Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 17:21:46 (4220)

2001-01-23 17:21:46# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[17:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki gert nokkra tilraun til þess að hafna því að stjórnarandstaðan sat hjá (Gripið fram í.) en í ræðu hv. þm. í dag var hann með þannig söguskoðun að það hefði mátt taka það sem svo að stjórnarandstaðan hefði verið mjög sátt og fylgjandi þessari breytingu. Það sem ég gerði, herra forseti, var að færa fyrir því mjög góð rök að stjórnarandstaðan var óróleg. Hún var kvíðin fyrir því hvað þetta gæti þýtt, þ.e. að viðmiðun við neysluvísitölu gæti tryggt að ekki yrði of mikil niðursveifla á þessum kjörum en að ástæða væri til að óttast að tengingin upp á við þegar betur áraði yrði ekki eins og menn vildu. Fyrir þessu færði ég rök. Svo var hitt að menn freistuðust til að treysta forsrh. og orðum hans vegna þess að hann gaf ákveðin fyrirheit sem ég vísaði til í ræðu minni.

Af því hv. þm. nefndi hinn ágæta þingmann Ágúst Einarsson, þá sagði hann svo í sinni atkvæðaskýringu:

,,Í minnihlutaáliti okkar bendum við á að við lítum svo á að orðalagið ,,að miða við launaþróun`` beri að skilja að taki við af launavísitölu. Við bendum hins vegar mjög skýrt á það að hér er ríkisstjórnin að snúa algerlega við blaðinu. Hún afnam tenginguna fyrir tveimur árum, hún var knúin til uppgjafar og það er verið að knýja hana til uppgjafar með afgreiðslunni í dag og tengja aftur bætur úr almannatryggingakerfinu við eðlilega þróun og láta ekki eldri borgara vera háðir geðþóttaákvörðun ríkisvalds hverju sinni.``

En hann hafði rangt fyrir sér. Það var ekki verið að snúa af þeirri braut vegna þess að ríkisstjórnin hefur haldið áfram uppteknum hætti og ekki látið þessar bætur þeirra sem minnst hafa í þessu landi fylgja launavísitölu.