Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 10:53:23 (4309)

2001-02-08 10:53:23# 126. lþ. 66.91 fundur 270#B meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[10:53]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Allt sem hægt er að misnota verður misnotað. Þetta er hin grátlega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Lögin um persónuvernd og reglugerð sem tók gildi um áramótin, byggð á lögunum, eru hugsuð sem trygging fyrir því að einstaklingar geti treyst því að viðkvæmar upplýsingar um þá liggi ekki þar sem líkur eru á að þær verði misnotaðar. Lögin um persónuvernd eru flókin lög og það var ekki einfalt fyrir alþingismenn, meðan þau voru til meðferðar hér í þinginu, að sjá hvernig þau mundu virka. Enn virðumst við litlu nær.

Í hópi okkar ríkir tortryggni gagnvart lögunum. Hún ríkti strax á vinnslustigi. Þá kom upp ótti við að þau mundu ekki skila tilgangi sínum, að undanþágur og glufur í þeim byðu heim hættunni á misnotkun og ekki síst ótti um að reglugerðir byggðar á þeim yrðu erfiðar í framkvæmd, að ekki sé talað um þá staðreynd að strax við samningu laganna var ljóst að miðlægur gagnagrunnur yfir heilsufarsupplýsingar þjóðarinnar yrði undanþeginn lögunum að stórum hluta.

Hvernig á löggjafinn að bregðast við núna þegar ljóst er að hjá fyrirtækjum og stofnunum finnast skrár sem samkvæmt lögunum er óheimilt að halda? Jafnvel hjá lögreglunni virðast vera til skrár sem spurning er um hvort uppfylli skilyrði laganna. Hvernig eiga fyrirtæki og stofnanir að fara eftir lögunum og bregðast við þeim tilmælum hinnar nýju stofnunar, Persónuverndar, að tilkynna um þær skrár sem til eru og heyra undir lögin? Hvernig gengur hinni nýju stofnun að setja allar þær reglur og staðla sem henni ber samkvæmt lögunum og kynna almenningi? Hvernig á þjóðin svo að sækja rétt sinn sem lögin eiga að tryggja, nú þegar komin er upp tortryggni á alla kanta?

Nei, það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að fólk taki það upp hjá sjálfu sér, herra forseti, að kanna til hlítar þau réttindi sem ný lög veita á hverjum tíma. Það stendur upp á hæstv. dómsmrh. að tryggja að fram fari virkilega góð kynning fyrir allan almenning um rétt fólks. Hvernig hyggst nú hæstv. dómsmrh. bregðast við því? Það virðist ekki vanþörf á að fólki verði kynnt það ítarlega hvaða rétt það á samkvæmt þessum lögum.