Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 16:27:19 (4204)

2001-01-23 16:27:19# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[16:27]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur reynt að gera það tortryggilegt þegar sú sem hér stendur hefur bent á að kannski komumst við ekki lengra í þessari umræðu. Ég hef bent á að samkvæmt stjórnskipuninni sé kannski eina leiðin að fá dóm fyrir þessu. Þessu hefur verið lýst af stjórnarandstöðunni sem einhverri píslargöngu sem við ætlum að reka öryrkja út í.

Mig langaði að árétta þetta hér vegna þess að hv. þm. kastaði fram þeirri spurningu í byrjun hver ætti að skera úr um og að hér stæði fullyrðing á móti fullyrðingu. Samkvæmt stjórnskipuninni eru það dómstólarnir. Það er mjög óeðlilegt ofan á aðra tortryggni sem vakin hefur verið í þessu máli og verið reynt að vekja gagnvart stjórnarflokkunum í þessu að reyna líka að veikja traust á dómstólunum. En það er líka óskaplega fróðlegt að heyra að hv. þm. Þuríður Backman vill ekki að málið fari til Hæstaréttar. (Gripið fram í.)