Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 12:07:20 (4158)

2001-01-23 12:07:20# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hvernig finnst hv. þm. Pétri H. Blöndal að skattleggja lágtekjufólkið, hvort sem það er á Siglufirði eða einhvers staðar annars staðar, á sama tíma og skattar á hátekjufólki, jeppafólkinu og öðrum slíkum eru lækkaðir? Hver er munurinn þar á? Það borga fleiri skatta en lágtekjufólk. Hátekjufólk borgar líka skatta sem betur fer.

Af því að hv. þm. er að vitna í þetta dæmalausa viðtal sem haft var við hann á Stöð 2 og aðallega var fjallað um í sambandi við þessa utandagskrárumræðu þá vil ég taka fram að í þessum umræðum voru engar undanþágur frá óreglunni. Allir öryrkjar og aldraðir voru dæmdir sem óreglufólk í þessu viðtali. Það stendur eftir og það las ég upp. Hér er bæði talað um áfengi og eiturlyf og annað slíkt. Ég var að skammast yfir því, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég vona að hv. þm. noti seinna tækifærið í andsvörum til að koma í þennan ræðustól og biðja þetta fólk formlega afsökunar, því sárnaði þessi vitlausu ummæli sem hv. þm. viðhafði. Ég ber virðingu fyrir hv. þm. en er 100% ósammála honum og mjög sár yfir að starfsbróðir minn skuli koma fram í svona gáleysislegu tali.