Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:20:15 (4174)

2001-01-23 14:20:15# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fullyrði að í þessu nál. er sannleikanum snúið á haus. (BH: Þú sagðir að það væru ósannindi.) Það er að fara með ósannindi. (BH: Hvar eru þau?) Það er að fara með ósannindi að segja að kaupmáttur lífeyrisgreiðslna hafi skerst hér og það hafi verið stolið frá öryrkjum og lífeyrisþegum. Kjör þeirra hafi verið skert. (Gripið fram í.) Það er ósatt vegna þess að launaþróunin í landinu er nákvæmlega hin sama og kaupmáttarþróunin.

Ég fór nákvæmlega yfir hvað gerðist í kjarasamningunum 1995. Hvernig okkur tókst loksins að hækka lægstu taxta með algjöru samkomulagi við verkalýðshreyfinguna og við alla aðila í þjóðfélaginu, og tryggðum að lægstu taxtar færu ekki gegn þróuninni í þjóðfélaginu heldur skyldu þeir fá að vera í friði. Með samanburði við þróun lægstu launa eru lögð fram tölfræðileg ósannindi og Tryggingastofnun ríkisins ber ábyrgð á því.