Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 21:35:20 (4236)

2001-01-23 21:35:20# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KolH
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[21:35]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. 19. desember sl. var kveðinn upp dómur í því máli sem hér hefur nú verið til umfjöllunar á Alþingi í fjóra daga og reyndar lengur. Síðan 15. janúar hafa þingmenn tekist á um þetta mál en þegar dómurinn var kveðinn upp var hæstv. forsrh. staddur ásamt hæstv. utanrrh. og hæstv. heilbrrh. norður á Akureyri að horfa á Kára Stefánsson skrifa undir samning við heilbrigðisstofnanir um að safna heilbrigðisupplýsingum fyrir sig í gagnagrunninn sinn.

Daginn eftir að dómurinn var kveðinn upp kom eftirfarandi fyrirsögn í Morgunblaðinu sem þjóðin las:

,,Hæstiréttur dæmir Öryrkjabandalaginu í vil í máli gegn Tryggingastofnun. Óheimilt að tengja tekjutryggingu við tekjur maka.``

Morgunblaðið þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um hvernig túlka bæri dóminn. Í sama streng tóku allir þeir sem tjáðu sig um dóminn í byrjun. Meira að segja hæstv. heilbrrh. gaf þá yfirlýsingu að hún deildi ekki við Hæstarétt. Athyglisverð voru ummæli Jakobs Möllers hæstaréttarlögmanns, fyrrv. formanns Lögmannafélags Íslands, sem sagði eftirfarandi í Morgunblaðinu 21. desember, með leyfi forseta:

,,Síðan verður að segjast eins og er að þeir sem hafa haldið fram sjónarmiðum um jákvæðar skyldur ríkisvaldsins hvað varðar félagsleg mannréttindi hafa unnið mikinn sigur í Hæstarétti í fyrradag.``

Fyrsti maðurinn, herra forseti, að því ég best man, til að draga í efa niðurstöðu dómsins í fjölmiðlum var hæstaréttarlögmaðurinn Jón Steinar Gunnlaugsson, reyndar eftir að hafa óskað starfsbróður sínum, hæstaréttarlögmanninum Ragnari Aðalsteinssyni sem sótti málið fyrir hönd Öryrkjabandalags Íslands, til hamingju með sigurinn.

Jón Steinar Gunnlaugsson vakti upp efann og tók þar með á sínar herðar það hlutverk að deila við Hæstarétt, m.a. með því að halda því fram að rétturinn hefði farið út fyrir valdsvið sitt. Jón Steinar Gunnlaugsson var, eins og öllum er kunnugt, skömmu síðar ráðinn til að stýra vörn ríkisstjórnarinnar í málinu. Ég segi vörn vegna þess að eftir að forsrh. hóf að tjá sig um dóminn virtist hann líta svo á að dómurinn væri atlaga að stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum þeirra sem þurfa að reiða sig á bætur frá almannatryggingum til að lifa af í sjálfu góðærinu. Þar með var ljóst að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ætlaði í stríð við Hæstarétt og í stríð við þjóðina. Herra forseti. Þetta stríð hefur nú staðið í rúman mánuð og er sannarlega ekki búið enn.

Úr þessum ræðustól hafa margar ræður verið haldnar um málið og eflaust á eftir að vitna til einhverra þeirra um ókomna tíma. Sú makalausasta af þeim öllum er að öllum líkindum ræða hæstv. forsrh. sem hann hélt á fyrsta degi umræðunnar. Sú ræða hafði þau áhrif á þá sem hér stendur að hún fann til fullkomins vanmáttar gagnvart óbilgirninni og kergjunni sem einkenndi málflutning hæstv. forsrh. þegar hann hvæsti hér yfir salinn á milli samanbitinna tannanna.

Að sjálfsögðu hlítum við dómi Hæstaréttar, segir ríkisstjórnin, og þingmenn stjórnarflokkanna segja það líka. Við gerum það bara ekki á þann hátt sem Hæstiréttur hefur lagt til, svo að vitnað sé í ræðustíl hæstv. forsrh. Orðin ,,án þann hátt`` eru hálmstrá ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Hún og þingmenn stjórnarflokkanna hafa lagt á sig hundrað fjallabaksleiðir til að sannfæra sig um að orðin ,,á þann hátt`` í forsendum dómsins þýði eitthvað annað en það sem dómurinn kveður á um.

Ríkisstjórnin og þingmenn stjórnarflokkanna hafa hundskammað stjórnarandstöðuna í þessari umræðu fyrir að vilja ekki líta málin sömu augum og þeir, vilja ekki skilja dóminn sama skilningi og þeir. Hv. þm. Sjálfstfl. og Framsfl. sem árum saman hafa staðið gegn því að kjör öryrkja og ellilífeyrisþega yrðu bætt hafa skyndilega lokið upp gáttum samúðarinnar og þykjast þess nú umkomnir að skamma stjórnarandstöðuflokkana fyrir að gleyma þeim sem minnst hafa.

Í stjórnarliðinu hefur maður gengið undir manns hönd við að gera lítið úr þeim réttarbótum sem öryrkjar í hjúskap eiga rétt á samkvæmt dómi Hæstaréttar, a.m.k. eins og stjórnarandstaðan og þjóðin skilja hann. Menn hafa haldið því fram að réttara væri að leiðrétta eða bæta kjör þeirra sem minnst hafa fremur en að berjast af svo mikilli hörku fyrir afnámi tekjutengingar við tekjur maka. Guð láti gott á vita, herra forseti. Það er aldrei of seint að sveigja frá villu síns vegar, sjái maður á annað borð ljósið. En, herra forseti, ég er mjög efins um að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi séð ljósið. Þó skyldi maður aldrei segja aldrei.

Mér finnst þær skammir sem stjórnarandstöðuþingmenn hafa þurft að þola úr munni stjórnarþingmanna ekki vera maklegar eftir öll þau mál sem hér hafa ítrekað verið lögð fram af þingmönnum stjórnarandstöðunnar til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í samfélaginu, tillögur á þáltill. ofan og frv. sem stjórnarþingmenn hafa fellt, sem þessi stjórnarmeirihluti hefur fellt hátt á sjötta ár. Svo skamma þeir stjórnarandstöðuna, stjórnarliðarnir sem standa að baki ríkisstjórn sem skipuð er dæmdum mönnum, mönnum sem dæmdir hafa verið á grundvelli stjórnarskrár íslenska lýðveldisins.

Herra forseti. Ég get ekki annað en viðurkennt vanmátt minn gagnvart slíkum óforskömmugheitum og beygt mig undir orð Þorgeirs Þorgeirsonar rithöfundar og þjóðþekkts konstitúsjónalista eins og hann kýs að kalla sig, en hann skrifar pistil á vefsetri sínu leshúsi þann 4. október sl. í tilefni af stefnuræðu forsrh. og umræðu um hana. Pistill Þorgeirs ber heitið Hugleiðing um orðafar, skilaboð til alþingismanna og ráðherra, og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Heiðruðu valdamenn: Í gærkvöldi voru umræður á Alþingi um svokallaða stefnuræðu forsætisráðherrans.

Allir ræðuskörungarnir þurftu að minnast á kjör okkar gamla fólksins og öryrkjanna. Þá voru notuð skrauthvörf eins og ,,lítilmagnar`` og ,,þeir sem minnst mega sín``.

Nú er það svo að hvorki öryrkjar né gamalmenni hafa sjálf neitt um kjör sín að segja. Við erum án samningsréttar um peningalega hagi okkar. Eins og hverjir aðrir paríar. Það eruð þið löggjafar- og framkvæmdarvaldsmenn sem ákvarðið lífsviðurværi okkar í bráð og lengd. Kjör ykkar eru ákvörðuð af Kjaradómi sem þiggur laun sín frá ykkur sjálfum. Kjör okkar eru síðan komin undir mætti og vilja ykkar en ekki krafti okkar sjálfra.

Verðskuldi einhverjir lítilmagnatitilinn í þessu samhengi eruð það þið. Það eruð þið, sem megið ykkar ekki meir en svo, að lífskjör okkar margra eru undir hungurmörkum. Það eruð þið, sem beitið stjórnarskrárbrotum til að hlunnfara okkur ef þið eruð í stjórn. Það eruð þið, sem látið ykkur nægja krókódílstár og tilfinningavellu ef þið eruð í stjórnarandstöðu. Lítilmagnar sem þið eruð í þessum málum.

Það er ömurlegt lánleysi okkar gamla fólksins og öryrkjanna að hafa ykkur í forsvari. Eða er það kannski lánleysi þjóðarinnar í heild að hafa trúað ykkur lítilmögnunum fyrir öllu þessu valdi?``

Herra forseti. Þetta voru orð Þorgeirs Þorgeirsonar rithöfundar og ég beygi mig undir þau. Ég skil tilfinningarnar sem að baki liggja og ég deili þeim með rithöfundinum. Ég minni á það, herra forseti, um leið og ég geri þessi orð Þorgeirs Þorgeirsonar að lokaorðum ræðu minnar, að að öllum líkindum eru 80% þjóðarinnar ósátt við framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessu máli.