Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 16:32:53 (4209)

2001-01-23 16:32:53# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í þessar söguskýringar. Ég hreinlega treysti mér ekki til þess. Aftur á móti vil ég ítreka að það sem er fylgiskjal með nál. minni hlutans er birt úr opinberum gögnum og er staðreynd, sama hvernig við förum í þessar sögulegu skýringar. Við eigum að fagna öllum þeim kjarabótum og hækkunum umfram það sem gerist á almennum launamarkaði sem fara til öryrkja og ellilífeyrisþega. Við eigum að gera það. Og við eigum að standa vörð um þau kjör. Vissulega var það viðleitni í þá átt að hafa slíka tryggingu svo bætur færu ekki alveg hreint í botninn.

Ég ætla að vona að við náum í framtíðinni samstöðu um að bæta kjör þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði komum með margar tillögur um það á síðustu fjárlögum, en þær voru allar felldar.