Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 23:18:58 (4256)

2001-01-23 23:18:58# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[23:18]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Nú líður að lokum þessarar umræðu og það fer ekki á milli mála að mjög margt hefur skýrst í umræðunni. Tekist hefur verið á um túlkun á úrskurði Hæstaréttar. Tekist hefur verið á um þetta á málefnalegan hátt og ljóst er að umræðan hefur verið þörf og gagnleg. Hins vegar verður að segjast eins og er að það hefur verið mjög óþægilegt að starfa í þinginu undir þeim ásökunum að með framlagningu frv. ríkisstjórnarinnar væri verið að brjóta gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Einnig er mjög óvenjulegt að sitja undir þeim ásökunum stjórnarandstöðunnar að þingið hafi verið kallað saman í þeim tilgangi að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Út af brigslyrðum ákveðinna stjórnarandstöðuþingmanna hafa spunnist hér þyngri og hatrammari deilur en lengi hafa staðið á þinginu, enda er það í raun fágætt að ríkisstjórn eða þingheimi séu bornar á brýn ásaknir af þessu tagi. Ljóst er að með hörðum viðbrögðum stjórnarsinna við slíkum ásökunum hafa þeir minnt stjórnarandstöðuna á hvað þær ásakanir fela í rauninni í sér. Því hafa nokkrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar orðið hugsi. Þeir hafa hugleitt hvort þeir hafa gengið of langt í þeim efnum. Athygli mína vakti að hv. þm. Ögmundur Jónasson sá ástæðu til að koma hér upp í ræðupúlt og lýsa því yfir að hann hefði gengið of langt í þessum efnum og baðst velvirðingar á því. Ég virði það við hann. Mér finnst hann vera maður að meiri. Ég tók nærri mér þær fullyrðingar að við hefðum beinlínis kallað saman þingið í þeim tilgangi að brjóta stjórnarskrána og ég virði það við hv. þm. að hann hafi beðist velvirðingar á þessu. Mér fannst of langt gengið og met það við hann að hann sé mér sammála um það. Ég vil einnig taka fram að þetta gerði þingmaðurinn áður en þau bréf sem hér hafa komið til umfjöllunar voru kunn þingheimi, áður en sú afstaða sem kemur fram í bréfi forseta Hæstaréttar varð kunn.

Hins vegar hafa ekki, svo mér sé kunnugt um, aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar séð ástæðu til að bregðast við með þeim drengskap sem hv. þm. sýndi. Ég verð að segja eins og er að ég sakna þess nokkuð að sá þingmaður sem kom með alvarlegustu athugasemdirnar, en það er hv. þm. Þuríður Backman, sem sagði þingið hafa verið kallað saman til að lögfesta brot á stjórnarskrá lýðveldisins og Alþingi hafi verið kallað saman til að staðfesta brot á mannréttindum, skuli ekki hafa séð sér fært að draga þau ummæli til baka.

Ég held að í rauninni fagni allir því að úr þessu deilumáli hafi verið skorið. Í bréfi forsn. Alþingis til forseta Hæstaréttar, og ég legg áherslu á að forsn. sendir þetta bréf en í forsn. eru fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu, er óskað skýringa á því vegna þess að fram hafa komið ásakanir um að ekki væri heimilt að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega vegna tekna maka, þá var beðið um að kveða upp úr um hvort almennt sé andstætt stjórnarskránni að kveða í lögum á um slíka tekjutengingu. Með slíkri tekjutengingu er að sjálfsögðu verið að tala um tekjutengingu tekjutryggingar örorkulífeyrisþega í hjúskap og ekki annað. Og þess var farið á leit að Hæstiréttur tæki afstöðu til þessa. Auðvitað setur það allar umræður hér í allt annað ljós ef við getum gengið að því vísu að þingstörf brjóti ekki í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.

Forseti Hæstaréttar svarar, ég tek fram að forseti Hæstaréttar er að sjálfsögðu talsmaður Hæstaréttar, og segir, með leyfi forseta: ,,Í dóminum var aðeins tekin afstaða til þess hvort slík tekjutenging eins og nú er mælt fyrir um í lögum sé andstæð stjórnarskránni. ... Dómurinn felur ekki í sér afstöðu til frekari álitaefna en hér um ræðir. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Í því ljósi verður að svara spurningu yðar neitandi.``

Með öðrum orðum, spurningunni í því álitamáli, hvort almennt væri andstætt stjórnarskránni að kveða á í lögum um að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega vegna hjúskapar, er svarað neitandi.

Mjög mikilvægt er að menn reyni að átta sig á hvað stendur í þessum úrskurði, enda er það mjög skýrt.

Ég hef hér í þingsalnum lagt mig fram um að reyna að leita skýringa í þeim gögnum sem fyrir liggja á dómi Hæstaréttar. Ég hef einnig lagt mig fram um að reyna að skýra ummæli þeirra lögfræðinga sem kallaðir voru fyrir hv. heilbr.- og trn. og ég tel að stjórnarandstaðan og meiri hluti þingsins hafi náð ákveðnum árangri í þessum skýringum. Ég tel t.d. að hv. formaður Samfylkingarinnar hafi ekki séð sér fært að mótmæla þeim skilningi sem ég lagði sérstaklega í ummæli hans og leiðrétti hann í sambandi við álit minni hluta Hæstaréttar. Ég held einnig að menn hafi fallist á skýringar mínar á tilvitnunum í báðum nál. í lögfræðinginn Eirík Tómasson.

Má því segja að okkur hafi gengið þokkalega að ná samstöðu um að hverfa frá þeim alvarlegu ásökunum sem hér hafa verið bornar á ríkisstjórnarflokkana, að þeir væru vísvitandi að ganga gegn stjórnarskránni. Það ber að harma í raun og veru að stjórnarandstaðan skyldi setja það í nál. sitt að hér væri um stjórnarskrárbrot að ræða. Málið hefði betri svip ef því hefði verið sleppt.