Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 22:11:27 (4243)

2001-01-23 22:11:27# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[22:11]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Allt orkar tvímælis þá gert er og sagt er. Það sama á við um bætur í hvaða formi sem þær eru. Þær geta orkað tvímælis þó að því miður sé reyndin oft sú að bæturnar verði minni en meiri í flestum tilvikum í bótakerfi okkar.

Ég vil byrja á því, hæstv. forseti, að þakka forsætisnefnd Alþingis fyrir það frumkvæði að leita álits, túlkunar Hæstaréttar Íslands á deilumáli sem hér hefur staðið um lögfræðilega túlkun dómsins, á deilumál sem hefur staðið hér dögum saman og hefur allt snúist um það númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm, að ekki mætti skerða tekjur með þeim hætti sem gert er í því máli sem við erum að vinna með.

Ég mun síðar í máli mínu koma að þeim bréfum sem hafa gengið í dag milli Alþingis og Hæstaréttar og m.a. vekja athygli á því að svar forseta Hæstaréttar gengur lengra en spurt er um í bréfi forsætisnefndar Alþingis.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill beina eindregnum tilmælum til þingmanna og hæstv. ráðherra að gefa hljóð í salnum. Það er allt of mikill kliður í salnum.)

Það er líka ástæða til þess að velta upp spurningunni: Ef hæstv. forseti Alþingis svarar bréfi fyrir hönd Alþingis, fyrir hvern er hann að svara bréfinu? Hann er að svara fyrir hönd Alþingis Íslendinga. Hann er ekki að svara fyrir eigin persónu eða hluta þingmanna, hann svarar fyrir hönd Alþingis. Nákvæmlega sama á við um forseta Hæstaréttar sem svarar bréfi sem berst til réttarins. Forseti Hæstaréttar er talsmaður Hæstaréttar Íslands í heild. Það er ótrúlegt að svona málfundaæfingar séu teknar upp á Alþingi Íslendinga en kemur þó ekki að óvörum vegna þess að umræður stjórnarandstöðunnar, umræður Samfylkingarinnar, vinstri grænna og frjálslyndra --- ég var að velta því fyrir mér, herra forseti, hvort ég ætti að segja björgunarbáts Sverris Hermannssonar en auðvitað er réttara að segja frjálslyndra --- hafa byggst á því ... (SJS: Er virðulegt að ávarpa þingmann með þessum hætti?) Ja, ég veit ekki betur en að hv. þm. hafi komið Sverri Hermannssyni inn á þing. (SJS: Ég held nú að þú ættir að hætta þessu.)

Ég bíð bara þangað til hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lokið máli sínu og þá held ég áfram. [Kliður á þingpöllum.]

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill beina þeim tilmælum til hv. þm. en einnig gesta okkar að hafa hljóð í salnum. Ræðumanni skal sýna þá virðingu að hann fái að flytja mál sitt. Við hlustum öll.)

[22:15]

Stjórnarandstaðan hefur túlkað dóm Hæstaréttar eins og málfundaæfingu en ekki dóm Hæstaréttar Íslands. Stjórnarandstaðan hefur látið hjá líða í allri umræðunni að skilgreina orðalag dómsins eins og vera ber. Hún hefur til að mynda lagt höfuðkapp á að sleppa orðalaginu að ekki megi skerða tekjutryggingar eða tekjur í tryggingakerfi ,,á þann hátt`` sem gert hafi verið. Þetta gefur ákveðna vísbendingu um heimild til lagasetningar, svo sem forseti Hæstaréttar hefur staðfest með bréfi sínu í dag til forsn. Alþingis. Margra daga deilumáli og málflutningi stjórnarandstöðunnar er því í rauninni lokið með þessari niðurstöðu og ætti hv. stjórnarandstaða að fagna því að skorið er á skorinorðan hátt úr um deiluatriði sem hér hefur verið fjallað um.

Ég ætla að rekja nokkur atriði í gangi þessa máls, hvernig menn hafa þyrlað upp moldviðri, þyrlað upp misskilningi, farið með ósannindi og skapað tortryggni og gefið falsvonir.

Strax þegar dómurinn lá fyrir byrjuðu allmargir fjölmiðlar að túlka dóminn með það að markmiði að selja fréttir í stað þess að segja fréttir, ekki til að túlka það sem er rétt og sanngjarnt og eðlilegt heldur það sem skapaði slúður, óvissu og óöryggi í alla staði, ekki síst hjá þeim sem áttu um sárt að binda í því máli sem við höfum orðið að fjalla um á löggjafarþingi þjóðarinnar.

Stjórnarandstaðan féll í þá gryfju að taka undir þær slúðurfréttir sem óðu fram í fjölmiðlum án þess að spilin væru lögð á borðið með eðlilegum skýringum. --- Ég bíð, herra forseti, eftir að fundi ljúki hjá þingmönnum.

(Forseti (ÁSJ): Gerðu svo vel.)

(Gripið fram í: Þetta er áhrifamikill kafli hjá þér.)

Það eru ekki bara stjórnarandstöðuþingmenn sem féllu í þá gildru að ráðast fram á völlinn með blaðri og fullyrðingum út og suður án þess að hafa kynnt sér málavexti því ekki fór á milli mála að margir tóku til máls án þess að hafa kynnt sér málavexti. Það voru líka ákveðin félagasamtök í landinu sem féllu í sömu gildru því að ef maður tekur eðlilega málsmeðferð í slíkum deilumálum, ef maður tekur það sem fólk hlýtur að miða út frá almennu brjóstviti og sanngirni, er þá eðlilegt þegar upp kemur deilumál sem þetta í kjölfar dóms Hæstaréttar að fulltrúar opinberra starfsmanna, að fulltrúar starfsgreinasambanda, að fulltrúar stjórnmálaflokka komi til sérstakra funda á skrifstofum Öryrkjabandalagsins til að leggja á ráðin og smíða efni í stakk sem var ekki fyrir hendi? Ég ber fulla virðingu fyrir Öryrkjabandalaginu og þeim verkefnum sem það þarf að vinna að. Ég hef lengi fylgst með því og stundum fengið tækifæri til að koma að málum þar og alltaf verið boðinn og búinn þegar eftir því hefur verið leitað eins og líklega flestir sem eru kallaðir til í þeim efnum sem öðrum þar sem um er að ræða jafningja í samfélaginu. Þetta er óeðlilegt. Það er af þessu einföld en sterk pólitísk lykt og þessi verkefni eiga að vera hafin yfir pólitíska teygju og pólitískan fyrirslátt eins og hefur verið tíðkaður á hv. Alþingi undanfarna daga.

Í málflutningi stjórnarandstæðinga hefur fyrst og fremst verið miðað við mygling. Ótrúlega mikill myglingur hefur verið í orðagjálfri stjórnarandstöðunnar í öllu þessu máli. (Gripið fram í.) Myglingur er orðtak sem er gjarnan notað í Skaftafellssýslum um snjódrífu og fjúk þar sem skyggnið er lítið og mönnum verður villugjarnt. Það hefur stjórnarandstaðan kappkostað og ekki síst formenn vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Ekki síst þeir. (SJS: Hundslappadrífa er það kallað fyrir norðan.) Hundslappadrífa. Það er eitt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á kannski sameiginlegt með íslenska hundinum sem er dásamleg skepna eins og hæstv. landbrh. hefur sagt. En hann geltir og er þess vegna ekki brúklegur til hluta. Það er nákvæmlega það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er alltaf að gera á Alþingi. Hann er gjammandi fram í sýknt og heilagt, vælandi yfir því að menn séu ekki viðstaddir og svo þegar á að sækja þá, þá vælir hann líka. Þetta er einstakur stíll hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem er sífellt að kvarta yfir félögum sínum að þeir séu ekki að vinna vinnuna sína en hann sé að sjálfsögðu að gera það. (SJS: Um hvað er ræðan?) Nú heldur hv. þm. áfram að gelta eins og íslenski hundurinn. (SJS: Hvaða mál er á dagskrá?)

Myglingurinn er vondur í fararnesti fyrir menn sem ætla að flytja mál af öryggi og sanngirni. Túlkun lögfræðinga, sem er nú auðveld eftir að Hæstiréttur hefur greitt úr aðal\-álitamálinu, hefur verið til útúrsnúnings út og suður og ýmist notið eftir því sem hentaði stjórnarandstæðingum eða ekki. Ekkert jafnvægi er í þeim málflutningi. En því miður hefur líka komið víðar fram ójafnvægi í þessu máli. Til að mynda voru leið mistök að mínu mati hjá forustumönnum Öryrkjabandalagsins að kalla alla öryrkja til Tryggingastofnunar og heimta greiðslurnar, sem var búið að skerða hjá þeim, vegna þess að þetta voru falsvonir. Því getur enginn á móti mælt og allir vita að dómur Hæstaréttar fjallaði í raun aðeins um hluta öryrkja. Kannski fjallaði dómurinn um um það bil 10% af öryrkjum, hann fjallaði því miður um þá sem hafa meiri tekjur en flestir aðrir úr þeim stóra hópi.

Hvaða glóra var í því að senda bótaþega á vettvang þar sem þeir áttu ekki von á neinu? Hvaða vinnubrögð eru það hjá forustumönnum í alvörufélagssamtökum sem skipta miklu máli í þjóðfélagi okkar? Þetta er ekki bara dónaskapur, þetta er trúnaðarbrestur. Ef maður segir það nákvæmlega eins og maður hlýtur að meina, a.m.k. ég fyrir hönd þeirra mörgu öryrkja sem ég þekki, virði og þykir vænt um. Ég þoli ekki svona vinnubrögð. Það er best að segja hlutina eins og þeir eru og vera ekkert að pukra með það eða gefa einhverjar falsvonir, síst af öllu í ljósi pólitískra þreifinga.

Samfylkingin og vinstri grænir túlkuðu dóm Hæstaréttar sem ákvörðun um skipbrot jafnaðarmennskunnar, að ekki væri heimilt að tekjutengja bætur. Fyrirkomulag sem hefur tíðkast alls staðar Norðurlöndum um áratuga skeið, í flestum löndum Evrópu og öllum þeim löndum sem við erum að miða okkur við í sterku velferðarkerfi. Þeir túlkuðu það þannig en nú hefur Hæstiréttur sjálfur tekið af skarið og þökk sé fyrirhyggju forsn. Alþingis að koma í veg fyrir að hægt verði lengur að etja saman Hæstarétti Íslands og Alþingi. Það hefur Hæstiréttur gert með bréfi í dag.

Það er ekkert skrýtið þó að hnussi, púi og fussi í hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Búkhljóð eru styrkur hans en fegurri mættu þau vera. (SJS: Þetta er tímamótaræða.) Jafnvel þó ekki væri nema í litlu lagi eins og Þykkvabæjarrokki.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill enn og aftur áminna hv. þm. en ekki síður okkar ágætu gesti á pöllunum um að hafa algert hljóð þegar ræðumenn flytja mál sitt.)

(Gripið fram í: Á þingmaðurinn að segja ... )

Herra forseti. Ég virði það alveg við hv. stjórnarandstöðu að henni þykir sárt og illt að sitja undir þeirri framsetningu sem hér er enda þolir hún hana illa og klæjar mikið. (SJS: Þú ert svo öflugur.) Stjórnarandstaðan þolir nefnilega illa hispursleysi og síst af öllu blákaldan sannleikann eins og verið sé að spúla dekkið á vertíðarbát en það er verið að gera núna í þessum málum. Herra forseti. Ég reikna með því að það verði bætt við ræðutíma minn því að það eru svo margir þingmenn búnir að grípa inn í ræðu mína.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill benda hv. þm. á að hér er ótakmarkaður ræðutími.)

Já, en eilífðin er endalaus.

Það var sorglegt að verða vitni að því hvað Samfylkingin og vinstri grænir voru þreklitlir gagnvart því sem við héldum margir að væru hugsjónir þeirra. Ótrúlega þreklitlir að túlka niðurstöður Hæstaréttar Íslands þannig að nú skyldi jafnaðarmennskunni fleygt fyrir borð, nú skyldu menn ekki hugsa um náungann, nú skyldu menn ekki hafa möguleika á því að tekjujafna, skattleggja og forgangsraða og reyna að taka tillit til hluta. Það kom verulega á óvart. Ég verð að viðurkenna að kannski var til of mikils mælst en þó hafði ég þetta traust á hv. ágætum félögum mínum á Alþingi.

[22:30]

Um hvað snýst þetta mál í hnotskurn? Hvar byrjar peningadæmið sem við erum að ræða um? Það byrjar við 185 þús. kr. tekjur maka eða hjóna eða sambýlisfólks, 185 þús. kr. Þar byrjar skerðingin. Þar varðar fyrst dóm Hæstaréttar, þar sem sá er býr við örorkubætur hefur 51 þús. kr. en makinn 135 þús. kr. á mánuði. Það er óbreytt, þar er engin skerðing, 185 þús. kr. Eftir þá tölu byrjar skerðingin. Ef við tökum dæmi um einstakling sem hefur 150 þús. kr. á móti maka sínum sem er með örorkubætur, þannig að heildartekjurnar séu 195 þús. kr., þá er skerðingin 6 þús. kr. Ef heildartekjurnar eru komnar upp í 203 þús. kr., þá er skerðingin 8 þús. kr. Ef heildartekjurnar eru komnar upp í 343 þús. kr., er ekki meiri skerðing. Ef tekjurnar eru komnar upp í hærri tölur skiptir það heldur ekki máli. Um þetta snýst málið. Um aðra var ekki fjallað og það er óumdeilt, um aðra var ekki fjallað í dómi Hæstaréttar og dómur Hæstaréttar varðar bætur, hæstu tölu sem um getur í sögu lýðveldisins, um 1 milljarð. Það er afdráttarlaus dómur sem þó hefur verið deilt um lögfræðilega og tæknilega á Alþingi eins og menn vita og svo hljóp vindurinn úr stjórnarandstöðunni í dag með því að Hæstiréttur leyfði sér að segja hvað hann meinti. Það var þá orðin höfuðsynd.

Ég býst við að þegar á reyndi mundi engin ríkisstjórn Íslands vilja sleppa þeim rétti að geta tryggt framgang mála með tekjujöfnun, engin ríkisstjórn Íslands þegar á reyndi. Allt sem menn hafa sagt í þeim efnum er sýndarmennska, er hráskinnsháttur, myglingur. Svo einfalt er það. Það er illt þegar menn búa til stöðu sem má flokka að mörgu leyti undir hálfgert móðursýkiskast. Við Íslendingar erum fljótir til að æsa okkur upp og gera úlfalda úr mýflugu og við búum við þann veikleika í eðli okkar, a.m.k. ættu þeir sem eru í forsvari fyrir fjölmiðla, stjórnmálabaráttu og félagasamtök að búa við jafnvægi sem tryggði að svona staða fyki ekki upp eins og flensa sem flæðir yfir landið. Málflutningur á fölskum forsendum. Maður á að reiðast því þegar manni er sagt ósatt og það á að gagnrýna. Ekki á að hlusta á þann sem er að tala nákvæmlega eins og hann heldur að maður vilji að hann tali ef einhver grunur er um að hann sé ekki að fara með rétt mál. Þetta hafa sumir hv. þm. kappkostað að gera og verið að nudda sér upp í hópa sem hér um ræðir, hópa sem eiga við skerta starfsorku að búa af ýmsum ástæðum og þurfa þess vegna að taka bætur sem þjóðfélagið sameinast um að veita, bætur sem því miður hafa löngum verið og eru allt of litlar þegar á heildina er litið. Það er engin spurning. Sem betur fer er unnið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að endurskoðun tryggingalaga og vonandi koma þar leiðréttingar eins og oft hafa komið í endurskoðun ríkisstjórna af því tagi. En ekki þýðir að vera með einhverjar jólagjafir á vitlausum tíma og síst af öllu eins og stjórnarandstaðan hefur verið með, jólagjafir þar sem ekkert er í pökkunum.

Hverju svarar fólk þegar það er spurt: Ert þú á móti fólki eða með? Ætli það sé ekki með fólki. Hverju svarar fólk þegar það er spurt: Ert þú á móti öryrkjum eða með öryrkjum? Ætli það svari ekki að öllu jöfnu með öryrkjum (ÖJ: Þetta er ... ) sem á við um alla Íslendinga. Sá naglaskapur sem hv. þm. vinstri grænna hafa notað hér með stóryrðum, fúkyrðum og ótuktarskap skilar ekki nokkrum árangri því að tómir pakkar eru að baki. Það eru litlir, tómir kassar. Þetta er ekki mál til að flíka eða leika sér með. Þetta er fullkomið alvörumál sem Íslendingar hafa löngum sameinast um að sé í hópi mála sem þeir vilja standa saman að. Annars byggjum við ekki í þessu landi. Þeir sem vilja sífellt efna til ófriðar og nærast á því, nærast á óförum annarra, nærast á því að gera menn neikvæða, óánægða og óhamingjusama, telja það vera höfuðárangur sinn, eiga vonandi ekki mikla framtíð fyrir sér, a.m.k. ekki í íslenskum stjórnmálum. En það er hluti af því bögglauppboði sem hefur til að mynda átt sér stað í vinstri flokkunum undanfarin ár þar sem enginn veit í rauninni hvar hann stendur eða hvers hann er. Fæstir vita jafnvel í hvað mörgum flokkum þeir hafa verið á undanförnum árum. Þeir hafa skipt hraðar um flokka en nærbuxur. Þetta er það sem blasir við í nútímasögu svokallaðra vinstri flokka á Íslandi.

Þegar ráðist er til að mynda á hæstv. forsrh. og reynt að gera hann að óvini þeirra sem þurfa að leita bóta og eiga um sárt að binda, sem er ótrúlega ósvífinn málflutningur, þá leggjast menn lægst í hlutunum því að auðvitað er ríkisstjórn Íslands að vinna að framgangi allra góðra mála á landinu. En hún þarf líka að bera ábyrgð á því að tryggja eins mikinn jöfnuð og hægt er í framgangi allra mála. Hún verður að þora að forgangsraða. Hún verður að þora að taka á málum hvort sem það heyrir til vinsælda eða óvinsælda. Og jafnvel nú þegar niðurstaða Hæstaréttar Íslands liggur fyrir þar sem bætur ákveðins hóps öryrkja hækka úr 18 þús. kr. í 43 þús., þá er það kölluð svívirðileg árás.

Hvar eru menn staddir í hinu pólitíska litrófi? Hvar eru hugsjónir jafnaðarmanna? Jú, þeim hefur skolað út um lensopið. Þeim hefur skolað út um lensopið og þær eru farnar út með grútnum. Það er því margt sérstakt í þessum málflutningi. Það hefur komið greinilega fram t.d. í fréttaflutningi af málunum að sumir fréttamenn fjölmiðla, jafnvel ríkisfjölmiðla eins og fréttastofu Ríkisútvarps eru talsmenn ákveðinna stjórnmálaflokka. Þeir hafa ekki verið talsmenn Öryrkjabandalagsins. Þeir hafa verið talsmenn stjórnmálaflokka. Hvaða vinnubrögð eru það? Það væri sök sér og fyrirgefanlegt ef þeir sem eiga að vera sjálfstæðir aðilar tækju upp hanskann fyrir þá sem um er deilt. En þeir hafa gert Samfylkinguna að höfuðatriði í öllum þessum málflutningi.

Í minni sveit kallast þetta misnotkun, grófleg misnotkun á eðlilegum vinnubrögðum og samskiptum manna á milli. Það er meira að segja svo að forseti Íslands er tekinn haustaki í þessu máli. Hann er bara tekinn haustaki. Og hverjir gerðu það? Það byrjaði á því að hv. varaformaður Samfylkingarinnar tók forseta Íslands haustaki. Hefðu kannski einhvern tíma verið hæg heimatökin, en það er liðin tíð. Hlutverkaskipti hafa orðið og því ósæmilegt að stilla forseta Íslands þannig upp við vegg í viðkvæmu deilumáli sem er fyrst og fremst orðið pólitískt vegna þess að stjórnarandstaðan er verkefnalaus. Hún er verkefnalaus, hún er skoðanalaus, hún hefur tekið heils hugar máli Hæstaréttar þar sem menn deila um lögfræðileg atriði og reynt er að gera þau að merg málsins.

Ég sagði fyrr í dag, herra forseti, að Samfylkingin væri pólitískt náttúrulaus. Það er ekki illa sagt. Yfirleitt er alltaf fallegt og jákvætt að bera hluti við náttúruna því að þar er líf og fjör og þar er gróður og fuglar og brim og fjöll, en það er vont fyrir stjórnmálasamtök að búa við slíkan doða að hafa ekki markvissa stefnu svo maður geti nefnt það almennt verkefnalegt pólitískt náttúruleysi. Það kemur ekkert einstaklingum eða persónum við sem standa að Samfylkingunni. Það kemur við þeim biximat sem kallast Samfylking. Biximatur er líka ágætur matur. Hann er matreiddur úr oft ágætisafgöngum hvort sem það er saltfiskur, ket eða annað góðæti. (ÖJ: Sjaldan hefur virðing Alþingis ...) (KHG: Er þetta matreiðsluþáttur?) Það er nú rétt að tala svolítið myndrænt fyrir hv. stjórnarandstöðu svo hún hætti að sjá alla geislana og glýjuna í speglunum þegar hún lítur í þá hvern dag, hvunndags.

Það er auðvitað ekki heldur við hæfi að formaður Öryrkjabandalagsins, með allri virðingu fyrir honum, gömlum vinnufélaga mínum, fari að setja skoðanir upp á forseta Íslands um afstöðu til mála. Það er eðlilegast í þjóðfélagi okkar (ÖJ: Er ekki málfrelsi í þessu landi?) og þjóðskipan að forseti Íslands hafi auðan sjó til að vinna á. (ÖJ: Það er málfrelsi í þessu landi.) Það er málfrelsi í landi okkar já, en við þurfum að kunna mannasiði og leikreglur. (ÖJ: ... maðurinn að svara fyrir sig.) Mannasiði og leikreglur. (ÖJ: Þetta er ódrengilegt.) Þetta kemur ekkert forseta Íslands við til þess að svara fyrir sig.

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. 13. þm. Reykv. að halda ró sinni. Hann er í andsvari á eftir og getur þá væntanlega svarað hv. þm.)

[22:45]

Herra forseti. Ég virði hv. þm. það til vorkunnar að hann hefur nú sem reyndar æðioft fyrr ekki stjórn á skapi sínu. Verkefnalaus stjórnarandstaða sem nuddar sér upp úr máli sem á að vera hafið yfir slíkar krytur og deilur. Því að þó að menn greini á þá eiga menn að hafa reisn til þess að tala með fullum rökum án útúrsnúninga um mál af þessu tagi. (ÖJ: Eins og þingmaðurinn hefur verið að gera.) Hv. þm. þarf ekkert að leiðbeina mér um það hvað ég er að segja og hvað ég meina. Höfuð hans verður að túlka það sem hann heyrir og hann verður að bera ábyrgð á því en þetta er háttur þeirra vinstri grænna sérstaklega að gjamma sífellt og er nú hv. þm. kominn í hóp formanns síns um að óska eftir sérréttindum fyrir sig og sína en eitthvað annað fyrir aðra. Kemur það þó ekki á óvart úr þeim pólitísku herbúðum sem hv. þm. kemur úr. Allt frá Sovét. Allt frá bernskubrekum í tengslum við Sovét. Maður verður að virða þeim það til vorkunnar að þar tala menn sem eru í raun landlausir eftir hrun móðurskipsins, Sovétríkjanna, eftir hrun kommúnismans sem hefur kallað yfir mannkynið mesta vandamál í sögu þess. Ekki er skrýtið þó hv. þingmönnum skjöplist þegar kemur að því að tala um einfalt og almennt brjóstvit fólksins í landinu og eðlilegar viðmiðanir og leikreglur. En við það búum við og tökum eins og hverju öðru pusi sem gefur á bátinn og kippum okkur ekkert upp við það.

Ég ítreka enn á ný það sérstæða sjónarmið stjórnarandstöðunnar að hafna eðlilegum rétti réttkjörinna stjórnvalda lands okkar að taka tillit til tekna við úthlutun fjármagns. Það er eins og þeir hv. stjórnarandstæðingar vilji ekkert við það kannast eða um það vita að öll lög landsins, hver einustu lög landsins, sem snúa að fjármálum, eru háð fjárlögum Alþingis frá ári til árs. Jafnvel beinskeyttustu lög landsins eru háð fjárlögum. Þess vegna verða menn að vera tilbúnir til sanngirni og tilbúnir til þess að reyna að leysa mál eins vel og hægt er með tilliti til allra þátta.

Sérkennilegt var að heyra hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að bréf forseta Hæstaréttar til forsn. hefði enga þýðingu. Nú er allt í einu ekkert að marka Hæstarétt, bréfið væri aðeins sögulegt plagg. Það er sérkennilegt vegna þess að Hæstiréttur hefur með bréfi sínu til forsn. Alþingis í dag svarað ágreiningsefninu um aðalatriði málsins. Ég ætla með leyfi hæstv. forseta að lesa þessi tvö bréf. Þau eru stutt og þau eru skýr.

Í fyrsta lagi er bréf frá Alþingi Íslendinga, undirritað af forseta Alþingis, sent af allri forsn. Alþingis, 23. jan. 2001.

,,Forseti Hæstaréttar

Garðar Gíslason.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar 19. des. 2000 í máli nr. 125/2000 hefur ríkisstjórnin flutt á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er ráðgert að sem fyrr geti orðið skerðing á fjárhæð tekjutryggingar örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekjuöflunar maka hans.`` --- Ég endurtek: Í frumvarpinu er ráðgert að sem fyrr geti orðið skerðing á fjárhæð tekjutryggingar örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekjuöflunar maka hans.

,,Við meðferð frumvarpsins á Alþingi hefur verið deilt um hvort skilja eigi umræddan dóm Hæstaréttar svo að með honum hafi verið slegið föstu, að almennt sé andstætt stjórnarskránni að kveða í lögum á um slíka tekjutengingu. Þess vegna fer forsætisnefnd Alþingis þess á leit við forseta Hæstaréttar að hann láti nefndinni í té svar við því, hvort dómurinn hafi falið slíka afstöðu í sér.``

Þessi spurning fer ekkert á milli mála, herra forseti.

Svarbréf forseta Hæstaréttar sem talar og skrifar fyrir munn Hæstaréttar Íslands á nokkurs efa er svohljóðandi:

,,Forsætisnefnd Alþingis

23. janúar 2001.

Vísað er til bréfs 23. janúar 2001, þar sem þér farið þess á leit að forseti Hæstaréttar láti nefndinni í té svar við því hvort með dómi Hæstaréttar 19. des. 2000 í máli nr. 125/2000 hafi verið slegið föstu að almennt sé andstætt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að kveða í lögum á um að skerðing geti orðið á fjárhæð tekjutryggingar örorkulífeyrisþega í hjúskap vegna tekna maka hans.

Í dóminum var aðeins tekin afstaða til þess hvort slík tekjutenging eins og nú er mælt fyrir um í lögum sé andstæð stjórnarskránni. Svo var talið vera. Dómurinn felur ekki í sér afstöðu til frekari álitaefna en hér um ræðir. Í því ljósi verður að svara spurningu yðar neitandi.``

Þetta er mjög skýrt og klárt. (SJóh: Ég hefði getað skrifað þetta.) Og ef hv. stjórnarandstöðuþingmenn eru tilbúnir til þess að kyngja núna fúkyrðum sínum, rangfærslum og mistúlkunum þá fagna ég því innilega eins og kom fram hjá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur, minni mætu vinkonu.

Allt er gott sem endar vel. Svo er sagt að þetta bréf hafi enga þýðingu þegar Hæstiréttur hefur staðfest túlkun sína á dómi sem er búinn að vera umdeildur hérna og hefur skapað ókyrrð meðal landsmanna, tortryggni og óvild sem við eigum ekki að rækta af fullum krafti á Íslandi. Búið er að skera úr um það að ekki er hægt í þessu máli að etja saman Alþingi Íslendinga og Hæstarétti eins og stjórnarandstaðan hefur reynt í málflutningi sínum í meðferð málsins.

Ég ítreka þakklæti og fagna frumkvæði forsn. til að leita eftir þessu lögfræðilega álitamáli af hálfu Hæstaréttar sem hefur kippt grundvellinum undan öllum málflutningi og óvild stjórnarandstöðunnar í meðferð málsins og vona að menn geti lært af því að vinna á annan hátt en gert hefur verið til árangurs í framtíðinni.