Bréf forsætisnefndar til Hæstaréttar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 10:33:43 (4298)

2001-02-08 10:33:43# 126. lþ. 66.92 fundur 271#B bréf forsætisnefndar til Hæstaréttar# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[10:33]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er óvanalegt að einn af forsetum þingsins kveðji sér hljóðs um störf þingsins. Það er hins vegar af óvanalegu tilefni sem það er gert.

Skömmu áður en þingfundum var frestað þann 23. janúar sl. var tekin um það ákvörðun á skyndifundi forsn. þar sem þrír af fimm nefndarmönnum voru viðstaddir að senda Hæstarétti umdeilt bréf þar sem leitað var svara réttarins á tilteknum þáttum í nýlegum dómi er lutu að meðferð máls hér í þinginu. Ég hafði fjarvistarleyfi úr þinginu þann dag og sat því ekki umræddan fund en gerði grein fyrir afstöðu minni á fundi fullskipaðrar forsn. í gær í ítarlegri bókun. Ég tel nauðsynlegt að gera þingheimi afstöðu mína ljósa þó seint sé.

Ég tel ákvörðun um sendingu umrædds bréfs hafa verið ranga og vanhugsaða. Eðlilegt hefði verið að fullskipuð forsn. kæmi að málinu og einnig formenn þingflokka þegar jafnviðurhlutamikil og umdeild ákvörðun var tekin og þarna var gert.

Þrígreining ríkisvaldsins samkvæmt stjórnarskrá byggir m.a. á því að einstakir valdþættir séu aðskildir hver frá öðrum svo að hver um sig fái haft eftirlit með hinum. Þar á meðal er á því byggt að bera megi gildi laga gagnvart stjórnarskrá undir dómsvaldið. Það verður því að teljast í andstöðu við þá hugsun að forseti Alþingis óski eftir umsögn Hæstaréttar um nýfallinn dóm þess sama réttar í tilefni af stjfrv. sem liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu. Það fær ekki samrýmst hugmyndinni um þrígreiningu ríkisvaldsins að bera slíkar spurningar upp við Hæstarétt sem á síðari stigum kann að þurfa að skera úr um hvort umrætt frv., sem nú er orðið að lögum, fái staðist ákvæði stjórnarskrár.

Þá skal það rifjað upp að áður en hið umrædda bréf var sent hafði forseti Alþingis þegar kveðið upp úrskurð að beiðni þriggja formanna stjórnarandstöðuflokkanna um að hið umdeilda frv. ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu væri þingtækt. Að sönnu var sá úrskurður umdeildur í umræðum sem í hönd fóru um málið en engu að síður virtur eins og ítarleg umfjöllun þingsins dögum sama ber gleggst vitni um. Þá voru engin efni til að senda umrætt bréf.

Úrskurðum forseta Alþingis verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Yfirstjórn þingsins á að vera hafin yfir dægurþras stjórnmála. Hún á að gæta þess í hvívetna að jafnræði, sanngirni og gagnsæi séu með í för í öllum vinnubrögðum þess. Um margt hefur það tekist (Forseti hringir.) og samstarf yfirleitt verið prýðilegt innan (Forseti hringir.) forsn. Ég vænti því þess að við drögum lærdóm af þeim atburðum sem urðu 23. janúar. (Forseti hringir.) og þeir (Forseti hringir.) verði ekki endurteknir í störfum þingsins.