Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 23:48:04 (4262)

2001-01-23 23:48:04# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[23:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér hefur staðið löng og ströng umræða um þetta mál á hv. Alþingi. Ég vil segja í lok hennar að ríkisstjórnin gerði sér afskaplega vel ljóst þegar þessi dómur var upp kveðinn á sínum tíma skömmu fyrir jól að mjög óvenjulegt mál væri á ferðinni og miklu máli skipti hvernig við yrði brugðist og það mundi líka skipta miklu máli að Alþingi væri kallað saman af þessu tilefni eins fljótt og nokkur kostur væri.

Ríkisstjórnin gerði sér góða grein fyrir því að málið væri flókið og umfangsmikið og því þyrfti að vanda undirbúning áður en Alþingi kæmi saman. Það var gert og unnið var að því í nokkurn tíma að semja frumvarp, nauðsynlegt frumvarp til að hægt væri að bregðast við þessum dómi og koma greiðslum til þeirra sem hlut áttu að máli.

Ég ætla ekki að fara, herra forseti, yfir efnisatriði málsins. Ég hef gert það áður. Ég tel að öll rök sem hafa komið fram í málinu séu til staðar eftir þessa umræðu og litlu sé við að bæta. Aðaldeilan hefur staðið um hvort löggjafarvaldið hefði áframhaldandi heimild til að miða tekjutryggingu til öryrkja við tekjur maka eður ei. Um það hafa verið deildar meiningar. Mjög stór orð hafa verið höfð uppi um það í umræðunni að stjórnarskráin hefði verið brotin þegar þessi lög voru sett. Ljóst er að það var rétt og allir hafa viðurkennt að dómur Hæstaréttar gengur út á það að lögin hafi á sínum tíma ekki verið í samræmi við stjórnarskrá, þ.e. lögin frá 1993 sem Alþingi ber ábyrgð á. Það kom e.t.v. mörgum meira á óvart að lögin frá 1998 væru einnig í ósamræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Engum hefur dottið í hug að deila um það. Hins vegar hefur álitamálið verið það, og ég tel að það hafi komið skýrt fram í þessari umræðu og allir sammála um að hér eru álitamál á ferðinni, hvort beri að líta svo á að hámarkstekjutrygging sé skerðanleg eður ei.

Við sem erum í ríkisstjórn og þeir sem styðja ríkisstjórn á Alþingi hafa haldið því fram að dómurinn þýði að áfram sé heimilt samkvæmt stjórnarskrá að miða bætur öryrkja að einhverju leyti við tekjur maka.

Að sjálfsögðu er mjög óvenjulegt að bréf sé skrifað af forseta Alþingis af þessu tilefni, það er öllum ljóst. En það er líka mjög óvenjulegt að uppi séu þær skoðanir á hv. Alþingi að frv. sem lagt er fyrir Alþingi sé ekki í samræmi við stjórnarskrá landsins. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að hæstv. forseti Alþingis taki slíkt mjög alvarlega og íhugi mjög vandlega hvernig skuli bregðast við slíkum aðstæðum.

En hvað svo sem um það má segja hefur Hæstiréttur svarað því bréfi og ég ætla ekki á nokkurn hátt að reyna að skilgreina það, það hlýtur forseti Hæstaréttar að gera sjálfur. En ég held að það hljóti að vera ljóst að ef forseti Hæstaréttar skrifar bréf hlýtur hann að gera það í umboði réttarins og sem æðsti maður réttarins. Það er ekki fyrir okkur hér á Alþingi að útskýra. Það getur enginn gert annar en forseti réttarins.

Hins vegar er alveg ljóst hvað stendur í þessu bréfi og það verður ekki skilið öðruvísi en að litið sé svo á að það samrýmist stjórnarskrá landsins að hámarkstekjutrygging sé að einhverju leyti skert miðað við tekjur maka. Frv. gengur út á það. Það gengur m.a. út á að það sé áfram heimilt. Við höfum haldið því fram að frv. standist algjörlega stjórnarskrá landsins og ég er vissari um það en nokkru sinni fyrr að svo er og það er allt saman gert í góðri trú.

Ég vil að lokum þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tel það afskaplega mikilvægt að Alþingi hafi brugðist við á þann hátt sem hér er að verða niðurstaða um, að hægt sé að ganga frá löggjöf um þetta mál þannig að bótum verði komið til réttra aðila um næstu mánaðamót. Hins vegar er alveg ljóst að áfram verður haldið að fjalla um málefni öryrkja og annarra þjóðfélagshópa sem hafa lágar tekjur. Þetta er ekki síðasta umræðan á Alþingi um þau mál, enda var ekki til þessa frv. stofnað nema til þess að bregðast við dómi Hæstaréttar. Mikilvægt er að það sé ljóst eftir þessa umræðu að ríkisstjórninni hefur ekkert annað gengið til í þessu máli en að bregðast rétt við dómi Hæstaréttar. Það var ekki tilgangurinn með frv. að taka á málefnum öryrkja almennt, enda liggur það alveg ljóst fyrir að frv. varðar tiltölulega þröngan hóp fólks sem er á slíkum bótum.