Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:15:26 (4170)

2001-01-23 14:15:26# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að standa í þessu karpi. Ég skal hér og nú heita því að sjá til að innan nokkurra daga birtist opinberar tölur sem sýni að þetta er ósatt. Launaþróun og kaupmáttur lífeyrisgreiðslna eru samstiga í dag. (JóhS: Hefur hann hækkað jafnt og launavísitalan?) Nákvæmlega eins og almenn launaþróun í landinu. (Gripið fram í.) Eins og stendur í lögunum, (Gripið fram í.) herra forseti. Það stendur í lögunum. Ég er búinn að lesa þetta fjórum sinnum. Það fer ekkert á milli mála hvað stendur í lögunum. Það hefur verið farið nákvæmlega eftir því og ekki hægt að standa endalaust í þrasi hér í púlti (Gripið fram í.) þegar menn segja ósatt.

Nú hef ég ekki frið fyrir frammíköllum og hrópum hv. þm. Ég hlýt að eiga mína mínútu. Ég skal láta birta það opinberlega (Gripið fram í.) þannig að menn geti séð það svart á hvítu ...

(Forseti (ÁSJ): Ég vil áminna hv. þm. um að grípa ekki fram í.)

Ég fæ ekki frið fyrir þingmanninum, hún vill taka minn ræðutíma líka. Ég skal sjá til þess að það birtist opinberlega hið rétta og sanna í þessu máli. Frá því þessi lög voru samþykkt hefur þessu verið fylgt nákvæmlega. Það eru ósannindi að það hafi verið öðruvísi.