Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 15:36:34 (4193)

2001-01-23 15:36:34# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Þuríður Backman (frh.):

Herra forseti. Ég verð nú að viðurkenna að mér varð hálfbylt við og vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar þetta stutta hlé var gert. En nú getum við vonandi fengið að halda áfram ótrufluð og klárað þessa umræðu, 3. umr. um lagafrv. um almannatryggingar og málefni öryrkja.

Eins og ég sagði hér áður en fundi var frestað þá snýst þetta mál um pólitíska afstöðu. Það fer í raun eftir því hvaða pól maður tekur í hæðina, hvaða pólitísku gleraugu maður setur upp, hvernig maður lítur á það frv. sem hér liggur frammi. Og það er enginn efi í mínum huga að það er lagt fram til þess, og í það var lögð mikil vinna að mínu mati, að finna leiðir til að fara að dómsorði til þess að komast hjá því, eins og sagt er á máli lögfræðinga og almenningur kallar varla skiljanlegt mál, að það sé afleidd gjörð af dómnum, þ.e. að fleiri eigi þá sama rétt, t.d. ellilífeyrisþegar.

Við teljum að dómsorðið standi, að ekki þurfi að leita að neinum skýringum á því hvað það þýðir og við teljum að verið sé að brjóta stjórnarskrána. Þetta er fullyrðing af okkar hálfu sem höfum þessa bjargföstu trú og því skil ég enn betur núna afstöðu og tilfinningar hv. þm. Péturs Blöndals. Hann lýsti því hér fyrr í morgun hvernig hann túlkaði mannréttindabrot, þ.e. að mannréttindabrot væri það að pynda fólk, nauðga konum og alvarleg ofbeldisbrot. En, herra forseti, mannréttindi tengjast fleiru ofbeldi. Til eru einnig félagsleg mannréttindi og þau eru ekki eingöngu mannréttindi gegn ofbeldi. Ef hv. þm. lítur svo á að mannréttindabrot séu aðeins þessi ofbeldisfullu mannréttindabrot þá skil ég vel að tilfinningar hans séu enn frekar særðar en okkar sem höfum þó þessa almennu afstöðu og er hvort tveggja þó jafnalvarlegt.

Herra forseti. Ég vil fá að lesa örstutt úr grein Tómasar Gunnarssonar sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 14. janúar en það hefur ekki farið fram hjá neinum að þetta mál er á dagskrá þingsins svo mikið hefur verið fjallað um það í blöðum og útvarpi. Fólk hefur tjáð sig og m.a. má benda á fund sem Öryrkjabandalagið hefur boðað til sem verður núna klukkan sex og væri ekki boðað til hans nema vegna þess að það er mikill ágreiningur um þetta mál. Greinarhöfundur vitnar í orð hæstv. heilbrrh. Ingibjargar Pálmadóttur og hefur eftir henni eins og margbúið er að vitna til að hæstv. ráðherra túlkaði dóm Hæstaréttar alveg á sama hátt og Öryrkjabandalagið gerði og brást þannig við og öll hennar viðbrögð í upphafi málsins voru rétt að mínu mati og eins starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins. Í þessari grein er vitnað til orða hennar og þar er eftir henni haft, með leyfi forseta:

,,Hæstiréttur hefur talað. Ég mun ekki deila við hann. Lögfræðingar ráðuneytisins eru að fara yfir niðurstöður dómsins og í framhaldinu verða næstu skref ákveðin. Meira er ekki hægt að segja á þessu stigi málsins.``

Þannig var það. Í staðinn fyrir að hafa strax samband við Öryrkjabandalagið og fulltrúa þess, vinna eftir dómnum og kanna vilja þeirra til frágangs málsins þá var ekkert samband haft við Öryrkjabandalagið. Og þrátt fyrir að forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins tjáði sig á sama hátt og ráðherra og málið væri mál Tryggingastofnunarinnar og hæstv. heilbr.- og trmrh. var málið tekið úr þeirra höndum og þau höfðu ekkert með það frekar að segja. Þrátt fyrir góðan vilja og yfirlýsingar forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins um að hægt hefði verið að greiða út 1. janúar samkvæmt niðurstöðum dómsins þá var það ekki gert.

Mig langar til þess að fá að leiðrétta orð sem komu fram hálfpart í andsvari mínu við hv. þm. Tómas Inga Olrich þegar frv. var lagt fram. Þá sagði ég að það hefði átt að bregðast þannig við dómnum að greiða strax út því að seinni málsliður hinnar umræddu 5. mgr. 17. gr. væri ógildur, hefði átt að falla út. Ég vil leiðrétta það enda sagði ég síðar í ræðu minni að það væru skerðingarákvæðin sem hefðu verið felld úr gildi og ég ítrekaði það síðar í ræðunni. En þar sem ég sagði þetta vil ég koma hér að leiðréttingu. Það er ekki allur seinni liðurinn sem var felldur úr gildi heldur skerðingarákvæðin.

[15:45]

Í beinu framhaldi af þessu með tilskipun frá ríkisstjórn með reglugerð hefði vitaskuld orðið að fara í að breyta lögunum, það segir sig sjálft. Þetta snerist um greiðsluna 1. janúar svo það sé alveg ljóst.

Ég var að vitna í grein Tómasar Gunnarssonar og ætla að fá að halda því áfram, með leyfi hæstv. forseta:

,,Lagabreytingar án breytinga á stjórnarskrá og alþjóðasamningum virðast ekki inni í myndinni.`` --- Þetta eru viðbrögð við þessu ferli. --- ,,Einbeittur og einráður þingmeirihluti getur auðvitað komið því til leiðar að Íslendingar segi sig úr alþjóðasamfélaginu og hverfi frá almennum, alþjóðlegum skuldbindingum og grundvallargildum, en tæpast er samstaða um það milli stjórnarflokkanna þar sem Framsóknarflokkurinn hefur ákveðið að athuga fulla aðild að Evrópubandalaginu og einangrun lýðveldisins í alþjóðasamstarfi hefur ekki verið á dagskrá.

Það eitt að utandómsmaður eða menn hugleiði að hrófla við eða draga úr áhrifum dómsorðs hæstaréttardóms fyrir liðinn tíma er nánast lögfræðilegt guðlast og mundi almennt skoðast sem tilraun til landráða með þeim hrikalegu afleiðingum sem því fylgja í réttarríki.``

Þarna var vitnað í grein Tómasar Gunnarssonar lögmanns.

Ég ætla ekki að fara frekar yfir það sem margoft hefur verið reifað og þessi ágreiningur stjórnar og stjórnarandstöðu byggist á --- eða réttara sagt stjórnarmeirihlutinn tekur út úr aðfaraorðum þrjú orð ,,á þann hátt`` og túlkar þau á sinn veg eins og margoft hefur komið fram.

En þau orð hafa líka verið látin falla hér að það sé aðeins á færi lögfræðinga að túlka dóminn. Ég vil benda á orðskýringar sem hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar las upp úr íslenskri orðabók og að það hefði a.m.k. líka þurft að kalla til málfræðinga og vísa til málfarsskilnings þjóðarinnar hvað dómurinn þýddi. Þetta er ekki bara spurning um lögfræðilega túlkun, þetta er spurning um mannréttindi og lýðræði.

Mér hefur fundist að hér hafi nokkrir hv. þm., vísvitandi eða ekki, aftur og aftur verið að rugla saman hvort minni hlutinn vilji þá alfarið afnema allar tekjutengingar öryrkja við tekjur maka. Það er ekki þannig. Við höfum aldrei haldið því fram að það eigi að afnema allar tekjutengingar hjá öryrkjum vegna tekna maka. Það er þetta ákvæði sem Hæstiréttur dæmdi að ekki mætti gera, þetta eina atriði, þessi eina skerðing. Aðrar skerðingar gilda áfram og það hefur aldrei neinn borið á móti því að eigin tekjur hafi áhrif á tekjutrygginguna, það eru bara tekjur maka. Einstaklingar geta haft tekjur aðrar en launatekjur og þær geta haft áhrif á tekjutrygginguna, það eru eingöngu tekjur maka og þetta verður að vera skýrt, það má ekki rugla þessu öllu saman. En það gerist þegar menn eru að segja: Hvar er jafnaðarstefnan? Hvar er hún? Við viljum nota bæði skatta og tengingar við bætur fólks. En við viljum standa vörð um þetta, að það sé réttur einstaklingsins, öryrkjans, sem er bundinn í stjórnarskrá, réttur til grunnlífeyris, rétturinn til tekjutryggingarinnar og tekjutryggingin á ekki að skerðast við tekjur maka. Um þetta viljum við standa vörð.

En vissulega á að mismuna eftir tekjum og gera það til að bæta kjör öryrkja og annarra bótaþega, að hækka frítekjumarkið, að hækka bæturnar. En, herra forseti, dómurinn vísaði þeirri ábyrgð að ákveða grunninn, ákveða upphæðina til okkar á löggjafarþinginu. Það er okkar að ákveða þennan grunn. Það verður að gera skýran greinarmun á stjórnarskrárbundnum rétti sem er grunnlífeyririnn og tekjutryggingin og heimildarákvæðum sem er heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót. Eins eru miklu fleiri heimildarákvæði sem snúa að kaupum á lyfjum, síma, bílastyrkjum og síðan félagsleg réttindi sem snúa að félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Augljóst er að skilningur hæstv. heilbrrh. var réttur eða var eins og okkar í byrjun, enda tjáði hún sig um það að hún mundi boða til ríkisstjórnarfundar eða óska eftir ríkisstjórnarfundi sem hún virðist ekki hafa fengið, en það er ekki heilbrrh. sem skipar nefndina margumtöluðu, sérfræðinganefndina, það er forsrh. sem skipar hana. Ekki er hægt að halda því fram með nokkru móti að þessi nefnd hafi verið hlutlaus nefnd sem hafi skoðað þetta eingöngu út frá lagalegum túlkunum því að þessar lagalegu túlkanir, eins og ég segi, eru pólitískar, ekki hjá Hæstarétti þó að svo hafi verið sagt og þar vitna ég til orða hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar að dómur Hæstaréttar væri frekar af pólitískum toga en nokkuð annað eða að Hæstiréttur væri kominn í pólitík, ég man nú ekki alveg orðalagið, en hann vísaði til þess að þetta væri pólitískur úrskurður. Vissulega eru mannréttindi og félagsleg réttindi pólitísk mál. En það er pólitísk ákvörðun að leggja fram frv. eins og hér liggur fyrir.

Við höfum töluvert rætt um sjálfsvirðingu og virðingu einstaklinganna, virðingu öryrkja til að geta framfleytt sér. Í helgarblaði Morgunblaðsins um síðustu helgi var gerð töluverð grein fyrir þessu máli og m.a. voru viðtöl við nokkra öryrkja sem bæði eru einhleypir og í sambúð. Þar er mjög gott viðtal við Sigríði Gunnarsdóttur sem er 75% öryrki og er í hjúskap. Þar lýsir hún mjög vel kjörum sínum og hvaða þýðingu þetta hefur fyrir hana sem lýtur að virðingu og sjálfsvirðingu hennar. Ég vil vitna í þá grein án þess að lesa hana sérstaklega hér.

Það er alveg ljóst að það skiptir ekki máli hvort öryrki í sambúð er giftur hátekjumanni eða lágtekjumanni hvað varðar þá sjálfsvirðingu að geta sjálfur séð sér og öðrum farborða og það er réttur öryrkjans að geta lagt í búið og séð sér og maka sínum farborða eins og öfugt. Þetta er gagnkvæm skylda öryrkja sem annarra.

Þetta snýr aðallega að konum, 2/3 þessa hóps eru konur og það segir ekkert um að kona sem er öryrki og er gift hátekjumanni eigi nokkuð betra með að biðja um pening bæði vegna eigin tilfinninga eða vegna þess að hægt sé að ganga út frá því að eiginmaðurinn hafi skilning á því að hún þurfi að kaupa sér föt. Tekjur fólks segja ekkert til um sjálfsvirðingu og upphæðir segja ekkert til um sjálfsvirðingu. Manni getur verið misboðið út af litlum fjárhæðum og réttlætiskennd manna mælist ekki í krónum. Það er jafnmikið brotið á þessum hópi öryrkja þó að upphæðin sem hér er lögð til, 43 þús. kr., hafi verið 49 þús. kr. Upphæðin í sjálfu sér skiptir ekki máli heldur hvort brotið sé á manni, það er það sem skiptir máli.

Auðvitað skiptir máli í þessu samhengi öllu þegar við erum að tala um 8 þús. kr., af svo lágum upphæðum finna menn auðvitað fyrir því. En þá erum við að tala um 8 þús. kr. skerðingu frá því sem öryrkjar í sambúð hefðu átt að fá samkvæmt dómnum óháð tekjum maka.

Varðandi þá skoðun mína að verið sé að komast undan því að láta þennan dóm, sem er dómur um félagsleg réttindi, ná yfir aðra hópa þá vil ég með leyfi forseta fá að lesa örstutt úr sunnudagsblaði Morgunblaðsins --- þetta fer nú að verða frægt blað því að það er svo oft vitnað í það, enda er mikið í því og nýjar fréttir og gott að koma þeim hér inn í þingtíðindin líka --- en þetta er grein eftir Pál Þórhallsson, sem er lögfræðingur hjá Evrópuráðinu, og segir hér, með leyfi forseta, um viðbrögðin við dómnum:

,,Það er tekist á um það í kjölfar dómsins að hve miklu leyti hann taki fyrir tekjutengingu bóta yfirleitt. Að sjálfsögðu snertir hann ekki tengingu við tekjur bótaþegans sjálfs þar sem hún er við lýði, samanber ákvæði stjórnarskrárinnar sem talar um að öllum sem þess þurfa skuli tryggð aðstoð. Þá er álitamál hvort endurskoða verði tengingu ellilífeyris við tekjur maka.`` --- Ég endurtek: ,,Þá er álitamál hvort endurskoða verði tengingu ellilífeyris við tekjur maka.`` --- ,,Það sem veldur hugsanlega vafa er að dómurinn leggur töluvert upp úr réttindum fatlaðra sem slíkra er hann kemst að niðurstöðu sinni. Loks, varðandi það atriði hvort dómurinn taki alveg fyrir tengingu örorkubóta við tekjur maka, má benda á að í 67. gr. alþjóðavinnumálasamþykktar frá 1952 um lágmark félagslegs öryggis sem Hæstiréttur vitnar í er beinlínis gert ráð fyrir að slíkt megi gera enda sé um verulegar viðbótartekjur að ræða.

Dómurinn er mikil lyftistöng fyrir félagsleg réttindi almennt og sérstaklega fyrir réttindi öryrkja. Hann kemur í framhaldi af nýlegum dómum Hæstaréttar um rétt blindrar stúlku til aðstoðar við að stunda háskólanám og um rétt heyrnarlausra til að umræður í kosningasjónvarpi skyldu túlkaðar á táknmál.

Túlkun 65. greinar stjórnarskrárinnar telst til nokkurra tíðinda og getur opnað leið síðar í öðrum málum til að slá föstum réttindum sem ekki eru beint orðuð í stjórnarskánni. Svipað hefur gerst hjá öðrum þjóðum þar sem stjórnarskráreftirlit er hvað þróaðast, þ.e. að dómstólar hafa leitað leiða til að brúa bil milli stjórnarskrárákvæða og ákvæða alþjóðasamninga. Það verður hins vegar eilíft deiluefni hversu langt dómstólar eigi að ganga í þessu efni.``

[16:00]

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni las ég upp ályktun miðstjórnar ASÍ frá 10. jan. 2001. Þá skorar miðstjórn Alþýðusambands Íslands á ríkisstjórnina að virða undanbragðalaust niðurstöðu æðsta dómstóls landsins í máli Öryrkjabandalags Ísland gegn Tryggingastofnun ríkisins: ,,Miðstjórn ASÍ styður öryrkja í baráttu þeirra fyrir að fá greiddar óskertar bætur í samræmi við dómsniðurstöðuna strax frá 1. janúar sl.`` Ég endurtek það sem ég las: ,,Samhljóða eða samsvarandi ályktanir hafa komið frá öðrum heildarsamtökum, BSRB, BHM og Kennarasambandi Íslands.`` Til viðbótar þessu bendir miðstjórn ASÍ á að óumflýjanlegt sé að ráðast í endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfisins og að þeirri vinnu verði hraðað og síðan er vísað til síðustu launasamninga.

Því er mjög mikilvægt að fá núna einhverja vitneskju um hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að vinna við endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni. Ætlar hún að vera í góðri samvinnu við Öryrkjabandalagið, við ellilífeyrisþega, við launþegasamtökin eftir það sem á undan er gengið þegar öll þessi stóru heildarsamtök hafa lýst eindreginni skoðun á því hvernig þau túlka dóm Hæstaréttar? Að minnsta kosti líst mér ekki vel á upphaf þeirrar vinnu. Ef á að fara í heildarendurskoðun eingöngu út frá hækkun frítekjumarks, breyta jaðarsköttunum, lagfæra þá, hækka tekjurnar og bótatekjurnar, hvað verður þá með dóm Hæstaréttar í þeirri vinnu? Á að halda áfram að reyna að lagfæra hér og þar? Verður það sannfærandi stefnumótandi vinna sem mun fara af stað? Mun nást sátt um hana?

Herra forseti. Mig langar að fá að vitna í orðsendingu frá Tryggingastofnun sem var send út:

,,Tryggingastofnun mun greiða hinn 1. febrúar nk. samkvæmt lögum sem Alþingi mun setja síðar í þessum mánuði.

Í þeirri greiðslu verður jafnframt innifalin leiðrétting vegna janúarmánaðar 2001.``

Herra forseti. Nokkrum sinnum hefur orðið hroki verið notað í umræðunum. Ber það ekki keim af hroka að birta svona orðsendingu áður en lögin hafa verið samþykkt, að tilkynna að greitt verði út samkvæmt lögum sem er ekki búið að afgreiða? Fyrir mitt leyti er ég undrandi á að þessi orðsending skuli hafa verið send frá Tryggingastofnun ríkisins. Það hefði mátt skilja orð sem hér hafa verið sögð á þann veg að Tryggingastofnun ríkisins hafi a.m.k. farið út fyrir valdsvið sitt, svo ekki sé meira sagt og sé að auglýsa og gefa yfirlýsingar um það sem hún hafi ekki leyfi til. Ég held að hæstv. ríkisstjórn og Alþingi ættu frekar að hlúa að þeirri stofnun svo hún geti unnið þá vinnu sem henni er ætlað, að hún hafi tækjabúnað og mannafla til að sinna þeirri flóknu vinnu sem henni er ætlað að vinna og hlúa að þeirri stofnun.

Herra forseti. Komið er að lokum ræðu minnar en það var uppi smámisskilningur varðandi það þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafði talað því að þá bað ég um andsvar. Ekki veit ég hvort hv. þm. er í salnum en hann vitnaði í nál. minni hlutans, sem ég skrifaði undir, og hann nefndi nafn mitt sérstaklega og sagðist ekki trúa því og þótti sárt að sjá nafn mitt undir því nál. ef ég man orð hans alveg rétt. Hann sagði að hann hefði aldrei séð jafnmikið bull og vitleysu og lygar á prenti og kom fram í nál.

Hæstv. forseti. Í nál. sem hv. þm. vitnaði til og sagði að væri bull, vitleysa og lygar, en svo viðurkenndi hann reyndar að það sem stæði þarna væri alveg rétt, það eru opinberar tölur Kjararannsóknanefndar sem hann er að væna um að vera bull, vitleysu og lygi og eru þær upplýsingar í staðtölum almannatrygginga. Við gerum ekkert annað en að taka þær hráar upp. Hægt er að hafa sögulegar skýringar á því hvers vegna þetta lítur svona út. Það er alveg rétt að 1995 voru rofin tengsl á milli bóta og lífeyrisgreiðslna og vísitölu ... Nú er ég alveg orðin rugluð í þessu öllu saman. (Gripið fram í: Bóta og launa.) Bóta og launa, ætlaði ég að segja. Því hefur verið mótmælt svo harðlega þó svo sú leiðrétting hafi komið núna inn að bæturnar fari aldrei niður fyrir lægstu vísitölu.

Ástæðan fyrir því að lífeyrisþegar hafa mótmælt þessu svo harkalega er sú að rík hefð hefur verið fyrir því að miða laun bóta við lægstu laun á almennum launamarkaði. Þegar það gerðist, sem var sem betur fer gert í síðustu samningum, að veruleg hækkun kom til þeirra lægst launuðu hækkuðu ekki bæturnar að sama skapi. Ég ætla ekki að fara út í neinar rökræður um söguna og bæturnar og hvernig þetta hefur allt þróast. Það er fyrir utan umræðuna núna því það er í raun og veru efni í þá vinnu sem á að fara í þegar lögin verða öll endurskoðuð. Við erum aðeins að fjalla um afmarkað mál. Ég mótmæli því að í nál. séu bull, vitleysa og lygar.

Skiljanlegt er að hv. þm. hafi sárnað þetta af því við höfðum bent á tímabilið sem skerðingin hefði átt sér stað á, þ.e. í tíð ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. Það eru bara árin sem telja.

Hann kom líka inn á og nefndi að minni hlutinn væri að nudda sér utan í öryrkja. Við værum að afla okkur vinsælda með því að nudda okkur utan í öryrkja. Þetta mál er miklu stærra en að það sé í raun og veru þessi afmarkaði litli hópur. Þó svo við séum að fjalla um hann hér og breytingarnar á lögunum og leiðréttingin eigi við dóminn þá vísar dómurinn til okkar allra. Þetta er af réttlætiskennd og þess vegna bregðast launþegasamtökin við eins og þau gera. Það er ekkert að því að styðja öryrkja og lífeyrisþega og ellilífeyrisþega í landinu og alla þá sem eiga við bág kjör að búa.

Ekki er hægt að líkja þeim áherslum sem við erum að bera fram saman við áherslur ungliðanna og hægri arms Sjálfstfl. Ég er ekki vel að mér í hugarheimi ungra sjálfstæðismanna eða sjálfstæðismanna yfirleitt þannig að ég geti farið að túlka þeirra skoðanir en ef ég skildi orð hans rétt vilja þeir að enginn tengsl séu þarna á milli, einstaklingurinn sé bara einn og sjálfur með tekjur sínar og skatta, ekkert tillit sé tekið til tekna maka. En við erum alltaf að segja: Það á alltaf að taka tillit til tekna maka og hjóna eins og gert er í dag, bara ekki í þessu tilliti. Ég frábið mér að við séum komin í sama hóp og frjálslyndir sjálfstæðismenn.

Hv. þm. varð líka tíðrætt um bág kjör milljóna manna úti í heimi. Og vissulega er það þannig. Við þurfum ekki einu sinni að fara út í heim. Stór hópur fólks hér á landi býr við sultarmörk. En ég bendi á að hagkerfin og pólitískar stefnur eru alveg eins langt til hægri og vinstri og hægt er að komast og verða það áfram í heiminum. Það er ekki síður hin óbilgjarna frjálshyggjustefna sem hefur skapað þetta mikla óréttlæti, þetta haf á milli ríkra og fátækra í heiminum. Hún er að gera það hér á landi líka. Bilið á milli ríkra og fátækra er að breikka hér líka, ekki bara úti í hinum stóra heimi.

Við erum ekki að nudda okkur utan í Öryrkjabandalagið til vinsælda með því að komast að þeirri niðurstöðu sem við höfum gert hvað varðar dóm Hæstaréttar.

Mjög miklir samskiptaerfiðleikar eru á milli Öryrkjabandalagsins og ríkisstjórnarinnar og það má nefna Sjálfstfl. Þar hefur hæstv. forsrh. farið fremstur í flokki --- ja, það liggur við að hægt sé að persónugera samskiptaerfiðleikana milli hans og Öryrkjabandalagsins. Að minnsta kosti held ég það hljóti að vera algjört einsdæmi að ekki sé búið að hefja viðræður eða tala við Öryrkjabandalagið þann tíma sem var verið að undirbúa þetta frv. Er ekki venjan að hafa einhver samráð eða tala við Öryrkjabandalagið frá því dómurinn féll? Aðeins til að kynna? Einn kynningarfundur var á frv. Allt var búið, ekki meir. Ekki var talað við þá meir. Þetta held ég að séu slæm skilaboð í þá miklu vinnu sem fram fer við endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni. Auðvitað er ástæða fyrir því að hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur gefist upp í þeirri vinnu. Það þarf að marka heildarsýn. Það þarf að hafa hreinar pólitískar línur við þá vinnu og þar sem það eru alltaf samstarfsflokkar --- ekki einn flokkur í meiri hluta á þingi --- þarf alltaf að leita eftir samvinnu um stefnumörkun í svo mikilvægu máli. Þá er auðvitað eðlilegt að málið sé erfitt og er örugglega þessari ríkisstjórn ekki síður erfitt en öllum öðrum. Ég dreg í efa að það sé algjör samstaða á milli Framsfl. og Sjálfstfl. hvað varðar stefnumörkun í þessum miklu málum.

Mig langar svo, herra forseti, þar sem þetta hefur verið erfitt mál, og ég dreg ekki í efa að það hafi verið mjög erfitt hæstv. heilbr.- og trmrh., að óska henni góðs bata og vona að hún nái sér fljótt af þeim veikindum sem hún á nú við að stríða.