Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 23:05:34 (4254)

2001-01-23 23:05:34# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, LB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[23:05]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef þegar a.m.k. talað tvisvar í þessu máli og gert að mínu viti nokkuð skýra grein fyrir þeirri afstöðu sem ég hef til þess frv. sem hér er til umræðu. Ég er sannfærður um það og hef sannfærst um það enn í þessari umræðu að það að skerða kröfuréttindi afturvirkt með þeim hætti sem það frv. sem við ræðum hér ætlar að gera fær ekki staðist 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Ég hef haldið þessu fram í umræðunni og hér hefur ekkert komið fram sem fær mig til þess að breyta þeirri afstöðu minni.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla mikið meira um frv. en grípa frekar niður í því bréfi sem hér hefur verið gert að umtalsefni.

Á meðan allt þetta mál hefur gengið yfir hef ég haft miklar áhyggjur af því hvernig ríkisstjórnin og aðrir framkvæma ríkisvaldið, hvernig farið er með valdið. Valdið er vandmeðfarið. Og það er ekki að ástæðulausu að við höfum skipt valdinu upp í þrennt. Við höfum skipt því upp í framkvæmdarvald, við höfum skipt því upp í löggjafarvald og við höfum skipt því upp í dómsvald. Það er ekki fyrir valdhafana sem við höfum skipt þessu upp með þessum hætti. Það er fyrir borgara þessa lands. Það er verið að reyna að tryggja að ekki sé misfarið með valdið, þ.e. að borgararnir fái notið frelsis. Ef hættan er sú að einn valdhafinn ráðist á borgarana getur borgarinn borið það undir annan. Það er grunnhugsunin með þessari þrískiptingu. Þetta þekkja allir hv. þm. Og þetta er meginforsenda þess að við getum framkvæmt það lýðræði sem við viljum hafa. Þetta er ekki komið til af einhverri tilviljun. Við þekkjum söguna. Við þekkjum það hvernig einvaldar fóru með valdið, hvernig þeir komu fram við fólkið. Söguleg reynsla hefur kennt okkur að það er betra að skipta þessu upp með þessum hætti.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp hér er bréf sem forseti Alþingis, sem forseti Alþingis, sem yfirmaður, æðsti maður löggjafarsamkundunnar, sendi Hæstarétti. Hann sendir æðsta dómstólnum bréf þar sem hann spyr spurningar. Og um hvað snýst spurningin? Hún snýst um efni frv. framkvæmdarvaldsins. Það er með öðrum orðum búið að flétta saman alla valdþættina með einum eða öðrum hætti. Þetta er algerlega í andstöðu við þá grunnhugsun sem býr að baki því að skipta ríkisvaldinu upp í þrennt, algerlega í andstöðu við það. En þetta er gert samt. Þetta er algert einsdæmi, virðulegi forseti, og satt best að segja hélt ég að við værum löngu komin af því stigi að svona hugmyndir kæmu upp.

Við skulum halda áfram að velta þessu fyrir okkur. Hver er staða Hæstaréttar? Hver er staða Hæstaréttar til þess að fjalla um þau mál sem kunna að spretta upp í kjölfar þess að þetta lagafrv. verður hugsanlega samþykkt? Hver er staða Hæstaréttar? Það er ekki gott að segja (Gripið fram í.) vegna þess að í raun stendur óskaplega lítið í þessu bréfi. En það breytir ekki hinu að með fjölhæfri túlkun er hugsanlegt að draga þá ályktun eitthvert efni sé í þessu bréfi. Og ef Hæstiréttur hefur tekið einhverja efnisafstöðu til þessa frv. --- sem reyndar var ekki beðið um. Hann var beðinn um að fjalla um þann dóm sem féll --- en ef menn leyfa sér að túlka það, hvernig ætlar þá Hæstiréttur að fjalla um lögin á síðari stigum? Því verður hann sjálfsagt síðar að svara sjálfur. En ég held að það sé alveg ljóst að hann verður í miklum vandræðum með þetta.

Virðulegi forseti. Í öðru lagi má ekki gleyma því að dómstólar verða ekkert beðnir um lögfræðileg álit. Það segir einfaldlega í lögum um meðferð opinberra mála og víðar. Svo verður ekki gert.

Er Hæstiréttur að gefa það fordæmi að menn geti skrifað eða hringt í hann og spurt: ,,Ef ég fer yfir á gulu og það kemur rautt fæ ég þá sekt?`` Hvað er í raun og veru verið að fara hérna?

Ég ætla að lesa upp 25. gr. laga um meðferð einkamála:

,,Dómstólar verða ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli.``

Þess vegna heitir þetta dómsvald. Þess vegna heitir þetta ekki lögfræðiskrifstofan ABC. Þess vegna er þetta dómsvald. Því er ætlað að taka afstöðu til mála sem eru borin undir það með ákveðnum hætti. Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, þetta grafalvarlegt mál þó að ríkisstjórnin og meiri hlutinn á hinu háa Alþingi sé með böggum hildar yfir því að hugsanlega varði frv. sem hér er rætt við stjórnarskrána.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta mundi hvergi viðgangast í nokkru því ríki sem við viljum bera okkur við. Vel má vera að einhver fordæmi séu til. Ég þekki þau ekki. En þetta er gersamlega í andstöðu við hugsunina sem er á bak við þrígreiningu ríkisvaldsins sem er sú að borgararnir geti borið álitaefni sín gagnvart ríkisvaldinu eða valdhöfum þess á einn eða annan hátt undir dómstóla.

Mér sjálfum finnast þessi bréfaskipti alveg gríðarlega alvarleg og ég vil a.m.k. lýsa því hér yfir að þau voru ekki send í mínu umboði. Það er alveg kristalstært.

Ég held að með þessum bréfaskiptum hafi að einhverju leyti, ef menn vilja meina að í þessum bréfum sem segja óskaplega lítið sé eitthvert efni, Hæstarétt sett ögn niður og þá einkanlega forseta Hæstaréttar sem undir þetta bréf ritar.

Veltum því líka fyrir okkur hver helstu rök ríkisstjórnarinnar voru þegar málið kom upp. Hver voru þau? Þau voru að Hæstiréttur hafi verið með pólitísk afskipti af því hvað stjórnmálamenn mættu gera og hvað ekki og það ætti ekki að vera þannig, þannig væri ekki skiptingin á milli þessara valdhafa. En hver er staðan nú? Löggjafinn spyr Hæstarétt tiltekinna spurninga þó engin svör komi reyndar við þeim því önnur en þau að dómurinn sem liggur fyrir liggur fyrir. Það er í sjálfu sér ekkert meira sem í þessu bréfi stendur.

En mér finnst, virðulegi forseti, og það er mín gallharða afstaða, að ef svo er komið að hægt sé að tengja þessa valdþætti alla saman á þann hátt sem hér hefur verið gert, þá séum við í verulegum vanda. Mér finnst sjálfum þetta bréf eitthvað það alvarlegasta sem hefur átt sér stað í þessari umræðu.

Hér hafa menn skipst á skoðunum og flestir hverjir gert það málefnalega. En ef ríkisstjórnarmeirihlutinn er ekki öruggari en svo um að hann sé hér með frv. sem standist stjórnarskrána að hann þurfi að fá heilbrigðisvottorð þá er eitthvað meira en lítið að. Maður gæti jafnvel dregið þá ályktun að umræðan sem fer fram um þetta mál hafi náð til eyrna þeirra sem í meiri hlutanum sitja og í ríkisstjórninni sitja.

Gefum okkur, virðulegi forseti, að sá er undir þetta bréf ritar riti undir það einn. Hver er þá hans staða? Það hefur ekkert komið fram um hvernig þetta bréf er til komið. Hver er hans staða þá orðin? Í Hæstarétti sitja níu hæstaréttardómarar og hann er þá að taka afstöðu fyrir hönd þeirra níu. Ég er ekki að segja að svo sé. En það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni hver staða forseta Hæstaréttar sé þá.

Í öðru lagi velti ég fyrir mér: Ef meiri hlutinn er á bak við þetta bréf, hvernig ætlar meiri hlutinn þá héðan í frá að takast á við spurningar sem upp kunna að koma sökum þeirra álitaefna sem ég og fleiri erum sannfærð um að muni spretta upp í kjölfar þess ef þetta verður lögfest? Ef meiri hlutinn stendur á bak við þetta bréf held ég að hann sé líka í vandræðum. Hugsanlega þarf að endurskipa Hæstarétt allan út af þessu bréfi í því tiltekna máli komi til þess að þetta verði borið undir Hæstarétt.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta svo alvarlegt mál að umræðu um það verði ekki lokið hér á einni kvöldstund. En það hefur a.m.k. dregið fram að ríkisstjórnin er með böggum hildar yfir því hvað hún er að gera. Hún hefur farið þá óvenjulegu leið að óska eftir lögfræðiálitum um tiltekna spurningu frá Hæstarétti, frá dómstólum. (Forsrh.: Ríkisstjórnin?) Ég talaði um meiri hlutann hér og það er alveg ljóst að minni hlutinn hefur ekki staðið að því að senda þetta bréf.

Það er alveg kristalstært, virðulegi forseti, að upp er komin staða sem við sjáum ekki fyrir hvernig muni gera sig. En upp er líka komin staða þar sem a.m.k. ég og fleiri drögum í efa hvernig ríkisvaldið er framkvæmt í þessu landi. Mér finnst þrískipting ríkisvaldsins vera einn af hornsteinum stjórnarskrárinnar, sem hún og er. Og mér finnst það gríðarlega alvarlegt mál þegar ríkisvaldsþættirnir þrír eru tvinnaðir saman á þann hátt sem hér hefur verið gert.