli stjórnar og stjórnarandstöðu og þá á ég við sátt um að ganga einhverja markvissa leið við að hækka lægstu bætur örorkustyrks sem hefði verið að sjálfsögðu eðlilegt að gera í þessum efnum.

Herra forseti. Aðeins í lok ræðu minnar --- ég á e.t.v. eftir að flytja aðra ræðu í dag --- vil ég nefna að í Morgunblaðinu á sunnudaginn var viðtal við nokkra aðila, þar á meðal öryrkja, sem ég trúi því og treysti að allir hafi lesið. Þessi umræða hefur leitt í ljós, eins og ég sagði, að fjölmiðlar hafa dregið fram bág kjör öryrkja og öryrkjar hafa komið sínum málum betur fram upp á síðkastið vegna þess að fjölmiðlar hafa tekið undir og sýnt fram á kjör þeirra. Því er náttúrlega alveg hryllilega dapurlegt að lesa ýmislegt af þessu og lesa lýsingu frá þessu fólki sem á að lifa á þessari hungurlús. Ég ætla ekki að lengja umræðuna hér og nú með því að fara að lesa þetta upp, en ég vitna í ákaflega gott viðtal við Sigríði Þorgeirsdóttur, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, sem segir að vegið sé að sjálfsvirðingu og mannlegri reisn ákveðins hóps öryrkja með því að skerða grunnframfærslu þeirra.

Þetta er náttúrlega grundvallaratriði í öllu þessu máli sama hvaða skoðun menn hafa svo á því hvort það eigi að greiða bætur til þessara --- og ég vil helst ekki nota þau orð --- ,,ríku öryrkja`` sem einhverjir hér hafa verið að tala um. Þetta er náttúrlega fyrst og fremst spurning um mannréttindi og sjálfsvirðingu. Við eigum í raun ekki að þurfa að takast á um þetta og deila um þetta og það er með ólíkindum að þetta skuli gerast á Alþingi jafnvel þó að árið 1998 hafi setið þrír lögfræðingar í ríkisstjórn eins og hv. þm. Kristján Pálsson sagði í gær. Þá voru sjö lögfræðingar á þingi, fimm þeirra stjórnarsinnar en tveir stjórnarandstæðingar og hinir fimm lögfræðingar stjórnarsinna voru allir sammála um að þetta væri rétt leið. Ergó, hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni: Þetta var þá hið rétta.

[12:00]

Ég minnist þess að a.m.k. þrír hæstv. ráðherrar, Davíð Oddsson, Björn Bjarnason og Sólveig Pétursdóttir, allt lögfræðingar, voru í ríkisstjórn og sátu á Alþingi 1997--1998, þ.e. þegar breyting var gerð á lögum sem Hæstiréttur hefur dæmt ógilda. Þetta er nóg um hvort menn brjóti gegn stjórnarskrá eða ekki.

Grundvallaratriðið er auðvitað að sjálfsvirðingu þessa fólks er stórlega misboðið. Það eru náttúrlega engin mannréttindi að skammta öryrkjum í sambúð 18 þús. kr. til að leggja til heimilishaldsins jafnvel þó að makinn þéni vel. Í áðurnefndu viðtali kemur þetta fram og ég vitna kannski til þess seinna í dag.

Herra forseti. Í reglugerð þeirri sem Hæstiréttur hefur dæmt ógilda, nr. 485/1995, í 4. gr., er líka fjallað um elli- og örorkulífeyrisþega. Það leiðir huga minn að því hvort þessi reglugerð hafi lagalega stoð gagnvart ellilífeyrisþegum. Þá hlýtur það að vera næsta skref að samtök ellilífeyrisþega hefji dómsmál fyrir Hæstarétti líkt og öryrkjar gerðu. Hér í 4. gr. er, herra forseti, fjallað um það er aðeins annað hjóna nýtur elli- eða örorkulífeyris. Þá hlýtur það að vera svo.

Ég sé enga framsóknarmenn í húsinu. Ég hafði hugsað mér að leggja fyrirspurn fyrir hv. þm. Jónínu Bjartmarz, 16. þm. Reykv., formann heilbr.- og trn. Hún hefur sagt héðan úr ræðustól og hún hefur sagt það í blaðaviðtölum að ef Öryrkjabandalagið fari aftur í mál út af því sem hér á að troða í gegnum Alþingi í dag þá væri eðlilegt að það fengi flýtimeðferð í gegnum dómskerfið. Hún telur jafnframt koma til greina að Öryrkjabandalagið fengi gjafsókn til að á það reyni fyrir Hæstarétti og undirrétti hvort þau lög sem hér á að samþykkja standast stjórnarskrá eða ekki, hvort mannréttindi eru áfram brotin eða hvort mannréttindin hafi aukist við þessar 25 þús. kr. sem nú eru skammtaðar.

Ég hefði viljað spyrja hv. þm. hvort það komi til greina frá hendi stjórnarliða að veita Landssamtökum eldri borgara gjafsókn til að fara í mál út af sams konar tengingum við ellilífeyri. Það er kannski til of mikils ætlast, herra forseti, að fara fram á að framsóknarmaður sitji hér í salnum. Mér er illa við að gera kröfur sem er eiginlega vonlaust að uppfylla.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill upplýsa að það hafa gerðar ráðstafanir til þess að hafa samband við hv. þm. Jónínu Bjartmarz.)

Ég þakka, herra forseti, en ég ætla að ljúka máli mínu á því að mér finnst að í þessu máli hafi komið í ljós ofboðslegur hroki hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarsinna gagnvart þessu máli. Það er eins og þeir geti ekki sætt sig við það að tapa. Þetta er eins og að sjá ákveðinn hóp manna á knattspyrnuleik sem aldrei getur sætt sig við að liðið þeirra tapi. Viðbrögðin eru álíka. Það hefur dregið úr virðingu Alþingis, það er sannarlega rétt, hvernig hér hefur ómaklega verið ráðist að Hæstarétti sem felldi þennan dóm. Þar nægir að minna á orð hæstv. forsrh. sem taldi að það þyrfti að breyta reglum Hæstaréttar til að koma í veg fyrir svona slys framvegis. Jafnframt mætti vitna í orð hæstv. utanrrh. í sambandi við kvótadóminn. Hann ýjaði þar að því að það þyrfti jafnvel að breyta reglum Hæstaréttar vegna þess. Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum.

Herra forseti. Það er greinilega til allt of mikils ætlast af mér að fá framsóknarmann til að vera hérna í salnum, hvað þá hv. þm. og formann heilbr.- og trn. Ég dreg þá beiðni mína til baka (Gripið fram í: Ekki gera óraunhæfar kröfur.), þá óraunhæfu og ósanngjörnu kröfu að einhver hv. framsóknarmaður sitji í salnum við þessa umræðu. En ég skil vel að þeir láti ekki sjá sig, ég skil það rosalega vel.