Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 11:01:32 (4313)

2001-02-08 11:01:32# 126. lþ. 66.91 fundur 270#B meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[11:01]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál hér upp.

Fyrir nokkrum árum spurði ég þáv. dómsmrh., Þorstein Pálsson, hvaða reglur giltu almennt þegar opinber fyrirtæki eða stofnanir voru að leita hvert hjá öðrum eftir upplýsingum sem vörðuðu einstaklinga. Þá kom fram að engar almennar reglur gilda um samskipti opinberra stofnana. Hins vegar gilda að sjálfsögðu hinar almennu reglur um persónuvernd og hvernig fara á með slíkar upplýsingar. En í ljósi þess sem hér hefur verið rætt og í tilefni þessarar umræðu má vel velta upp þeirri spurningu hvort ekki sé ástæða til þess að skoða það mjög alvarlega að setja reglur um það hvernig opinberar stofnanir og fyrirtæki skiptast á upplýsingum sín á milli.

Virðulegi forseti. Tæknin til þess að geyma upplýsingar er líka orðin miklum mun betri nú en hefur verið. Tölvutæknin gerir það að verkum að upplýsingar geta geymst árum saman og verið mjög aðgengilegar. Því má t.d. velta fyrir sér hvort upplýsingar frá lögreglu frá því árið 1960, 1970, 1975, frá fíkniefnadeildinni og öðrum séu enn öllum tiltækar, hvort þær séu til í skrám. Ég held að það væri mjög mikilvægt að þetta væri upplýst. Menn vissu þá að hverju þeir gengju.

Það má heldur ekki gleyma því að mikilvægt er að lögreglan geti varðveitt þessar upplýsingar til þess að tryggja réttaröryggi og það eru miklir hagsmunir sem lögreglunni er falið að gæta. Því togast hér á tvenns konar sjónarmið. En það breytir ekki því að sú tækni sem við erum smám saman að taka í notkun gerir það að verkum að miklu auðveldara er orðið að geyma upplýsingar, þær eru miklu aðgengilegri og því eru upplýsingar að verða miklu verðmætari en þær hafa nokkurn tíma verið. Þess vegna er mjög mikilvægt að við förum varlega með þær upplýsingar sem hér um ræðir.