Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 16:33:59 (4210)

2001-01-23 16:33:59# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð með þá umræðu sem hér hefur farið fram. Í fyrsta lagi hefur hún varpað mjög skýru ljósi á kjör og stöðu öryrkja í landinu, bæði þeirra sem það mál sem við erum að fjalla um á við og jafnframt annarra. Umræðan hefur einnig dregið fram ákveðin skil, sem eru mjög skýr fyrir alla sem fylgjast með og mjög mikið er fylgst með þessari umræðu, skil á milli þess sem stjórnarandstaðan og þeir flokkar sem hana skipa standa fyrir í velferðarmálum og afstöðu til þeirra sem minnst mega sín og þess hvernig stjórnarmeirihlutinn vill vinna að þeim sömu málefnum og ekki síst, herra forseti, dregur hún athyglina að því hvernig stjórnarmeirihlutinn fer með vald sitt.

Herra forseti. Af því ég hyggst byrja á því að beina orðum mínum til hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem var fyrir fáeinum mínútum í þingsal, óska ég eftir því að ef hann er enn þá í húsinu sýni hann mér þann heiður að koma í þingsal vegna þess að ég ætla að fara nokkrum orðum um ræðu hans fyrr í dag.

Auðvitað höfum við tekið eftir því að á sama tíma og stjórnarþingmenn hafa verið að veitast að stjórnarandstöðunni hefur þeim fundist stjórnarandstaðan vera harðorð og nota stór orð. En það hefur verið þannig að mjög margir stjórnarliðar hafa notað orð sem ekki hafa oft heyrst hér áður svo það er alveg ljóst að þeir eru ekki þá að tala af því þetta sé þvert um það sem þeim sjálfum er kært.

Ég gleðst yfir því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er kominn í salinn. Ég ætla að byrja á að nefna það að hann fór mörgum orðum í ræðu sinni um gott fólk í ríkisstjórn, eiginlega alltaf gott fólk í ríkisstjórn á árum áður, á árunum 1988--1991, gott fólk í ríkisstjórninni á árunum 1991--1995 og gott fólk í þeirri ríkisstjórn sem nú er. Ég dró þá ályktun af orðum hans að hann hefði tekið gagnrýni okkar á ákvarðanir þær sem hér hafa verið teknar af stjórnarmeirihlutanum og þeirri ríkisstjórn sem nú situr sem vondum ákvörðunum og það sé yfirlýsing um vont fólk. Ég hef alltaf gert mikinn greinarmun á því hvernig ákvarðanir fólks eru og hvernig þær eru dæmdar og hvernig fólkið sjálft er. Ég er ósammála t.d. hv. þm. Sjálfstfl. í skoðunum, en það breytir því ekki að margt af því ágæta fólki eru góðir kunningjar mínir og ég get látið mér falla mjög vel við þá sem einstaklinga. Þarna geri ég stóran greinarmun á.

En herra forseti. Þetta er eins konar inngangur að því sem ég ætla að segja við hv. þm.

Ég geri mér grein fyrir að hv. þm. þekkir mjög vel söguna og aðdragandann t.d. að þjóðarsáttinni, kjarasamningum og því átakamáli að ná niður verðbólgunni og ná sameiginlega utan um það að gera þjóðarsátt um kjör þannig að við ynnum bug á verðbólgunni. Það er ekki af engu að hv. þm. fékk viðurnefnið bjargvætturinn á þeim tíma og ég segi það í viðurkenningartóni vegna þess að ég lít svo á að þegar um hv. þm. er þannig fjallað sé í raun og veru verið að segja að hann hafi tekið þar jafnvel frumkvæði sem menn hefðu vænst að yrði tekið annars staðar á hærri stöðum.

En hv. þm. var með nokkuð stórar yfirlýsingar um kaupmátt og tryggingabætur og vildi undirstrika bæði samstöðuna um breytingarnar 1998 --- þetta voru breytingar sem gerðar voru í bandormi 1998 --- og jafnframt halda því fram að kaupmáttur væri ekki svo miklu lakari og hefði ekki dregist jafnmikið aftur úr á liðnum árum hjá þeim sem lifa af tryggingabótum og þeim sem eru á vinnumarkaði. Ég ætla að einbeita mér að því í upphafi ræðu minnar.

Herra forseti. Frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum kom til þingsins á árinu 1998. Eins og gjarnan er gert var sá hluti þess sem átti við heilbr.- og trn. sendur þangað til umsagnar. Það voru breytingar á útreikningum bóta. Síðan fékk efh.- og viðskn. umsögn minni hluta heilbr.- og trn. og þar vöktu fulltrúar minni hlutans í nefndinni athygli á því að nauðsynlegt væri að taka af öll tvímæli um viðmið og framkvæmd bótahækkana. Það yrði með ótvíræðum hætti að tryggja að fyrirhuguð 4% launahækkun sem ráðgerð var um áramótin á eftir kæmi örugglega líka fram í hækkun bóta almannatrygginga. Minni hlutinn í heilbr.- og trn. bar fram í nál. sínu svohljóðandi brtt., herra forseti:

,,Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 59. gr. og fjárhæðir skv. 17. gr., skulu breytast í samræmi við launavísitölu Hagstofu Íslands, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísistölu neysluverðs. Breytingarnar skulu vera ársfjórðungslega frá byrjun mánaðanna janúar, apríl, júlí og október og miðast við breytingar launavísitölu á næstliðnum þremur mánuðum.``

Efh.- og viðskn. tók við þessu áliti og í áliti minni hluta efh.- og viðskn., sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Ágúst Einarsson og Jón Baldvin Hannibalsson, rituðu undir er fjallað um þessar breytingar. Það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir hvaða ákvarðanir voru teknar á þeim tíma. Þeir segja um 8. og 11. gr. sem áttu við þessar breytingar að ,,fjallað er um breytingar á lögum um almannatryggingar, en þar er að verulegu leyti bakkað með þá breytingu`` --- taki hv. þm. eftir því --- ,,sem ráðist var í undir lok árs 1995 og tók gildi á árinu 1996 að afnema tengingu bóta almannatrygginga við vikukaup í almennri verkamannavinnu. Ríkisstjórnin er á flótta undan mikilli og almennri óánægju elli- og örorkulífeyrisþega með þá ráðstöfun sem stjórnarandstaðan hefur frá upphafi gagnrýnt harðlega og barist gegn. Því miður hefur sú leið verið valin að ganga frá málinu með nokkuð óljósu orðalagi...``.

Síðan er farið yfir það hvernig bæturnar skuli breytast og taka mið af launaþróun.

,,Minni hlutinn`` --- og bið ég þm. hv. að leggja við eyrun --- ,,telur eftir sem áður að best hefði verið að ganga frá þessari tengingu við launaþróun eða launavísitölu með skýrum hætti og tekur undir álit minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar í því sambandi, sbr. fskj. IV. Rétt er að vekja athygli á því að með breytingunum á 59. gr. og 17. gr. almannatryggingalaga er í reynd verið að afnema þá tryggingu sem hefur verið fyrir því að þær fjárhæðir, þ.e. annars vegar frítekjumark eða skerðingarupphæðir skv. 17. gr. og hins vegar greiðslur skv. 59. gr., fylgdu sjálfkrafa launaþróun. Í reynd er verið að aftengja þessi ákvæði og þar með beina tengingu við launabreytingar hvað varðar fleiri stærðir í almannatrygg ingakerfinu. Þau skulu hins vegar tengjast launaþróun á sama hátt og almennir bótaliðir, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Yfirlýsingar forsætisráðherra í umræðum er þó tæpast hægt að túlka öðruvísi en þannig að orðalag 9. gr. frumvarpsins beri að skilja svo að bætur almannatrygginga og greiðslur skv. 59. gr. og fjárhæðir skv. 17. gr. skuli beinlínis fylgja launaþróun (launavísitölu).`` Hér lýkur tilvitnun minni í nál., herra forseti.

Þetta hefur ekki gengið eftir. Ljóst er að minni hlutinn í efh.- og viðskn., á sama tíma og hann tekur undir gagnrýni og tillögur heilbr.- og trn., kýs að gefa því tækifæri að standa að álitinu en hefur efasemdir um að það gangi eftir, en forsrh. hefur verið með þannig yfirlýsingu að menn treysta því að nú verði farið út í að tengja bæturnar við laun.

Hvað hefur síðan gerst á þessum tíma, virðulegi forseti? Það er það sem ég ætla að fara yfir. Við í stjórnarandstöðunni höfum gert okkur það ómak, ef á að orða það svo, að hafa samband við þá aðila sem gerst þekkja til að fá upplýsingar um það. Á tímabilinu janúar 1998 til september 2000 hækkaði neysluvísitalan um 8,8%. Grunnlífeyrir og tekjutrygging samkvæmt ákvörðun eins og hér var verið að breyta hækkaði um 11,4%. En launavísitalan hækkaði um 17,1%. Samanlagður kaupmáttur vegna grunnlífeyris og tekjutryggingar hefur hækkað á þessu tímabili um 2,13%, virðulegi forseti, en kaupmáttur almennra launa um 8,7%. Það töldu allir að miðað yrði við launavísitölu þó að orðalagið væri loðið eins og ég hef hér vísað til, en það hefur aldrei verið gert.

Nú í janúar hækkaði grunnlífeyrir um 4%, en ekki liggur fyrir hvað launavísitalan hefur hækkað, en reiknað er með að hún hafi hækkað meira. Þetta er staðan í málefnum öryrkja og greiðslna til þeirra. Aldrei hefur verið farið eftir því, sem var yfirlýsing um, að láta bæturnar fylgja þeirri þróun sem óskað var eftir. Við skulum muna að samtök aldraðra hafa ítrekað dregið fram þá staðreynd og hafa fært fyrir því rök að ef bætur almannatrygginga hefðu fylgt sama hlutfalli, verið sama hlutfall af almennum launum verkamanna og viðmiðun var við 1991 hefði ríkisstjórnin þurft að punga út 3,5 milljarði meira á ári en hún hefur gert. Það munar um 3,5 milljörðum sem ríkissjóður sparar á því að hlutfallið af þessum greiðslum er miklu lægra en það var 1991. Þetta eru staðreyndir sem hægt er að fá hvenær sem er fullan rökstuðning við hjá samtökum aldraðra og annarra þeirra sem hafa verið að vinna með þessi mál. Þessar tölur hafa verið teknar fyrir á fundum þar sem ég hef verið með fulltrúum stjórnarmeirihlutans og þeir hafa ekki gert tilraun til að hrekja þær staðreyndir.

[16:45]

Þetta, herra forseti, er það sem ég vildi koma á framfæri við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Ég hef lokið þeim kafla í ræðu minni og þakka honum fyrir viðveruna hér.

Herra forseti. Það er bullandi ágreiningur um þetta mál milli stjórnarandstöðu og stjórnarflokka og mikil andstaða í þjóðfélaginu við það sem ríkisstjórnin er að gera. Þess vegna gerist það ítrekað að hv. þm. stjórnarliðsins, sem annars eru mjög drjúgir með sig, koma upp og nota stór orð.

Stéttarfélög, félagasamtök og fjölmargir aðrir hafa sent frá sér bæði auglýsingar og efnt til funda. Viðbrögð fólksins á götunni eru sterk. Það er gott að þessi umræða hefur verið svona drífandi. Nú vita allir hver staðan er. Það vita allir hver kjör öryrkja eru og um hvað við erum að fjalla á Alþingi. Tilraunir til að láta það líta svo út að við værum að styðja greiðslur til ríkra öryrkja en bærum ekki hag annarra fyrir brjósti hafa ekki tekist.

Stjórnarliðar hafa ítrekað lýst því yfir að bæta þurfi hag allra öryrkja. Ítrekaðar hafa verið yfirlýsingar um að nefnd sem hefur verið lengi að störfum eigi að ljúka störfum í apríl og koma með tillögur sem bæti hag allra öryrkja og þeirra sem minnst hafa. Það er ljóst að við munum fylgja því eftir. Það mun ekkert þýða fyrir ríkisstjórnina ef tillögurnar frá þeirri nefnd skerða á nokkurn hátt kjörin. Hér hafa fallið stór orð og við höfum lýst því yfir að nú er hér samstaða allra flokka um að taka á þessum málum. Ríkisstjórnin hefur árlega sparað um þrjá og hálfan milljarð á undanförnum árum, bæði á öryrkjum og öldruðum og nú er komið að skuldadögum. Þannig er lífið nefnilega. Það kemur fyrr eða síðar að skuldadögum.

Stundum hefur komið að skuldadögunum þegar skipt hefur verið um ríkisstjórn þannig að sú ríkisstjórn sem skerðir er ekki alltaf sú sem þarf að bæta. Nú er komið að skuldadögum þannig að það er ljóst að þessi ríkisstjórn þarf að taka á honum stóra sínum ef hún ætlar að standa undir því sem stjórnarliðar hafa sagt í þessari umræðu.

Athyglisvert er hversu mjög hefur verið gert í að tala um efnafólk eða ríka öryrkja þótt ljóst sé og hafi margoft komið fram að við 134 þús. kr. laun maka fari greiðslur til öryrkja að skerðast. Við 185 þús. kr. samanlagðar tekjur hjónanna er skerðingin hafin. Þetta eru þær tölur sem menn miða við þegar þeir tala um ríku öryrkjana sem við erum sögð bera fyrir brjósti.

Einnig hefur verið fjallað um þá öryrkja, herra forseti, sem eiga maka sem hafa hærri laun. Við skulum koma okkur saman um að 250 þús. kr. í tekjur maka geri hjónin efnafólk. Ég er ekki viss um að margir taki undir það en við skulum notast við þá skilgreiningu að öryrki sem á maka sem hefur 250 þús. kr. á mánuði sé vel settur og ef hann hafi einhverja starfsgetu og geti unnið sjálfur fyrir 30 þús. þá sé þetta harla gott. Hvað gerðist, herra forseti, ef viðkomandi öryrki sem hefur 30 þús. kr. í eigin tekjur væri einn og gifti sig ekki? Þá hefði hann samtals 66.137 kr., lífeyrinn, grunnlífeyrinn, tekjutryggingu upp á 32.566 kr. og heimilisuppbót. Ef hann hefði nú gift sig áður en ríkisstjórnin gerði frv. sem hér er til umræðu að lögum, þá hefði hann fengið eftir giftinguna 18.424 kr. úr sameiginlegum sjóðum. Stjórnarliðar mundu væntanlega segja: Það var í raun nóg því samanlagt höfðu þessi hjón 250 þús. kr. og 30 þús. kr. að auki. Síðan mundu þeir segja: Nú gerum við rosalega vel við þá vegna þess að við hækkum fjárhæðina í 43 þús. kr. --- ekki 51 þús. kr. reyndar heldur þessi dularfullu 43 þús. kr. Hvað gerist þá? Jú, gifti þau sig eftir að lögin hafa verið sett, makinn hefur 250 þús. kr. í laun og öryrkinn sjálfur 30 þús. kr., þá fengi hann eins og áður 18.424 kr. og nýja frv. veitir honum 5 þús. kr. í viðbót. Við að gifta sig verður öryrkinn af 42.713 kr. úr opinberum sameiginlegum sjóðum vegna þess að viðkomandi hefur skerta starfsorku. 23.424 kr. fengi sá undir þessum kringumstæðum. Ríka fólkið, stuðningurinn, fjárhæðirnar --- þarf að hafa fleiri orð um þetta, herra forseti?

Ég ætla aðeins að rifja upp af hverju við erum að ræða þetta í stuttu máli. Alþingi setti tvenn lög í staðinn fyrir ein. Það urðu mistök og ákvæði sem stóð undir reglugerð um tekjutryggingu datt út. Tveimur árum seinna breytir Alþingi stjórnarskránni og um það eru allir sáttir. Þar kemur inn nýtt ákvæði um mannréttindi og grunnréttindi einstakinga í nútímasamfélagi og nýtt ákvæði um jafnrétti. Það eru höfð stór orð um það í fjölmiðlum og rætt við hv. þm. um þennan gjörning. Allir eru á sama máli um að það sé verið að færa stjórnarskrá okkar inn í nútímann og bæta réttarstöðu fólks.

Árið 1998 kemur fyrir þingið frv. frá heilbrrh. og þá uppgötvast --- væntanlega koma fram ábendingar um það í umfjöllun nefndar --- að ákvæði þar brjóti að líkindum í bága við ný ákvæði í stjórnarskrá. Eins og fram hefur komið bentu átta þingmenn á það í yfir þrjátíu ræðum að sú athugasemd hefði komið fram og Alþingi þyrfti að gæta að því.

Ég sagði áðan að umræðan hefði m.a. dregið það fram hvernig þessi ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn fara með valdið. Reyndar hafa virtir lögfræðingar úti í bæ sagt að meiri hlutinn verði að átta sig á því að hann sé ekki alvaldur. Stjórnarmeirihlutanum finnst hann hins vegar vera alvaldur, kærði sig ekki um þessar ábendingar og setti lög samt. Öryrkjar kæra og í árslok 2000 fellur dómur í Hæstarétti. Stjórnarliðar segja ekki: Þetta var leiðinlegt. Lögum þetta. Við töldum að við værum að gera rétt. Nei, þeir ákveða að fara sína eigin leið. Þeir túlka dóminn, fá nefnd til að fara yfir það hvað Hæstiréttur hafi verið að segja og ákveða að þeir geti í raun farið sínu fram þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar.

Ég ætla ekki að fara mikið nánar í hæstaréttardóminn. Ég ætla hins vegar að nefna dómsorðið. Ég spyr: Hvernig stendur á því að Garðar Gíslason, forseti Hæstaréttar, og Pétur Kr. Hafstein lögðu fram sérálit? Hvernig stendur á því að þeir voru ekki með á áliti hinna þriggja sem mynduðu meiri hlutann, miðað við túlkun meiri hlutans á Alþingi? Í dómsorðinu segir að það sé óheimilt frá 1. jan. 1994 að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap. Allir hafa talað um að um það sé ekki ágreiningur. Enda segir í niðurstöðu álits Garðars Gíslasonar og Péturs Hafsteins að frá 1. jan. 1994 hafi verið óheimilt að skerða tekjutryggingu. Allir segja það sama um þetta tímabil.

Þá kemur seinna tímabilið en um það er ágreiningur. Um það segir í dómsorði:

,,Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.``

En hvað segir í niðurstöðu hinna tveggja sem skiluðu minnihlutaáliti? Jú, þar segir:

,,Á hinn bóginn hafi aðaláfrýjandi mátt skerða tekjutrygginguna frá 1. janúar 1999, eftir að heimild til þess hafði verið leidd í almannatryggingalög með lögum nr. 149/1998.``

Ég hef alltaf talið að ég væri vel læs og tel mig skilja nokkurn veginn það sem ég les en ég get ekki skilið röksemdir stjórnarliða með hliðsjón af þessu. Ef dómsorðið viðurkennir að heimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. jan. 1999 með tilvísun í lagagreinar, af hverju í ósköpunum var þá ekki lagt fram eitt álit? Af hverju í ósköpunum komu tvö álit frá Hæstarétti? Ég get ekki skilið það.

Ég bið um að þeir stjórnarliðar sem halda því fram að þeir hafi skoðað málið svo ítarlega útskýri fyrir mér hver er munurinn á því þegar sagt er í minnihlutaálitinu: ,,Á hinn bóginn hafi aðaláfrýjandi mátt skerða tekjutrygginguna frá 1. janúar 1999, eftir að heimild til þess hafði verið leidd í almannatryggingalög ...`` og setningunni: ,,Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993,`` ef það má skerða tekjutrygginguna eftir sem áður. Af hverju erum við með tvö álit? Ég spyr um það? Það er stóra spurning mín til stjórnarmeirihlutans undir lok þessarar umræðu. Þetta skil ég ekki. Ég bið þá sem hafa skoðað þetta og geta skýrt það fyrir þeim sem ekki skilja að gera það nú.

Herra forseti. Menn hafa keppst við að túlka eitthvað. Ég geri enga tilraun til að túlka. Ég spyr bara: Hver er munurinn á þessum tveim setningum ef báðar setningarnar segja að það hafi mátt skerða tekjutrygginguna? Af hverju kom sérálit?

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að renna yfir t.d. viðbrögð sem komið hafa fram í leiðara Morgunblaðsins, sem við höfum alltaf tekið svo mikið mark á, til að styðja það sem við höfum sagt hér. Ég ætla hins vegar ekki að gera það. Ég ætla bara að minna á hversu stór orð voru látin falla í leiðurum Morgunblaðsins bæði 23. og 24. desember, eftir að þessi dómur féll.

Ég minni jafnframt á sjónarspilið sem sett var af stað í kjölfar dómsins. Hér hefur verið farið mjög vel yfir fyrstu viðbrögðin, fyrstu viðbrögð lögfræðinga og fyrstu viðbrögð Morgunblaðsins. Fyrstu viðbrögð Tryggingastofnunar voru að fara beint og reikna út greiðslurnar og hún taldi sig ekki þurfa til þess lög, fyrst og fremst breytingu á reglugerð og að síðar yrði tekið á afleiddum áhrifum af þessum dómi gagnvart öðrum hópum með lagasetningu. Þess vegna höfum við sagt það að það að greiða út þessum hópi samkvæmt dómnum 1. janúar var fyrst og fremst spurning um vilja. Hins vegar hefur endalaust verið snúið út úr því.

En sjónarspilið fólst í því að eftir fyrstu viðbrögð var málið tekið úr höndum heilbrrh. og lagt fyrir starfshóp sem við höfum notað ákveðið nafn yfir, í hendurnar á lögfræðingi sem stýrði þeim starfshóp sem við höfum notað ákveðið nafn yfir en ég ætla ekki að nefna því það fer svo í taugarnar á forsrh., og allt í einu rann upp fyrir öllum sem fylgdust með að þetta sjónarspil snerist um að finna leið fyrir ríkisstjórnina til að komast hjá því að greiða út óskerta tekjutryggingu.

Við höfum beitt fyrir okkur rökum lögmanna, m.a. Eiríks Tómassonar, um að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að greiða samkvæmt dómnum þá þegar og fulltrúar frá Tryggingastofnun nefndu að aðeins hefði þurft nýtt frítekjumark. Við höfum hins vegar ítrekað spurt hvers vegna hafi verið farið út í að skerða þá fjárhæð sem í dag myndar saman grunnlífeyri og tekjutryggingu, u.þ.b. 51 þús. kr. Við viljum vita af hverju menn hafa haft svona mikið fyrir því að borga ekki þessa fjárhæð og farið í þann pólitíska darraðardans sem hér hefur átt sér stað til að komast hjá því að borga þessum 1.200--1.400 manna hópi út 51 þús. kr. og spara sér þar með 40 millj. eða í kringum 200 millj. á ári. Annað eins höfum við séð renna til minni hópa en þegar ríkisstjórninni hefur hentað.

[17:00]

Af hverju fór ríkisstjórnin í þennan darraðardans, ekki bara við afmarkaðan hóp öryrkja, ekki bara við Öryrkjabandalagið, ekki héðan úr Alþingi heldur beinlínis við allt almenningasálitið í landinu?

Við höfum spurt aftur og aftur: Af hverju 43 þúsund? Illa hefur gengið að fá svör nema formaður heilbr.- og trn. hefur svarað þannig að það sé hagræðið af hjúskap og það sé metið upp á 8 þús. kr., reyndar til viðbótar þeim 22 þúsundum sem þegar er ákveðið að komi ekki til þeirra sem eru í hjúskap eða sambúð sem eru heimildargreiðslur og koma til þeirra sem búa einir.

En við höfum spurt: Af hverju ekki 40 þúsund? Af hverju ekki 45 þúsund? Af hverju 43 þúsund? Við fjárhæðinni fáum við engin svör en við fengum pólitískt svar frá tveimur þingmönnum. Við fengum pólitískt svar frá Þorgerði Gunnarsdóttur og við fengum pólitískt svar frá Ástu Möller.

En svo ég vitni í svar hv. þm. Ástu Möller segir hún:

,,Það er því alveg ljóst, eins og kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. í dag, að ef sú leið hefði verið farin, að miða við 51 þús. kr., þá hefði það verið viðurkenning á fullum rétti annarra til að fá bætur án tekjutengingar. Það er bara ekki í samræmi við hugmyndir okkar,`` sagði þingmaðurinn.

Það var eitt af því sem kom okkur svo á óvart eftir að starfshópurinn hafði verið einhverjar vikur að störfum hvernig stóð á því að starfshópnum og formanninum, sem forsrh. skipaði, var ekki falið að skoða hvaða áhrif þessi dómur hefði á stöðu annarra svo sem aldraða. Vegna hvers ákvað ríkisstjórnin að skoða það ekki hvort nú væri komið að því að meta hvernig ætti að standa að greiðslum til aldraðra? Við skulum ekki gleyma því að annars staðar erum við að tala um nöfn á bótum, hjá okkur, grunnlífeyri, tekjutryggingu og svo heimildarbæturnar, og hins vegar erum við að tala um fjárhæðir.

Ég hef rakið hvernig samtök aldraðra hafa reiknað út hve ríkissjóður hefur sparað stórfelldar fjárhæðir á því að aftengja bætur til aldraðra og öryrkja við launin. Þá hefur maður velt því fyrir sér í góðærinu: Af hverju valdi ríkisstjórnin ekki að skoða hvað þyrfti að gera gagnvart þeim hópum öðrum sem gætu verið í þessu dæmi? Þá liggur beinast við að gefa sér að það væri ekki stefna þessarar ríkisstjórnar. Hver er þá stefna ríkisstjórnarinnar? Er það vilji flokkanna sem standa að ríkisstjórninni eða er það eitthvað sem verður til hjá fámennum hópi sem myndar hið stjórnskipaða vald, ríkisstjórnina? Vildu flokkarnir þetta ekki?

Þá mundum við segja: Jú, Framsfl. hefur boðað það að vilja gera betur við þá sem eiga undir högg að sækja. Framsfl. vill fólk í fyrirrúmi. Heilbrrh. hefur talað um það sem réttlætismál að afnema tekjutengingu við laun maka á tekjutryggingunni og kynnti það á Alþingi sem fyrsta skrefið hjá sér.

En hvað með Sjálfstfl.? Vill Sjálfstfl. þetta ekki? Skoðum það. Að minnsta kosti flokkurinn. Við fáum glæsilegar myndir af því þegar Sjálfstfl. heldur flokksþing sitt og þar eru samþykktar ályktanir sem ég hef talið að væru til þess að móta stefnuna sem sá flokkur ætlar að hafa að leiðarljósi í störfum sínum í sveitarstjórnum og á þingi. Hvaða ályktun hafa þeir gert um málefni eldri borgara?

Látum okkur heyra. Árið 1999 var ár aldraðra samkvæmt samþykkt Sameinuðu þjóðanna og málefni eldri borgara í brennidepli.

,,Landsfundurinn felur Sjálfstæðisflokknum að taka frumkvæði í velferðarmálum aldraðra og fagnar yfirlýsingu ríkisstjórnar þess efnis að á þeim verði sérstaklega tekið á árinu.`` Ég vil biðja þingmenn að leggja eyrun sérstaklega við næstu setningu:

,,Landsfundurinn samþykkir að afnema skuli tekjutengingu lífeyrisgreiðslna almannatrygginga til þeirra sem hafa náð 67 ára aldri. Í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar, heimilisuppbótar`` --- takið eftir þessu --- ,,heimilisuppbótar og sérstakrar heimilisuppbótar eigi sérhver einstaklingur rétt á tilteknum eftirlaunum á mánuði, sem ekki verði skert með neinum hætti. Eftirlaunin samsvari a.m.k. framangreindum greiðslum óskertum og taki árlega breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar. Eftirlaunin verði óháð hjúskaparstöðu.``

Getur verið að einhverjir eftirlaunaþegar séu það sem þingmenn stjórnarliðsins hafa kallað í þessari umræðu ,,ríkir``. Getur verið að einhverjir eftirlaunaþegar eigi bæði miklar eignir og eigi mikla lífeyrissjóði þannig að um sé að ræða fjárhæðir af svipuðum toga og hafa verið nefndar í umræðunni um ,,ríku öryrkjana``? Já, það getur verið. Samt sem áður samþykkir þessi flokkur og þetta flokksþing að eftirlaunin samsvari a.m.k. framangreindum greiðslum óskertum --- þá er búið að taka heimildargreiðslurnar inn líka --- og taki árlega breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar. Eftirlaunin verði óháð hjúskaparstöðu.

Þetta er glæsileg samþykkt. Að vísu stendur ekkert hér um öryrkja en ég geng alveg út frá því að þann dag sem Sjálfstfl. í ríkisstjórn hrindir þessari landsfundarsamþykkt í framkvæmd mundi hún jafnframt gilda um öryrkja. Ég get ekki séð að Sjálfstfl. kæmist fram hjá því. Að vísu er líka talað í stjórnarsáttmálanum um að skoða almannatryggingakerfið og lífeyrissjóðakerfið með það að markmiði að umfang og kostnaður verði sem minnstur og áhersla verði lögð á að tryggja sérstaklega hag öryrkja, fatlaðra og aldraðra sem lægstar tekjur hafa. Það átti líka að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins en við höfum ekki séð mikið af tillögum í fjölskyldumálum hjá ríkisstjórninni. Það er bara þál. en eftirfylgnin engin.

Herra forseti. Við erum í þessum greiðslum að tekjutengja í ríkum mæli við eigin tekjur í almannatryggingakerfinu. Heimildarbæturnar eru miðaðar við fjölskyldutekjur. Við notum skattkerfið, við notum vaxtabætur, við notum mjög margar leiðir við það að jafna kjör. Það sem við höfum verið að ræða er fyrst og fremst grunnframfærslan og af því að menn hafa sagt að hún sé nokkuð góð miðað við Norðurlönd ætla ég að taka einn samanburð, Danmörku.

Hjá okkur hefur það verið þannig að greiðslan er 18 þúsund, eftir það eru greiðslurnar tekjutengdar, í Danmörku 84 þúsund, eftir það eru greiðslurnar tekjutengdar. Þetta er kallað mismunandi nöfnum. Það sem stendur eftir eru fjárhæðirnar. 18 þúsund hér. Um leið og eitthvað kemur til viðbótar hefst tekjutenging. 84 þúsund í Danmörku áður en greiðslur verða tekjutengdar. Einstaklingur fær meira. Hann fær 95 þúsund áður en tekjutengingar byrja.

Þannig er þetta og mér dettur ekki í hug að nota einhver önnur orð um þetta. En hér hafa menn hamast við að vera með hálfsannleik. Það er alveg hægt að segja: Tekjutryggingar eru tekjutengdar við laun maka í Danmörku. En tekjutryggingin, ef menn segja að ,,pensionstillæg`` sé tekjutrygging, er allt aðrar krónur og leggst ofan á allt aðrar grunnfjárhæðir sem þar er ætlast til að menn hafi í grunnþarfir sínar.

Herra forseti. Að lokum þetta. Skilaboðin til öryrkjanna í þessari umræðu hafa verið: Kærið aftur til að láta meta lögin. Öldruðum mun sjálfsagt finnast full ástæða til að leita réttar síns á sama hátt. Ef til vill er það svo að við munum ekki vita fyrr en þetta mál og kannski fleiri hafa farið aftur fyrir Hæstarétt hvað Hæstiréttur var að meina en Hæstiréttur klofnaði um ágreining um hvort það mátti tekjutengja tekjutrygginguna við laun maka. Annars vegar var sagt: Það má ekki. Hins vegar var sagt: Það má. Enn kalla ég eftir einu og það er: Herra forseti. Hver getur þýtt fyrir mig þessa niðurstöðu minnihlutaálits Hæstaréttar þegar búið er að bera hana saman við dómsorðið í Hæstarétti. Þá hef ég lokið máli mínu, herra forseti.