Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 11:14:08 (4318)

2001-02-08 11:14:08# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[11:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þeirri þáltill. sem ég mæli hér fyrir er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Evrópubandalagsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Tillögunni fylgja í fimm fylgiskjölum samningurinn um þær gerðir Evrópusambandsins sem hann tekur til.

Ég hygg að ekki þurfi að rifja upp við þetta tækifæri aðdraganda þessa máls sem er þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu, en þáltill. þess efnis var samþykkt á hv. Alþingi 22. mars á síðasta ári. Í þeim samningi, eða svonefndum Brussel-samningi sem þá var leitað heimildar Alþingis til að fullgilda, er að finna grunninn að þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Í honum er að finna ákvæði er mælir fyrir um að samningsaðilar séu sammála um að gera þurfi viðeigandi samkomulag um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkjanna eða á Íslandi eða í Noregi. Í greinargerð með þeirri tillögu var gerð efnislega grein fyrir þessu ákvæði og hvað það fæli í sér.

[11:15]

Samningaviðræður um þetta tiltekna mál hófust formlega 6. júlí á síðasta ári og var samningurinn undirritaður 19. janúar sl. Eins og fram kemur í Brussel-samningnum er forsenda þess að þátttaka Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu komi til framkvæmda að frá þessum samningi hafi verið gengið. Ljóst er því að samningurinn þarf að vera kominn til framkvæmda 25. mars nk. þegar ráðgert er að framkvæmd Schengen-samningsins hefjist hér á landi. Til að svo megi verða þarf skv. 14. gr. samningsins að fullgilda hann fyrir lok þessa mánaðar.

Svo sem gefið var til kynna í þál. þeirri sem var til meðferðar á hv. Alþingi sl. vor tekur samningur sá sem hér er til umræðu annars vegar til svonefnds Dyflinnarsamnings um það hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð beiðna um hæli sem lagðar eru fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalagsins og ákvarðana honum tengdar og hins vegar til reglugerða ráðsins um stofnun þess, sem nefnt er EURODAC, sem á að bera saman fingraför í því skyni að stuðla að skilvirkni í beitingu Dyflinnarsamningsins.

Rökin að baki gerðar Dyflinnarsamningsins á sínum tíma voru það markmið aðildarríkja ESB að byggja upp eitt svæði án eftirlits á innri landamærum. Kemur það skýrlega fram í aðfaraorðum samningsins. Samsvarandi ákvæði er að finna í Schengen-samningnum sem nú hafa verið yfirtekin af Dyflinnarsamningnum. Þannig hefur allt frá fyrstu tíð verið ljóst að þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu hefði í för með sér að semja þyrfti við ESB um þátttöku í samstarfi á þessu sviði og var m.a. að finna ákvæði þessa efnis í Lúxemborgarsamningnum frá des. 1996 sem markaði upphaf þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu.

Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni fjallar Dyflinnarsamningurinn um hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun um beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju aðildarríkja Evrópubandalagsins og kom hann til framkvæmda árið 1997. Markmið samningsins er að leitast við að hindra að umsækjanda um hæli sé af yfirvöldum vísað frá einu ríki til annars án þess að tekið sé á umsókn hans um hæli. Samningurinn tryggir umsækjanda um hæli að hann fær meðferð umsóknar sinnar í einu ríki og inniheldur samningurinn reglur um hvernig ákveðið skuli hvaða ríki það er hverju sinni sem ber skyldur að þessu leyti. Samningnum er einnig ætlað að fyrirbyggja að umsóknir um hæli, sem lagðar eru fram í fleiri en einu aðildarríki, verði teknar til meðferðar í fleiri en einu aðildarríki. Í samningnum felst að hafi umsókn um hæli verið hafnað í einu aðildarríki og umsækjandi sækir í framhaldi um hæli í öðru aðildarríki þá er hinu síðarnefnda heimilt að snúa umsækjanda til baka til þess fyrrnefnda án þess að taka umsóknina til meðferðar. Á hinn bóginn er síðarnefnda ríkinu ávallt heimilt að taka umsóknina til meðferðar þó því sé það ekki skylt á grunni Dyflinnarsamningsins.

Auk þess tekur samningurinn til tveggja ákvarðana sem samþykktar hafa verið á grundvelli Dyflinnarsamningsins eins og finna má í fylgiskjölum með tillögunni til nánari útfærslu á honum. Þannig felur Dyflinnarsamningurinn einvörðungu í sér reglur um málsmeðferð en ekki efnisreglur um hvort einstaklingur eigi rétt á eða muni fá hæli í aðildarríki. Í því efni mun hvað Ísland varðar sú stefna sem stjórnvöld móta á hverjum tíma ráða ferðinni. Einnig ber að nefna að samningurinn vísar sérstaklega til flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1951 og viðbótarbókunar við hann frá 1967 en Ísland hefur fullgilt hvort tveggja.

Í öðru lagi tekur samningurinn til reglugerðar um stofnun EURODAC til að bera saman fingraför í því skyni að stuðla að skilvirkni beitingar Dyflinnarsamningsins. Reynslan af framkvæmd Dyflinnarsamningsins hefur leitt í ljós að ýmislegt má betur fara. Meðal annars hefur reynst erfitt að skera úr í einstökum tilvikum hvaða aðildarríki skuli bera ábyrgð á meðferð hælisumsóknar þar sem erfitt hefur reynst að leiða í ljós hvar umsækjandi hefur haldið sig eða hvaða leið hann hefur komið inn á samningssvæðið. Af þeim sökum hefur ESB leitast við að styrkja og efla samstarf aðildarríkjanna á þessu sviði og í því skyni samþykkt að setja á fót miðlægt kerfi er geymi skrár yfir fingraför þeirra er leitað hafa hælis á svæðinu og tiltekins hóps ólöglegra innflytjenda en ráðgert er að kerfið verði tekið í notkun á árinu 2002.

Hvað varðar efni samnings Íslands, Noregs og Evrópubandalagsins þá fjallar hann líkt og Brusselsamningurinn um stofnanalega aðkomu Íslands að meðferð mála á samningssviðinu. Felur hann í sér að ESB annars vegar og Ísland og Noregur hins vegar setji á fót sameiginlega nefnd er fjalli um þau atriði er samningurinn nær yfir. Ljóst er að í báðum þessum tilvikum eru fulltrúar íslenskra stjórnvalda að vinna með upplýsingar um einstaklinga. Af þessum sökum er eðlilegt að veruleg áhersla sé lögð á reglur um persónuvernd. Má sjá þess stað í samningnum sjálfum og að sjálfsögðu í þeim reglum sem hann vísar til. Nauðsynlegt er af þessu tilefni að gera breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum. Frumvarp þar að lútandi er þegar til meðferðar á hv. Alþingi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn. Ég vænti þess að sátt geti náðst um afgreiðslu málsins á þann hátt að það stuðli að og greiði fyrir því að við getum tekið þátt með eðlilegum hætti í Schengen-samstarfinu frá og með 25. mars nk. eins og öll hin Norðurlöndin.