Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 22:09:54 (4242)

2001-01-23 22:09:54# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[22:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. verður tvísaga. Hann kom hér í seinna andsvari sínu og sagði að auðvitað væri þetta sent með stuðningi meiri hluta Hæstaréttar. Í fyrra andsvari sínu sagði hæstv. forsrh. að hann vissi ekkert um hvort þetta væri sent með vitund eða vilja dómsins. (Forsrh.: Ég sagði að ...) Ég held hins vegar, herra forseti, að ef stjórnarliðið og hæstv. forsrh. ætla að nota þetta plagg sem þýðingarmikið gagn í umræðunni, þá þurfi auðvitað að liggja ljóst fyrir hvort þetta bréf er sent með vitund Hæstaréttar alls. Ef það er ekki þá er alveg ljóst að bréfið skiptir engu máli.

Ég vil ítreka það, herra forseti, og það er ég viss um að lagaspekingar úr háskólanum hljóta að staðfesta, að það er auðvitað viðurhlutamikið þegar dómstólarnir, fyrir atbeina forseta Hæstaréttar, hlutast með þessum hætti til um verk löggjafarvaldsins í tilteknu máli sem allt bendir til að komi aftur inn á borð dómstólanna innan skamms tíma. Það hlýtur að vera mál sem menn þurfa að skoða frekar og mig grunar að þetta bréf eigi eftir að draga langan slóða.