Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 16:29:35 (4206)

2001-01-23 16:29:35# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gat þess að löng hefð væri fyrir því að miða bætur almannatrygginga við lægstu laun. Þetta er ekki alveg rétt. Það var lengi vel í lögum að miða skyldi við lægstu laun. Síðan var því breytt. Það var tekið að vísu úr sambandi. En síðan var lögunum breytt 1997 að tillögum ríkisstjórnarinnar. Það voru ekki deilur um það. Stjórnin og stjórnarandstaðan, allir í þinginu, stóðu saman að þeirri breytingu að almennri launaþróun í landinu skyldi fylgt. Við höfum lagt okkur alla fram um að gera þetta. Í haust þegar við vorum að semja fjárlögin töldum við upp á það, vegna þess að það eru alltaf launatilfærslur í landinu, að við þyrftum að hækka þessi laun um 1% meira en launataxtarnir áttu að hækka 1. janúar til þess að leiðrétta þetta, til þess að hafa þetta rétt. Við vorum að vanda okkur. Það er þess vegna sem við hækkuðum þetta í 4% 1. janúar meðan launin hækkuðu um 3%.