Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 16:31:44 (4208)

2001-01-23 16:31:44# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að biðjast afsökunar ef ég fer með rangt mál. Ég man ekki betur en það hafi verið almennur fögnuður í þinginu um að setja þetta inn. Ég ætla að fletta upp á því í þingtíðindum hvort okkar hefur rétt fyrir sér. Ef svo er að það sé rangt að stjórnarandstaðan hafi ekki tekið þátt í þessu, þá dreg ég ummæli mín til baka. Að minnsta kosti man ég mjög vel að stjórnarandstaðan fagnaði þessu. Hún fagnaði þessu ákvæði, enda var ákvæðið gríðarlega þýðingarmikið fyrir örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega því að þar er kveðið á um að þessir aðilar skuli ekki verða fyrir kjaraskerðingu ef þannig gengur fyrir sig í landinu að þjóðfélagið verði fyrir kjaraskerðingu, allur almenningur verði að taka á sig kjaraskerðingu, þá var ákveðið og við tókum á okkur að þá skyldum við hlífa þessum aðilum. Það er aðalatriðið í lögunum eins og þau eru í dag. Þess vegna fögnuðu allir þeirri lagasetningu, bæði stjórn og stjórnarandstaða. Ég ætla að fletta upp á því, herra forseti, hvernig aðdragandinn að þessu var.