Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 21:23:26 (4233)

2001-01-23 21:23:26# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[21:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Er hv. þm. nokkuð að gleyma hver er gerandinn í þessu máli? Er stjórnarandstaðan gerandinn í málinu? Var það stjórnarandstaðan sem beitti ólögmætri tekjuskerðingu og var dæmd af Hæstarétti fyrir lögleysu og mannréttindabrot? Nei. Það var ríkisstjórnin. Það voru stjórnvöld og meiri hlutinn sem hv. þm. styður. Í desember 1998 var hv. þm. og aðrir sem stóðu þá að afgreiðslu frv. ítrekað varaðir við því að í þeirri lagasetningu gæti falist stjórnarskrárbrot. Menn létu sig hafa það. Og hver var niðurstaðan? Menn voru dæmdir fyrir stjórnarskrárbrot. Við erum að vara menn við því hér aftur og það er orðinn stigsmunur en ekki eðlis á því hvort það er kallað gáleysi eða ásetningur þegar jafnítarlega og rökstutt hefur verið varað við því (Gripið fram í.) að um stjórnarskrárbrot sé væntanlega að ræða.

Af því að hv. þm. er með endemum svo ósvífinn að leyfa sér að segja að Hæstiréttur stimpli frv. ríkisstjórnarinnar, þá verður það a.m.k. að fara inn í þingtíðindin fyrir komandi kynslóðir þannig að þær geti lesið sig til um það að frv. ríkisstjórnarinnar er ekki nefnt á nafn í svari forseta Hæstaréttar, ekki nefnt á nafn. Það er dómurinn sem forsetinn er að tjá sig um og í reynd segir hann að dómurinn feli ekki í sér afstöðu til frekari álitaefna en hér um ræðir. Í reynd vísar forseti Hæstaréttar því frá, ef á að reyna að fá botn í það sem þarna stendur í örfáum línum, að tjá sig um frekari ágreiningsefni en þau sem dómurinn kvað upp úr um þannig að ég býst við að lögmenn eigi eftir að skemmta sér mikið við það að reyna að ráða í þessar rúnir og það er fjarri öllu lagi að hægt sé að halda því fram að með þessum bréfaskriftum fái málflutningur ríkisstjórnarinnar á nokkurn hátt skjól af þessu merka bréfi forseta Hæstaréttar.