Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 23:57:06 (4263)

2001-01-23 23:57:06# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[23:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. segir að hér sé á ferðinni mikið álitamál. Af hálfu stjórnarandstöðunnar er ekki um vafamál að ræða eða álitamál. Á grundvelli mannréttinda\-ákvæða í stjórnarskrá Íslands og í mannréttindasáttmálum sem við eigum aðild að komst Hæstiréttur Íslands að skýrri og afdráttarlausri niðurstöðu. Þá niðurstöðu ætlar ríkisstjórnin ekki að virða.

Án efa brýtur ríkisstjórn Íslands ekki vísvitandi gegn niðurstöðu Hæstaréttar eða stjórnarskrá landsins. En vísvitandi og á yfirvegaðan hátt hefur hún tekið ákvörðun um að lækka tekjutryggingu örorkulífeyrisþega, þess hóps sem býr við lægst og lökust kjör á Íslandi, um 7.500 kr. og vísvitandi og á yfirvegaðan hátt er tekin ákvörðun um að beita fyrningarákvæðum í lögum til að hafa af þessum hópi þær réttar- og kjarabætur sem honum ber.