Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 23:01:25 (4250)

2001-01-23 23:01:25# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[23:01]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir sérlega fróðlegt og málefnalegt framlag til þessarar umræðu. ,,Allt orkar tvímælis``, ,,margt í mörgu``, ,,myglingur``, og ,,menn sjá ekki út úr augunum``. Reyndar áfellist ég ekki hv. þm. Árna Johnsen fyrir að eiga erfitt með að átta sig á þessu máli vegna þess að það er ekki fyrr en nú að hann kemur að þessari umræðu sem hér hefur staðið í marga daga. En ég skal þó ekki taka fyrir það að í hv. þm. kunni að leynast glöggur lögskýrandi. Nú hefur hann fengið mikla uppljómun í bréfi sem Garðar Gíslason, forseti Hæstaréttar, ritar Halldóri Blöndal í dag.

Það hefur verið tekist á um það í þessari umræðu hvort með dómi Hæstaréttar sé úthýst öllum tekjutengingum í skatta- og velferðarkerfinu. Við höfum haldið því fram við umræðuna að svo væri ekki. Ég fæ ekki betur séð en að í bréfi forseta Hæstaréttar sé þessi niðurstaða okkar staðfest. Dómurinn stendur.