Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 17:14:34 (4215)

2001-01-23 17:14:34# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[17:14]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur talað mikið og ég hef heyrt á þeim fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem hún er formaður fyrir að þeir telji tvímælalaust að stjórnin og stjórnarþingmenn séu jafnvel að brjóta stjórnarskrána og mannréttindi á öryrkjum með því að samþykkja þetta frv.

Nokkuð ítarlega hefur verið farið yfir það í dag af hálfu meiri hlutans hvernig þeir rökstyðja að ekki sé verið að brjóta mannréttindi eða stjórnarskrá með því frv. sem hér er lagt fram. En ég hef saknað þess að í sjálfu sér hefur ekkert komið frá stjórnarandstöðunni sem hægt sé að segja að styrki niðurstöðu hennar þannig að þetta eru einvörðungu bollaleggingar hennar sjálfrar um hvað hún vill fá út úr þessu. Ekkert heilt er á bak við þessa niðurstöðu annað en bollaleggingar. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort hv. þm., sem er formaður þingflokks Samfylkingarinnar, viti betur og geti bent mér á hvar hægt sé að styrkja þessa niðurstöðu minni hlutans svo að við getum unnið þá út frá því. Hvar geta minni hlutinn og Samfylkingin fundið það út að verið sé að brjóta stjórnarskrána með framlagningu þessa frv.?