Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 18:09:08 (4224)

2001-01-23 18:09:08# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Þessi 3. umr. um frv. ríkisstjórnarinnar, um svokallað öryrkjafrv., hefur um margt verið athyglisverð. Kannski sérstaklega vegna þess að hér hefur verið tekist á um grundvallaratriði, prinsippmál í íslenskri löggjöf og íslensku stjórnarfari, mál er varðar stjórnarskrána eins og fram hefur komið í máli allflestra hv. þm. sem tekið hafa þátt í umræðunni.

Hið góða við þær rökræður sem hér hafa farið fram er að við hv. þm. höfum þurft að takast á við grundvallarspurningar um mannréttindi, um stjórnarskrána og um löggjöf sem samræmist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég hef aldrei á mínum stutta þingtíma tekið þátt í umræðu sem reynt hefur eins mikið á þingmenn og þeirri sem hér stendur yfir. Hver og einn einasti sem hér hefur farið í pontu hefur virkilega þurft að setja sig inn í málið. Það er ljóst að það gengur ekki að fara með fleipur þegar um er að ræða grundvallaratriði er varðar stjórnarskrá lýðveldisins.

Það er auðvitað grundvallaratriði þegar rætt er um félagsleg og efnahagsleg mannréttindi karla og kvenna, að hverjum og einum sé tryggð ákveðin lágmarksframfærsla. Um það fjalla hin félagslegu og efnahagslegu mannréttindi. Þó að margir hafi hér stigið á stokk og viljað draga úr gildi þessara mannréttinda, þessarar tegundar mannréttinda, og frekar viljað leggja áherslu á það sem kalla mætti hin klassísku mannréttindi, þau sem áður hafa verið viðurkennd af langflestum þjóðum, svo sem eins og málfrelsi og trúfrelsi og þar fram eftir götunum, þá er það svo að sá heimur sem við búum í hefur breyst æðimikið á síðustu 50 árum, ég tala nú ekki um á síðustu öld. Aðstæður eru þannig að svokölluð félagsleg og efnahagsleg mannréttindi skipta jafnmiklu máli og önnur mannréttindi.

Auðvitað má segja að afstaða okkar til mannréttinda sem hugtaks ráðist að einhverju leyti af pólitískum skoðunum. Það hefur komið glöggt fram í ræðum ýmissa hv. þm. Ég held samt að það sé mikið gleðiefni að við höfum fengið tækifæri til að kljást hvert við annað og glíma við þetta viðfangsefni þar sem hér er um algjört grundvallarviðfangsefni að ræða. Eins og ég sagði, herra forseti, er það ekki á hverjum degi sem viðfangsefni af því tagi rekur á fjörur hv. þm. Fyrir það getum við verið þakklát þrátt fyrir að málatilbúnaði hafi oft og tíðum verið ábótavant síðustu tvo, þrjá daga.

Þegar rætt er um félagsleg og efnahagsleg mannréttindi ber að gæta þess að þau byggjast ekki síst á jafnstöðu kynjanna. Ég hef sagt það áður og ég mun segja það aftur að dómur Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins er ekki síst kvennapólitískur dómur. Hann byggist m.a. á kröfugerð Öryrkjabandalagsins sem vísar í lög um jafnan rétt kynjanna. Ég hygg að sem slíkur marki dómurinn skil í mannréttinda- og kvenfrelsisbaráttu Íslendinga. Ég hygg að þegar fram líða stundir muni það koma æ betur í ljós í réttarfari okkar og stjórnmálum að félagsleg og efnahagsleg mannréttindi eru jafnveigamikil og önnur mannréttindi sem menn hafa hingað til viljað standa vörð um, treysta og virða.

Í því ljósi er kannski vert að benda á, eins og reyndar hefur komið fram hér fyrr í dag, m.a. í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, að hægri menn víða um heim hafa haft horn í síðu þeirra er staðið hafa fremst í baráttunni fyrir eflingu félagslegra og efnahagslegra mannréttinda. Það kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart að íhaldsmenn, þ.e. sjálfstæðismenn, halda uppi þeim viðhorfum hér á hinu háa Alþingi. Umræðan um að tryggja félagsleg mannréttindi hefur lengi verið þyrnir í augum hægri manna. Hins vegar kemur það mér svolítið á óvart þegar hv. þm. og hæstv. ráðherrar Framsfl. taka undir með Sjálfstfl. í þessu efni og fara reyndar á undan í umræðunni. Ég ólst upp við það að Framsfl. kenndi sig við jöfnuð og virðingu fyrir mannréttindum, hvaða nafni sem þau nefnast. Það kemur mér því einkennilega fyrir sjónir þegar sá stjórnmálaflokkur telur það ekki lengur hlutverk sitt að standa vörð um félagsleg og efnahagsleg mannréttindi eins og ég hélt að hefð væri fyrir hjá honum.

[18:15]

Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal orðaði það fyrr í dag vilja menn hafa sannfæringu sína í friði fyrir öðrum. Ég held að þetta sé rétt eftir hv. þm. haft. Það má vel vera að fylgismenn stjórnarinnar líti svo á að þeir geti haft hér og vilji hafa hér sannfæringu sína í friði fyrir okkur sem erum í stjórnarandstöðu. En það vill nú þannig til að hér þarf að eiga sér stað ákveðin samræða og ákveðin skoðanaskipti þó það sé auðvitað alveg ljóst að staðan hefur svo sem ekki breyst mikið, þ.e. fylgismenn ríkisstjórnarinanr virðast ekki ætla að fara ofan af því að hér þurfi að setja í lög það skerðingarfrv. sem um ræðir.

Herra forseti. Mig langar líka að koma aðeins inn á orðræðuna í umfjöllun um þetta frv. Þegar ég tala um orðræðuna á ég einfaldlega við orðin sem við notum. Hér hefur mikið verið rætt um að menn hafi gripið til gífuryrða, stóryrða, fúkyrða ýmiss konar. Ég ætla svo sem ekki að dæma um það á einn eða annan hátt. En það sem hefur komið mest við kaunin á mér í þessari umræðu er að hér hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum stigið í stólinn, og þá á ég bæði við þingmenn stjórnarandstöðu og stjórnarliðs, tek það skýrt fram, herra forseti, og rætt um þá sem minna mega sín, um þá sem eiga bágt, jafnvel okkar minnstu bræður og þar fram eftir götunum rétt eins og við séum hér að ræða um fólk sem þiggur ölmusu af ríkinu. Þetta er auðvitað hreinræktaður 19. aldar hugsunarháttur og er í raun ekki sæmandi hinu háa Alþingi vegna þess að við erum að ræða um réttindi þeirra sem í hlut eiga, um réttindi þeirra sem hafa orðið fyrir þeirri ógæfu að missa starfsorku sína vegna slyss eða vegna veikinda og þurfa þess vegna að sækja aðstoð sem þeir eiga fullan rétt á til ríkisvaldsins.

Mér finnst mjög mikilvægt að hv. þingmenn hafi þetta í huga þegar þeir ræða um kjör öryrkja af því ég held, og ég get sagt það fyrir sjálfa mig, að ef ég lenti í þeirri ógæfu að missa heilsuna á morgun þá mundi ég ekki sætta mig við að einhver talaði um mig í þriðju persónu sem einhvern sem má sín minna eða á bágt eða stendur að öðru leyti höllum fæti í samfélaginu. Þetta snýst nefnilega um réttindi, herra forseti. Þetta snýst um mannréttindi. Þetta snýst um reisn. Þetta snýst um að fá tækifæri til þess að lifa lífi sínu eins og maður kýs sjálfur, alveg burt séð frá kynferði, frá félagslegri stöðu eða fötlun.

Ég held að þessi umræða hafi m.a. og vonandi fært okkur fram á veginn í þessari orðræðu. Ég held að æ fleirum sé að verða ljóst að hér fjöllum við náttúrlega um mannréttindi. Við fjöllum ekki um einhver skömmtuð réttindi eða ölmusu þeim til handa sem standa höllum fæti eða hafa á einhvern hátt lent í því að missa starfsorkuna.

Með því að tryggja lágmarksréttindi, eins og gert er í hæstaréttardómnum sem þetta mál snýst um, með þeim hætti sem Hæstiréttur gerði þá held ég því fram að í raun sé verið að auka jöfnuð í samfélaginu. Hér hefur hver fylgismaður ríkisstjórnarinnar á fætur öðrum stigið í stólinn og haldið því fram að við jafnaðarmenn værum gengnir af jafnaðarstefnunni, að við værum nú dottnir í taumlausa einstaklingshyggju, sæjumst ekki fyrir í þeim efnum og hefðum nú allt í einu lagt af jafnaðarstefnuna. En það er einmitt ekki þannig. Það er nefnilega einmitt ekki þannig. Það er eiginlega skondið að halda því fram, ef menn hafa þá haft fyrir því að kynna sér jafnaðarstefnuna og kvenfrelsi yfirleitt, að í henni felist engin einstaklingshyggja eða virðing fyrir einstaklingnum sem slíkum. Það er nefnilega rangt, herra forseti. Virðing fyrir einstaklingnum er auðvitað kjarni jafnaðarstefnunnar og virðing fyrir einstaklingnum er kjarni málflutnings kvenfrelsissinna.

Ég held að hv. fylgismenn ríkisstjórnarinnar hafi misskilið þetta einhvers staðar. Ég skil það ekki öðruvísi. Þetta eru vel gerðir og vel greindir menn en þeir hljóta að hafa misskilið grundvallaratriði jafnaðarstefnunnar. Það er einmitt þá og því aðeins að við tryggjum lágmarksréttindi einstaklingsins, lágmarks félagsleg og efnahagsleg réttindi, mannréttindi einstaklingsins ásamt öðrum þeim mannréttindum sem þeir eiga að njóta, sem sá einstaklingur getur staðið jafnfætis öðrum í samfélaginu og beitt sér, nýtt sér þau tækifæri sem standa til boða eins og við jafnaðarmenn viljum, þ.e. að allir geti nýtt sér sömu tækifærin í samfélaginu. Það eykur jöfnuð á Íslandi. Það eykur jöfnuð á Íslandi að tryggja lágmarksframfærsluna með þeim hætti sem dómur Hæstaréttar kveður á um. Það bætir jafna stöðu eða jafnstöðu borgaranna. Og síðast en ekki síst jafnar það stöðu karla og kvenna í samfélaginu. Það er hin sögulega niðurstaða þessa dóms og hafi það ekki runnið upp fyrir mönnum hingað til í umræðunni vona ég að það sé um það bil að renna upp fyrir hv. þingmönnum að þessi dómur markar algjör tímamót í kvenfrelsisbaráttu á Íslandi vegna þess að í honum er vísað í mannréttindaákvæði, lög um jafna stöðu kynjanna og tekið tillit til þess að þeir öryrkjar sem í hlut eiga eru flestir konur.

Án þess að ég ætli að fara út í mjög mikla umræðu um efnahagslegt sjálfstæði kvenna þá vita það allir sem vilja vita að efnahagslegt sjálfstæði einstaklings, hvort heldur það er karl eða kona, er náttúrlega grundvöllur þess að sá einstaklingur geti ,,funkerað`` vil ég segja, herra forseti, í lýðræðissamfélagi, geti nýtt sér réttindi sín, geti sótt sér rétt sinn, geti staðið jafnfætis meðborgurum sínum og haft eitthvað um þetta samfélag að segja og gera.

Það er í raun stórkostlegt að Hæstiréttur skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu sem hann komst að í þessu máli. Því segi ég enn og aftur, herra forseti, að sú niðurstaða er ekkert minna en söguleg og markar vatnaskil í mannréttinda- og kvenfrelsisbaráttu hér á landi.

Ég get heldur ekki látið hjá líða, herra forseti, að víkja orðum að þeim málflutningi fylgismanna ríkisstjórnarinnar þar sem þeir hafa haldið því fram að stjórnarandstaðan vilji skattleggja lágtekjufólk til þess að greiða hátekjufólki bætur. Ég hef ekki heyrt neinn hv. þm. Framsfl. eða Sjálfstfl. rökstyðja þetta neitt ítarlega. Mér finnst það í raun alveg með ólíkindum að menn skuli reyna að halda þessu fram. Síðan er því gjarnan hnýtt við að þessi dómur eigi við svo fámennan hóp öryrkja --- og vissulega er það rétt --- og þess vegna hljóti allir hinir að vera mjög óánægðir með niðurstöðuna. Þannig er það einmitt ekki, herra forseti. Samstaða Öryrkjabandalags Íslands er órofa í þessu máli. Ríkisstjórninni hefur ekki tekist að koma fleyg á milli fólks þar.

Eins og hv. þm. Þuríður Backman benti á í ræðu sinni og las upp úr viðtölum í Morgunblaðinu kom skýrt fram að öryrkjar standa saman í þessu máli. Við í stjórnarandstöðunni erum að sýna þessum hópi samstöðu og stuðning vegna þess að þetta fjallar um grundvallarmannréttindi og er eitthvert mesta réttlætismál sem uppi hefur verið á hinu háa Alþingi.

Það að tenging tekjutryggingar við tekjur maka sé dæmd óheimil þýðir ekki að þar með eigi hinir ekki að fá neitt. Það er pólitísk ákvörðun. Það höfum við margfarið yfir í þessari umræðu. Vilji stjórnarandstöðunnar í því máli er alveg skýr og fyrir því liggja mörg þingmál. Nægir að minna á afgreiðslu fjárlaga núna síðast fyrir jólin í þeim efnum.

Það jaðrar auðvitað við að vera ósæmilegt hjá hv. þm. Sjálfstfl. og Framsfl. að halda því fram að með því að tryggja mannréttindi ákveðins hóps öryrkja sé hægt að ganga að því vísu að þar með sé gengið á rétt einhverra annarra, þeirra öryrkja sem búa einir eða þá að þeir þurfi að greiða fyrir þessa réttarbót.

Ég verð að segja, herra forseti, að þótt ýmis fúkyrði hafi nú fokið hér í umræðunni held ég samt að þessi röksemdafærsla sé einna ósvífnust og reyndar er með ólíkindum að menn skuli hafa komið hér upp aftur og aftur, kannski í þeirri trú að síbyljan nái einhvern tímann í gegn, að fólk fari síðan að trúa því að þannig sé þetta. Jú, jú, það má svo sem halda því fram að annað eins hafi gerst. En ég verð að segja eins og er, herra forseti, að þar leggjast menn lágt í málflutningi sínum.

Auðvitað hefur málatilbúnaður stjórnarflokkanna allur einkennst af því að vilja ekki ræða aðalatriði þessa máls. Öryrkjabandalagið höfðaði mál vegna tekjutengingarinnar og það var vegna hennar sem Hæstiréttur kvað upp dóm sinn. Sá dómur er skýr. Við erum búin að fara í gegnum það í mörgum tugum þingræðna. En þá mæta stjórnarliðar til leiks í 3. umr. og byrja að tala um launavísitöluna eða verðlagsþróun yfirleitt og efnahagsástand síðustu tíu ára. Gott og vel, auðvitað getum við rætt það líka. En það er ekki aðalatriði þessa máls. Þetta er í raun kristaltært mannréttindamál. Niðurstaða Hæstaréttar er skýr og eftir henni ber okkur að fara.

[18:30]

Mig langar, herra forseti, að vitna til ávarps Öryrkjabandalagsins sem birtist í fjölmiðlum á degi fatlaðra 3. des. 1999 eða fyrir rúmu ári. Þetta er ársgamalt ávarp, herra forseti, og kannski hollt fyrir þá að lesa eða kynna sér sem hafa haldið því fram að Öryrkjabandalagið hafi aðeins hugsað um lítinn hóp félagsmanna sinna. Þar segir, með leyfi forseta, undir yfirskriftinni Goðsögnin um íslenska velferðarríkið:

,,Í rúmt ár hefur Öryrkjabandalag Íslands reynt að vekja athygli þings og þjóðar á þeirri staðreynd að ekkert nágrannaríkja okkar ver eins litlu broti þjóðartekna sinna til öryrkja. Bandalagið hefur bent á að með mannréttindasáttmálum höfum við Íslendingar skuldbundið okkur til að tryggja að sérhver einstaklingur eigi kost á fullri þátttöku í menningar- og mannlífi þjóðarinnar, og í því sambandi m.a. vísað til umboðsmanns fatlaðra hjá Sameinuðu þjóðunum sem bent hefur á að fátækt fari fyrst og fremst eftir því að hve miklu leyti einstaklingi sé kleift að taka þátt í því mannlífi sem lifað er í kringum hann.``

Herra forseti. Ég gæti ekki orðað þetta betur. Við höfum skuldbundið okkur til að tryggja að sérhver einstaklingur eigi kost á fullri þátttöku í menningar- og mannlífi þjóðarinnar. Í því sambandi má vísa til umboðsmanns fatlaðra hjá Sameinuðu þjóðunum sem bent hefur á að fátækt fari fyrst og fremst eftir því að hve miklu leyti einstaklingi sé kleift að taka þátt í því mannlífi sem er í kringum hann.

Þetta er auðvitað kjarni málsins, herra forseti. Ef við búum þegnum þessa lands og borgurum þessa lands þau kjör að þeim sé ókleift að taka þátt í samfélaginu þá skerðum við grundvallarmannréttindi þeirra. Það gerist þegar löggjafarsamkoman tryggir ekki þegnum sínum lágmarksframfærslu og um það snýst þetta mál.

Það hangir fleira á þeirri spýtu, herra forseti, því að það er ekki bara sá sem bæturnar eða lífeyrinn þiggur sem á í hlut. Sá hinn sami eða sú hin sama gæti þurft að sjá fyrir fleirum, börnum eða maka. Við skulum ekki gleyma því að framfærsluskyldan er gagnkvæm. Þegar kjör þessa hóps eru skoðuð ofan í kjölinn, þó menn býsnist yfir gríðarháum heimilistekjum og leggi málið þannig upp að hér sé verið að greiða ríku fólki bætur, þá rennur það manni til rifja að þær fjölskyldur hafa ekki mikið fé handa í milli. Það vita allir sem hafa kynnt sér kjör öryrkja og fjölskyldna þeirra.

Hverjir skyldu líða helst fyrir það? Það eru börn öryrkjanna. Það eru afkomendur þeirra. Börn sem eiga þess t.d. ekki kost að taka þátt í félags- eða íþróttastarfi, menningarstarfi, fara í tónlistarnám eða eitthvað slíkt, vegna þess að foreldrum þeirra eru búin þau kjör að þau geta ekki veitt börnum sínum slíkan munað ef þannig má að orði komast. Hins vegar er það ekki munaður heldur hluti af eðlilegu og sjálfsögðu lífi barns að fá að taka þátt í því starfi utan skóla sem það hefur áhuga á, leggja stund á tónlistarnám, vera í íþróttafélagi. Allt kostar það peninga. Mér finnst þetta atriði hafa gleymst í umræðunni sem er kannski ekki furða miðað við hvað hún er yfirgripsmikil. En það eiga fleiri í hlut og það hlýtur líka að vera hluti af efnahagslegum og félagslegum mannréttindum þeirra sem þiggja örorkubætur að geta veitt börnum sínum það sem flestum okkar þykir sjálfsagt að veita þeim.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að 43 þús. kr. eða 51 þús. kr. eru ekki háar upphæðir. Við sem hér erum, sem höfum að lágmarki 330 þús. kr. á mánuði í þingfararkaup auk alls annars, þurfum auðvitað flest að sjá fyrir öðrum líka. Ég veit ekki hvort nokkurt okkar skilur hvernig er hægt að lifa af slíkum upphæðum hér á landi. En til eru þeir sem halda því fram að það hljóti að vera hægt og það sé bara spurning um að fjölskyldan standi saman og að öryrkinn sé svo heppinn að eiga maka sem sér fyrir honum eða henni.

Þetta er arfur af þeirri gömlu hugsun þegar konur í kjarabaráttu, kennarar og hjúkrunarfræðingar og flugfreyjur, þessar sígildu kvennastéttir, voru spurðar hvað þær væru nú að kvarta, hvort þær ættu ekki eiginmenn sem sæju ágætlega fyrir þeim hvort þær þyrftu nokkuð meira, hvort það væri ekki alveg nóg fyrir þær að fá að vera úti á vinnumarkaðnum fyrst að karlarnir leyfðu þeim það. Þannig var talað á Íslandi fyrir 25--30 árum, það er mér í barnsminni. Það eimir enn þá eftir af svona tali. Þó að menn séu búnir að læra rulluna sína um jafna stöðu kvenna og karla þá virðist þegar á reynir, þegar menn þurfa virkilega að standa fyrir máli sínu og grípa til þeirra grundvallaratriða sem skipta máli þegar mannréttindi eru annars vegar, ekki þurfa annað en rétt að klóra í yfirborðið til að allir gömlu fordómarnir og bábiljurnar um stöðu kvenna og karla gjósi upp, um fjölskylduna sem hornstein samfélagsins eins og lengi hefur verið haldið fram. Ætli það séu ekki flestir stjórnmálaflokkar á Íslandi sem hafi slíkt í stefnuskrá sinni.

Herra forseti. Aðeins með því að tryggja lágmarksréttindi einstaklings, lágmarks efnahagsleg réttindi og félagsleg réttindi hans, náum við að styrkja stöðu þessa einstaklings, bæði innan fjölskyldunnar og úti í samfélaginu. Við skulum ekki gleyma því að fjölskyldan sem slík er bara valdaapparat og staða fólks innan fjölskyldunnar er mjög misjöfn. (Gripið fram í.) Nú kann að vera að einhverjir hv. þm. hvái. (Gripið fram í: Já, það er alveg rétt.) Ég get svo sem brostið hér á með langri ræðu um stöðu kvenna innan fjölskyldunnar og ég sé að hv. þm. Katrín Fjeldsted vill gjarnan heyra slíka ræðu.

Ljóst er að konur hafa síðustu áratugi barist fyrir því að styrkja stöðu sína bæði úti í samfélaginu og innan fjölskyldunnar. Eins er ljóst að barátta öryrkja fyrir sínum réttindum er rökrétt framhald af baráttu kvenna fyrir frelsi sínu í samfélaginu og í fjölskyldunni. Það ættu flestir einstaklingshyggjusinnar að skilja. Aðeins með því að tryggja stöðu einstaklingsins innan fjölskyldunnar tryggjum við stöðu hans eða hennar í samfélaginu og þar með tryggjum við fjölskylduna sem einingu. Ég býst við að við séum langflest sammála um að það þurfi að gera --- eða hvað? Er engin innstæða fyrir þeim fögru orðum, að fjölskyldan sé hornsteinninn, þegar á reynir. Maður hefur heyrt þau svo oft að þau eru eiginlega orðin merkingarlaus? Með því að tryggja lágmarksréttindi einstaklingsins tryggjum við og treystum og styðjum við íslenskar fjölskyldur. Þar er jafnaðarstefnan komin í hnotskurn, herra forseti. Eftir henni hefur verið mjög lýst hér í þingsalnum á síðustu dægrum. Ég vona að það sé einhverjum þingmönnum stjórnarliðsins til hugarhægðar að fá hér skýringu á því máli.

Herra forseti. Jafnaðarstefnan og kvenfrelsisstefnan fara saman hönd í hönd og öll barátta fyrir réttindum svokallaðra minnihlutahópa. Þess vegna er svolítið undarlegt að sjá hvern þingmann Sjálfstfl. á fætur öðrum lýsa því yfir --- nú tek ég fram, herra forseti, að ég er að draga ályktanir af því sem hér hefur verið sagt almennum orðum --- að þeir vilji ekki tryggja stöðu einstaklingsins í samfélaginu eða fjölskyldunnar. Öðruvísi mér áður brá, herra forseti. Hvert er stefna Sjálfstfl. komin í þessum efnum?

Skiptir það kannski mestu máli í deilunni við Öryrkjabandalag Íslands að verða ekki undir, að þurfa ekki að viðurkenna mistök, að láta ekki í minni pokann? Er það svo mikið kappsmál ríkisstjórnarinnar að koma sér hjá því með öllum tiltækum ráðum að viðurkenna að kannski hefði verið betra að kalla til fundar með forustumönnum Öryrkjabandalagsins eftir að dómurinn féll, þeim sem unnu málið í Hæstarétti, ræða við þá um hvernig ætti að nálgast lausnina, hvernig mætti leysa þetta í góðri samvinnu og án þess að samfélagið færi bókstaflega á annan endann?

Það segir margt um hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að hún kaus að fara aðra leið. Ríkisstjórnin kaus að fara valdhrokaleiðina með yfirgangi og ótrúlegum málatilbúnaði hér á hinu háa Alþingi. Ég fullyrði, herra forseti, að í annan tíma hefur annað eins ekki gerst í samfélaginu. Þess vegna eru viðbrögð almennings eins og þau eru. Það liggur fyrir að rúmlega 80% þjóðarinnar telja að ríkisstjórnin hafi brugðist rangt við dómi Hæstaréttar. Það er ekki að ástæðulausu, herra forseti. Það er vegna þess að Íslendingar skynja og skilja hvílíkt réttindamál er hér á ferðinni, að hér er um grundvallarmannréttindi að ræða. Það virðast flestir hér í þessu góða landi skilja nema ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og fylgismenn hennar.

[18:45]

Ég sagði fyrr í dag, í andsvari við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, að það væri siður hægri manna að efast um gildi félagslegra og efnahagslegra mannréttinda. Fátt ef nokkuð í þessari umræðu hefur fengið mig af þeirri skoðun. Ef eitthvað er hefur hún sannað og sýnt fram á að íslenskir hægri menn eru eins og skoðanabræður þeirra annars staðar í heiminum í þeim efnum.

Ég held, herra forseti, að í upphafi nýrrar aldar segi það okkur mikið um hvaða stjórnmálastefnur muni duga inn í nýja öld, gamaldags afturhald og íhald eða jafnaðarstefna og kvenfrelsisstefna sem tekur á þeim vandamálum sem við er að eiga í samfélaginu og færir okkur nær lausnum. Ekki ætla ég að halda því fram að hún búi yfir öllum svörunum, ég ætla ekki að reyna það, en hún færir okkur tæki sem duga í þessari samfélagsglímu sem við eigum í.

Það er kannski það sem hefur kristallast hér í umræðunni um hæstaréttardóminn og frv. ríkisstjórnarinnar, að hvorki Sjálfstfl. né Framsfl. eiga í fórum sínum tæki sem duga á nýjar þjóðfélagsaðstæður og ný viðhorf í mannréttindakafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem endurspegla þá grundvallarbreytingu sem hefur orðið á samfélagi okkar undanfarinn áratug eða svo.

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu frekar. Ég tel að hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafi fært mörg og góð rök fyrir afstöðu sinni í þessu máli og þar vanti ekkert upp á. Ég taldi nauðsynlegt að hnykkja á því að aðeins með því að tryggja lágmarksréttindi, lágmarksframfærsluna, mannréttindi sem byggja á efnahagslegum og félagslegum réttindum, fyrir hvern einstakling tryggjum við og aukum jöfnuðinn í samfélaginu.