Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 11:00:19 (4312)

2001-02-08 11:00:19# 126. lþ. 66.91 fundur 270#B meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[11:00]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ekki á að skrá menn sem brotamenn vegna gruns um brot sem ósönnuð eru. Meginreglan er sú að allir eru saklausir þar til sök er sönnuð. Í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga segir m.a. um viðkvæmar persónuupplýsingar, með leyfi forseta:

,,Upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað.``

Almennt ættu fyrirtæki að leita upplýsinga beint hjá viðkomandi þegar verið er að ráða í störf og óska þá eftir heimild umsækjanda til þess að fá upplýsingar um hann hjá öðrum, t.d. fyrri vinnuveitendum eða af sakaskrá. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að það sé eðlilegt að fyrirtæki í almannaþjónustu eins og Íslandspóstur vilji vita hvort verið er að ráða fólk sem gerst hefur brotlegt við lög. Þeirra upplýsinga á hins vegar að leita hjá viðkomandi einstaklingi og fá heimild til slíks.