Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 16:17:26 (4194)

2001-01-23 16:17:26# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þuríður Backman vísaði í viðtal við ágæta konu sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudaginn var. Ég verð að segja að þetta var frekar óheppilegt dæmi hjá hv. þm. þótt ég hafi reyndar fulla samúð með konunni og hennar aðstæðum og dáist að dugnaði hennar sem kemur fram í greininni. En það var alveg ljóst að þetta frv. mun ekki taka til hennar aðstæðna. Hún hefur verið metin 75% öryrki sem í mínum huga er það að fólk hefur ekki fulla starfsorku, öðru nær. Það hefur ekki starfsorku og á því ekki að geta unnið. En hún hefur samt verið í 67% starfi í 25 ár og 50% starfi frá áramótum. Þessi kona hefur því sömu laun og konur úti í þjóðfélaginu sem vinna sambærileg störf. Hún tapar ekkert þar. Þar að auki hefur hún betri fjárhagslega stöðu en margir aðrir vegna þess að fyrir utan það fær hún einnig ákveðinn styrk frá þjóðfélaginu, t.d. varðandi tannlækningar og annað.