Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 12:10:55 (4160)

2001-01-23 12:10:55# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[12:10]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þm. hefur ekki enn beðist afsökunar héðan úr ræðustól á þessu viðtali sem tekið var við hann ætla ég að lesa aftur það sem hann sagði þar. Þar er talað um alla og engir undanskildir. Ég tek það skýrt fram að þetta er haft eftir hv. þm. Pétri Blöndal, til að koma í veg fyrir að einhver haldi að þetta séu mín orð. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í ummæli Péturs Blöndals í umræddu viðtali:

,,Má ekki segja sannleikann? Má ekki segja það sem allir vita? Í hverri einustu fjölskyldu á Íslandi, ég fullyrði, í nánast hverri einustu fjölskyldu er eitthvert vandamál með óreglu, annaðhvort vegna áfengis, eiturlyfja eða vegna fjármálaóreiðu. Þetta er til og af hverju má ekki nefna hlutina?``

(PHB: Hvað kom á undan?) Ég las það allt hér í fyrri ræðu minni og get ekki gert það aftur á þeim 57 sekúndum sem ég á eftir en ég skal gera það seinna í dag. Ég skal með ánægju lesa áfram úr þessu viðtali vegna þess að það er með ólíkindum að einstaklingshyggjumaður, meira að segja hv. þm. Pétur Blöndal, skuli láta þetta út úr sér. Þetta hefur sært fjölda fólks, m.a. fjölda öryrkja sem ég þekki en stunda nær enga óreglu. (PHB: Viltu ekki svara spurningu minni um að skattleggja lágtekjufólkið?)

Herra forseti. Það er sjálfsagt að skattleggja þegna landsins til að greiða fyrir það sem Hæstiréttur hefur dæmt ólög. Hv. þm. hefur ekki svarað þeirri spurningu sem ég lagði fram í ræðu minni um að ef ég skulda hv. þm. milljón en borga honum 500 þúsund, hann færi í mál við mig og fengi það dæmt, að ég ætti að borga milljónina að fullu. Væri til umræðu að ég semdi við hann um að greiða bara 100 þús. kr.? Má ég heyra það?