Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:13:06 (4168)

2001-01-23 14:13:06# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Lögin eru alveg skýr. Ég skal lesa klásúluna úr 65. gr. aftur. Þar segir:

,,Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Þetta hefur staðist nákvæmlega --- það liggja allar sannanir fyrir því. Ég get sýnt fram á það með öllum opinberum tölum --- launaþróunin í landinu og þróun bóta almannatrygginga, nákvæmlega. Það hefur ekki reynt á seinni part setningarinnar, ,,þó aldrei lægri en neysluvísitala``, þ.e. þau fyrirheit sem þar eru að hækki launaþróun minna en neysluverðið, þ.e. að kaupmátturinn rýrni, þá skal kaupmáttur lífeyrisgreiðslna ekki rýrna. Það hefur ekki reynt á það vegna þess að það hefur verið stöðug aukning kaupmáttar.