Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 17:20:22 (4219)

2001-01-23 17:20:22# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[17:20]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að það komi fram að ég fór ekki alveg með rétt mál áðan þegar mig minnti að við atkvæðagreiðslu 19. des. 1997 hefði stjórnarandstaðan greitt með okkur atkvæði. Hið rétta er að hún sat hjá. En í atkvæðaskýringum sem hv. þm. Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon gáfu kemur mjög skýrt fram að þeir telja þessa breytingu mjög til bóta, mjög til bóta. Það er líka hægt að sjá það á öllum gögnum þessa máls svo og þingtíðindum að það fór ekkert á milli mála í þessari umræðu um hvað væri verið að tala. Það er verið að tala um launaþróun. Hv. þm. Ágúst Einarsson kom með tillögur um að binda þetta beint við vísitölu launanna. Við vorum alfarið á móti því. Við vildum binda þetta við launaþróun, enda væri aðalmálið og aðalbreytingin fólgin í því að verja þessi laun, þ.e. lífeyrisgreiðslur ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega, ef það harðnaði á dalnum eða ef kaupmáttur launa á Íslandi minnkaði. Þannig fór þetta fram þannig að ekkert fer á milli mála. Stjórnarandstaðan sat hjá. En þeir sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu lýstu því yfir að þetta væri mjög til bóta.