Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:24:12 (4177)

2001-01-23 14:24:12# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Fram til ársins 1995 tóku bætur almannatrygginga mið af lágmarkslaunum. Ríkisstjórnin rauf þetta samband. Síðan var komið á nýju sambandi með lögum frá 1997 þar sem mið skyldi tekið af almennri launaþróun eða neysluvísitölu, þeirri vísitölunni sem hærri væri hverju sinni.

Ég færði rök fyrir því í blaðagrein að þessi lög hefðu verið brotin á árinu 1999. Hv. þm. hafði hér stór orð um það áðan að svo hefði ekki verið. Nú segir hann að það hafi verið einhver meiningarmunur. Meiningarmunur. Menn sem umgangast sannleikann og tölur með þessum hætti eiga að vanda sig betur áður en þeir stíga í ræðustól Alþingis, ekki síst þegar þeir hafa uppi jafnósanngjarnan og villandi málflutning og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson leyfði sér að viðhafa og ósannindi í garð þeirra sem höfðu framsögu fyrir minni hlutann í málinu.