Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:23:00 (4176)

2001-01-23 14:23:00# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þessar tölur liggja allar fyrir. Lögin liggja fyrir og allir sem eru læsir geta lesið þau. Greiðslur lífeyrisþega frá ríkissjóði skulu fylgja almennri launaþróun. Það stendur í lögunum. Lögunum hefur verið fylgt nákvæmlega. Allar opinberar tölur geta sannað það. Við getum síðan komið hingað eins og hanar, komið aftur og aftur og sagt að það sem ég segi sé ekki rétt. Ég hef sagt það áður, herra forseti, að ég skal sjá til þess að opinberar tölur verði birtar um þróun kaupmáttar lífeyrisgreiðslna og um þróun kaupmáttar launa. Það liggur nákvæmlega fyrir. Yfir það var farið nákvæmlega sl. haust. Þá lágu fyrir meiningar um að það vantaði 0,3--0,4% upp á að svo væri. Þess vegna hækkuðum við lífeyrisgreiðslur, samanber fjárlög, um 1% meira en kaup hækkaði 1. jan. Þannig var allur vafi af tekinn.