Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 20:56:03 (4229)

2001-01-23 20:56:03# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[20:56]

Steingrímur J. Sigfússon (frh.):

Herra forseti. Frv. það sem hér um ræðir er eins og allir væntanlega vita til komið vegna þess að dómur féll í Hæstarétti þar sem ríkið tapaði máli sem Öryrkjabandalagið hafði fyrir hönd hluta félagsmanna sinna höfðað eða gagnáfrýjað eftir að hafa unnið sama mál að hluta til í héraðsdómi. Niðurstaða málsins fyrir Hæstarétti var sú að fallist var á allar kröfur Öryrkjabandalagsins. Á mannamáli heitir það, herra forseti, að Öryrkjabandalagið vann málið og Hæstiréttur féllst á kröfur þess. Þarna notaði Hæstiréttur m.a. alþjóðlega mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að, samþykktir mannréttindasáttmála Evrópu, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og síðast en ekki síst féll þarna dómur með vísan til VII. kafla stjórnarskrárinnar, hins nýja mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það var hvort tveggja dæmt að ríkið hefði með ólögmætum hætti á árunum 1994--1998, sökum skorts á lagaheimild fyrir reglugerð, haft fé af öryrkjum og sömuleiðis hefði meiri hluta Alþingis orðið það á að setja lög í desember 1998 sem voru andstæð mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og ríkið tapaði einnig þeim hluta málsins þannig að tekjutengd skerðing tekjutryggingar öryrkja vegna tekna maka var dæmd ólögleg í heild sinni yfir allt þetta tímabil.

Dómur Hæstaréttar er á margan hátt framsækinn dómur því hann dæmir á grundvelli nýtilkominna ákvæða stjórnarskrárinnar. Hann er að dæma ákveðnum hópi þegna þjóðfélagsins réttindi sem oft eru nefnd félagsleg réttindi og það voru einmitt ákvæði af þeim toga sem voru ný og komu inn í stjórnarskrána 1995.

Í umræðu hér hefur það talsvert farið út um víðan völl um hvað þetta mál snerist í raun og veru. Tímans vegna, herra forseti, ætla ég ekki að fara yfir það. Það er alveg ljóst að stór hluti umræðunnar hefur geisað um annað en það sem er grundvöllur þessa máls, þá staðreynd að málið var höfðað vegna krafna tiltekins hóps öryrkja í landinu á hendur ríkisvaldinu og það vannst.

Menn hafa verið iðnir við, sérstaklega stjórnarliðar, að draga ýmsa aðra þætti inn í málið, væntanlega vegna þess að þeim hefur fallið betur að ræða um aðra hluti en efni málsins sjálfs, þá staðreynd að hér fór fram mannréttindabrot og með ólögmætum hætti var mikið fé haft af tilteknum hópi öryrkja um árabil. Þá staðreynd vilja stjórnarliðar að sjálfsögðu sem minnst ræða sem og þá staðreynd að ekki stendur til að bæta það sem af mönnum var tekið nema að hluta til og ríkið ákveður að bera þar fyrir sig fyrningu kröfunnar, reikna lágmarksvexti á hið ranglega tekna fé og þannig má segja að í öllum atriðum sem snúa að kröfugerð Öryrkjabandalagsins og gagnvart þeim málstað sem vannst fyrir dómi velji ríkisstjórnin með frv. sínu að ganga eins hart fram í samskiptum við þennan hóp og kostur er.

Það er alveg sama hvernig á málið er litið, herra forseti, viðbrögð ríkisstjórnarinnar endurspegla í einu og öllu ýtrustu hörku í garð þessa hóps. Haldið er í tekjutrygginguna sem mjög öflug rök mæla með að sé ólögleg sem slík og í heild sinni en áfram er haldið tiltekinni skerðingu upp á 7.500 kr. Sett eru afturvirk lagaákvæði til að lækka það sem menn eiga inni hjá ríkinu, um nokkra fjárhæð, tvö ár aftur í tímann. Í þriðja lagi er borið við fyrningu til að hafa af þeim hópi allar bætur sem sætti skerðingunni á árunum 1994--1997. Í fjórða lagi eru reiknaðir lágmarksvextir langt undir núgildandi markaðsvöxtum þannig að hefði þetta fólk fengið féð og ávaxtað það á markaðskjörum í bönkum eða annars staðar þessi ár, þá tapar það stórfelldum vaxtamun líka. Allt þetta liggur fyrir. Allt eru þetta staðreyndir. Varla koma stjórnarliðar upp og reyna að halda öðru fram eða hvað? Þetta liggur í forsendum málsins sem allir geta lesið.

[21:00]

Niðurstaðan er sú, herra forseti --- og það mega hæstv. ráðherrar gjarnan heyra sem eru önnum kafnir á kærleiksríkum einkafundi eins og ég sé --- að þegar farið er yfir þetta, þá er sýnd ýtrasta harka í samskiptum við þennan hóp frá upphafi til enda málsins og kórónan á smíðaverkið er frv. ríkisstjórnarinnar sem hefur þvælt málinu fyrir dómstólunum, tafið tímann, ber svo við fyrningu og gengur fram af ýtrustu hörku í lokin í stað þess að játa brot sitt, biðjast afsökunar, játa það að mönnum hefur orðið stórkostlega á, að menn eru sekir um brot á stjórnarskránni og menn eru sekir um að hafa ranglega og með ólögmætum hætti haft þetta fé af þeim hópi landsmanna sem einna síst skyldi. Nei, þá er framkoman þessi, herra forseti.

Fyrir þá sem hafa gert mikið úr því að það séu aðrir jafnvel enn verr staddir í þjóðfélaginu svo ég tali ekki um ræðuhöld t.d. hugmyndafræðings Sjálfstfl. í velferðarmálum, hv. þm. Péturs Blöndals, sem hefur stigið fram á sviðið sem helsti hugmyndafræðingur og talsmaður Sjálfstfl. í velferðarmálum. Ég óska flokknum svo sannarlega til hamingju með að hafa eignast slíkan talsmann. Þar hefur meira að segja komið fram að það hefur verið sérstaklega ámælisvert að þetta fé ætti að ganga til hátekjufjölskyldna í landinu. Stundum hefur hv. þm. meira að segja sagt hátekjufólks en á þá við í fleirtölu. Hann á ekki við einstaklingana sem voru að sæta því að fara niður í 18 þús. kr. á þessum tíma.

Herra forseti. Ég ætla undir lok ræðu minnar að rifja aðeins upp um hvað þetta mál snerist af hálfu Öryrkjabandalagsins og lögmanns þess. Hvað var það sem vannst í Hæstarétti? Það er farið ágætlega yfir það í grein sem lögmaður Öryrkjabandalagsins, Ragnar Aðalsteinsson, skrifaði og fékk birta í Morgunblaðinu laugardaginn 13. janúar sl. Ég hef ekki séð það gert annars staðar betur. Þar segir m.a., eftir að búið er að vitna í ákvæði mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1948 sem er eitt af fyrstu grundvallarplöggum um mannréttindi sem hér er vísað til, með leyfi forseta:

,,Að áliti Öryrkjabandalags Íslands er óheimilt að mismuna fólki með þessum hætti vegna hjúskaparstöðu og einnig vegna kynferðis. Hafði bandalagið m.a. í huga þá breytingu sem gerð var á stjórnarskránni 1995 er afnumin voru ákvæði í stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands frá 1874 um það skilyrði um styrk úr opinberum sjóði, að sá sé ekki ,,skylduómagi annars manns`` og í stjórnarskrá konungsríkisins Íslands frá 1920 um það skilyrði að öðrum sé ,,ekki skylt að framfæra hann``.

Þessi gömlu ákvæði fátækar- og ölmusuhjálparinnar felldum við niður með nýja mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995.

Með breytingunum 1995 var horfið gagngert frá ómagaframfærslu bændasamfélagsins með allri sinni alkunnu niðurlægingu sem almannatryggingalögum okkar var í upphafi ætlað að útrýma. Enn fremur leit bandalagið til nýs jafnréttisákvæðis í stjórnarskrá, sem bannar mismunun.

Öryrkjabandalagið taldi að í stjórnarskrá (76. gr.) væri hverjum öryrkja tryggður réttur til lágmarksframfærslu án nokkurrar mismununar, svo sem vegna hjúskaparstöðu (65. gr.), en Öryrkjabandalagið taldi og rétt að túlka bæri greind ákvæði í ljósi og til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands um mannréttindi. Öryrkjabandalagið gerði sér grein fyrir að það fyrirkomulag sem talið var í gildi væri fjölskyldufjandsamlegt, það vægi að virðingu öryrkjanna og það væri andstætt rétti hvers manns til frelsis. Að auki væri það kvenfjandsamlegt þar sem fyrirkomulagið bitnaði miklu oftar á konum en körlum. Að jafnaði þurfa öryrkjar meiri aðstoð á heimili en þeir sem ófatlaðir eru og þeir geta að jafnaði lagt minna til heimilisins með störfum sínum en hinir ófötluðu. Því væri mikilvægt að koma málum þannig fyrir að sá sem stofnaði til sambúðar með öryrkja þyrfti ekki að auka tekjuöflun sína að miklum mun þar sem ábyrgð hans á heimilinu væri mikil. Þess utan var Öryrkjabandalaginu ljóst að öryrkjar hafa margvíslegan kostnað sem aðrir búa ekki við og því þurfa þeir hærri tekjur en aðrir. Með því að lækka tekjur þeirra allt niður í kr. 18.424 væri ljóst að makinn yrði að auka vinnu sína utan heimilis og það bitnaði á þörf öryrkjans fyrir umönnun og virðingu hans og frelsi. Líkurnar á upplausn fjölskyldunnar ykjust í samræmi við það.

Markmiðið með málsókn Öryrkjabandalagsins var að vinna gegn þessu úrelta og mannfjandsamlega fyrirkomulagi og fá viðurkenningu á því að nægilegt tillit væri tekið til hagsbóta af sambúð tveggja einstaklinga með fyrrnefndri skerðingu [heimilisuppbótar] um kr. 22.566 sem jafngildir 30,67% skerðingu tekna. Leit Öryrkjabandalagið svo á að svonefndur grunnlífeyrir og tekjutrygging samtals kr. 50.990 væri sá lífeyrir sem miða bæri við sem algert lágmark.

Af hálfu Öryrkjabandalagsins var á það lögð áhersla að sá hópur öryrkja sem fyrirkomulagið næði til væri tiltölulega lítill, að þeim hópi væri mismunað og sú mismunun ætti sér enga réttlætingu, heldur væri hún þvert á móti óréttlát.``

Ég sé að hæstv. utanrrh. gengur út undir lestrinum. Honum líkar e.t.v. ekki vel textinn.

,,Hæstiréttur féllst á allar kröfur og röksemdir Öryrkjabandalagsins og lýsti fyrirkomulagið andstætt fyrrnefndum ákvæðum stjórnarskrárinnar og því óheimilt allt frá 1. janúar 1994 eða í sjö ár.``

Á mannamáli þýðir þetta, herra forseti, að Öryrkjabandalagið vann málið algerlega og það var þessi röksemdafærsla sem var lögð til grundvallar. Kemur það ekki við hjarta eins einasta manns hér inni sem ætlar sér að greiða frv. ríkisstjórnarinnar atkvæði að hlusta á þær röksemdir sem hér voru svo vel fram settar af hálfu lögmanns Öryrkjabandalagsins?

Herra forseti. Hvað stendur um þessa hluti í stjórnarskránni, og hvar stendur það, sem ég heyrði mann kalla í sjónvarpsfréttum helgasta plagg þjóðarinnar? Hvar eru þessi ákvæði í stjórnarskránni? Þau eru í VII. kafla stjórnarskrárinnar um mannréttindi, helgustu réttindi okkar og þau sem sterkasta stöðu hafa samkvæmt okkar stjórnskipun og þarf tvenn þing og alþingiskosningar í milli til að breyta, guði sé lof. Og innan um hvaða ákvæði eru þessi mannréttindaákvæði viðkomandi greina, 65. gr. og 76. gr.? Ég ætla að leyfa mér, herra forseti --- það þykir kannski óvirðing að rifja pínulítið upp úr stjórnarskránni fyrir hv. þingmönnum, en ég ætla að gera það samt. Kannski hafa þeir gleymt því innan um hvaða helgu réttindi þessi mannréttindaákvæði eru og jafnrétthá því stjórnarskráin gerir ekki greinarmun á þeim réttindum sem hún færir þegnum sínum þó að einstöku þingmenn séu að reyna að túlka þau misrétthá. Stjórnarskráin og þau orð sem þar standa hafa sjálfstætt gildi. Þau tala sjálf og enginn nema þá dómstólarnir getur túlkað þau.

65. gr. stjórnarskrárinnar hefst á orðunum:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, ...`` o.s.frv.

66. gr. stjórnarskrárinnar í VII. kaflanum um mannréttindi hefst á orðunum:

,,Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.``

Og næsta málsgrein:

,,Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.``

,,67. gr. Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.``

Þriðja málsgrein:

,,Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara.``

,,68. gr. Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð ...``

,,69. gr. Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað ...`` o.s.frv.

,,70. gr. Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma ...`` o.s.frv.

(Forseti (HBl): Hv. þm. Forseti vill minna á að eigi má nema með leyfi forseta lesa upp prentað mál.)

Ég var búinn að biðjast leyfis áður, herra forseti, um að lesa upp prentaðan texta, en ég get gert það aftur. Má þingmaðurinn lesa upp úr stjórnarskránni, með leyfi forseta?

(Forseti (HBl): Forseti veit nú satt að segja ekki hvort þessu var beint til hans eða þess fólks sem er hér á þingpöllum. En ef þessu var beint til forseta, þá getur hann upplýst hv. þm. um að venja er að leyfa það.)

Það hefur hentað forseta að rjúfa ræðu mína akkúrat á þessum tíma einu sinni sem oftar.

,,71. gr. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.``

Ég vek athygli á því að hæstv. forsrh. gengur úr salnum.

,,72. gr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína ...``

,,73. gr. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.``

,,74. gr. Rétt eiga menn á að stofna félög ...``

,,75. gr. Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.``

Og svo kemur 76. gr. og hún er svona:

,,Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.

Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.``

Herra forseti. Af hverju er ég að rifja þetta upp? Af hverju er ég að lesa í hvaða samhengi stjórnarskrá lýðveldisins, þessi félagslegu mannréttindi sem öryrkjum voru dæmd, eru? Það er vegna þess að hérna í salnum eru menn sem gera sumum þessara réttinda hátt undir höfði. Það er einn og einn maður sem man eftir friðhelgi eignarréttarins þegar það á við og öðrum slíkum hlutum, en nákvæmlega jafnrétthá og á sama stað í stjórnarskrá lýðveldisins eru þau mannréttindi öryrkja sem þetta mál snýst um. Þau hafa sömu stöðu og tjáningarfrelsið og trúfrelsið og friðhelgi eignarréttarins og enn aðrar helgustu grundvallarreglur réttarríkisins. Það voru tímamótin 1995 og því ættu menn ekki að gleyma og muna svo um hvað þetta mál snýst og hvað það snýst ekki um.

Herra forseti. Að lokum gerðust þau óvæntu tíðindi að hér voru lesin upp bréf sem hljóta að teljast næsta mikil tíðindi því að elstu menn rekur engin minni til slíkra bréfaskrifta áður, að löggjafarvaldið leggist í bréfaskriftir til dómsvaldsins og þar á ofan Hæstaréttar og fari fram á að Hæstiréttur túlki og útskýri hvað fyrir honum vaki í dómum. Einhverja rak minni til þess að einu sinni áður hefði þetta verið reynt og þá hefði Hæstiréttur svarað á þá leið að það væri ekki hans hlutverk að túlka út á við sína dóma, það gerði hann í sinni reifun.

Eftir að hafa haft, herra forseti, eins og hér er að störfunum staðið af hálfu virðulegs forseta sem hefur stjórnað hér án umtalsverðs samráðs við stjórnarandstöðuna svo ákaflega vægt sé til orða tekið, og ég vona að ég verði ekki áminntur eða talinn taka of djúpt í árinni yfir því að orða þetta svo, þá fengum við 15 mínútur áðan í hliðarsal til að athuga þetta bréf og það er nokkuð mikill tími miðað við þann tíma sem Hæstiréttur fékk til að svara bréfinu því allar bréfaskriftirnar eru dagsettar í dag. Það er okkar niðurstaða, hafandi skoðað þessi bréf og orðalag þeirra, að þau hafi enga þýðingu fyrir afgreiðslu þessa máls, enga. Þessi bréfaskipti eru fyrst og fremst söguleg vegna þess að þau fóru fram og það munu væntanlega eiga eftir að þykja tíðindi í stjórnskipun landsins og þó víðar væri leitað, grunar mig, að þessi háttur sé upp tekinn. En kannski er merkilegast af öllu að forseti réttarins, sem reyndar var í minni hlutanum í þessu máli, skuli treysta sér til svara með jafnstuttan tíma til athugunar málsins.

Við teljum þessar bréfaskriftir, herra forseti, fyrst og fremst til marks um þá augljósu taugaveiklun sem slegið hefur út hjá stjórnarliðinu á síðustu klukkustundum umræðna um þetta mál. Það er augljóst af mörgum atburðum sem hér hafa orðið í dag í fundahaldinu, og þarf ekki að vísa til þess hvað við er átt, og framgöngu allri að ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér er farinn á taugum í málinu og grípur til þess sögulega úrræðis að reyna að fá Hæstarétt til að túlka dóm sinn. (Gripið fram í: Fá vottorð.) Fá vottorð frá Hæstarétti um það að dómurinn hafi þýtt eitt en ekki annað (Utanrrh.: Eigum við ekki að kalla á lækni?) eftir að búið er að --- það er nú spurning hver hefur mesta þörf fyrir hann, hæstv. utanrrh.

(Forseti (HBl): Forseti biður afsökunar á því að trufla ræðu hv. þm., en forseti heyrði að það var verið að grípa fram í uppi á þingpöllum.)

Nei, það var hæstv. utanrrh.

(Forseti (HBl): Forseti heyrði með sínu vinstra eyra, það er líka gott, og vill biðja menn að hafa helgi þingsins í huga.)

Ég fagna hins vegar sérstaklega frammíkalli utanrrh. Honum er heimilt að kalla fram í hjá mér hvenær sem er. Það lífgar upp á orðaskiptin og ég sé að hann er að ná þó þeirri heilsu að hann getur komið upp einu og einu frammíkalli. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Það þarf svo sem ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það er ekki ástæða til að hafa um þessar dæmalausu bréfaskriftir fleiri orð en þau að þau eru algerlega merkingarlaus gagnvart afgreiðslu þessa máls, breyta engu. Enda segir Hæstiréttur ekki neitt um það frv. sem hér er til umfjöllunar og skárra væri það nú. Þá fyrst væri skörin farin að færast upp í bekkinn ef hægt væri að panta frá Hæstarétti, kannski bara með símskeyti eða tölvupósti, álit á einstökum þingmálum sem hér lægju fyrir. Auðvitað gengur það ekki þannig fyrir sig og Hæstiréttur segir í sjálfu sér heldur ekki neitt um þann dóm sem hann felldi. Það er alveg augljóst mál þegar orðalag þessara bréfa er betur skoðað þannig að hvarfli það að stjórnarliðum í taugaveiklun sinni að ætla að fara að gera þetta að einhverju máli hér þá spái ég því að það verði þeim sjálfum mest til háðungar og auðvitað Hæstarétti til nokkurrar skapraunar væntanlega því að hann verður þá ekki á vettvangi til að svara fyrir sig.