Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:21:40 (4175)

2001-01-23 14:21:40# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir farið með ósannindi í nál. minni hlutans. Þar er vísað til þróunar lágmarkslauna annars vegar og bóta almannatrygginga hins vegar. Frá 1993--1999 hækkuðu lágmarkslaun um 52% en grunnlífeyrir, tekjutrygging, heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót auk eingreiðslna um 30%. Hafa ber í huga að á þessu tímabili kom til sérstakrar hækkunar á heimilisuppbót vegna niðurfellingar á eftirgjöf á afnotagjaldi útvarps og sjónvarps og ársfjórðungsgjaldi fyrir síma. Þegar þetta er tekið með í reikninginn, lætur nærri að helmingsmunur sé á kjaraþróun þessara hópa. Þetta eru staðreyndir og ég óska eftir því að hv. þm. hreki þær til að finna orðum sínum stað.

Í annan stað leyfi ég mér að fullyrða að gagnstætt því sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánssons segir þá hafi þau lög sem vísað er til, frá 1993, verið brotin. Það var gert árið 1999 og ég hef fært rök fyrir því í ítarlegri blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu 24. mars á síðasta ári.