Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:18:00 (4172)

2001-01-23 14:18:00# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skal viðurkenna að það er ljótt að nota orðið lygi. Ég hefði átt að nota orðið ósannindi, það er miklu penna.

Samt er verið að segja ósatt með þessu nál. (BH: Hvar?) Það er verið að segja ósatt um að kjör lífeyrisþega, ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega hafi verið skert og hafi rýrnað á þessu kjörtímabili. Það er ósatt. (Gripið fram í.) Það er ósatt og gegn staðreyndum málsins. Það er verið að snúa öllum hlutum við.

Kaupmáttur lífeyrisgreiðslna hefur aldrei vaxið meira í sögu Íslands, ekki frá því að almannatryggingar hófust hér 1936. Aldrei. Þær hafa fylgt launaþróun í landinu nákvæmlega upp á punkt og prik. Fullyrðingar um að hér hafi átt sér stað gríðarleg kjararýrnun og hér hafi verið stolið af ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum eru ósannindi, herra forseti. Það kann að vera ljótt að segja frá því en það er alveg öfugt, herra forseti. Þau hafa aldrei batnað sem undanfarið.