Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 11:32:14 (4320)

2001-02-08 11:32:14# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[11:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um að fullgilda samning milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um fyrirkomulag á hælisbeiðnum og meðferð þeirra mála tengist svonefndum Schengen-samningi eða aðild okkar að því fyrirbæri sem afnám innri landamæra á Schengen-svæðinu er og er kannski ekki síst lýsandi fyrir það að hann dregur athygli að því, hversu stórt mál er þar á ferð og hefur stórlega skort á að viðurkennt væri í umræðum hér á landi.

Hér er fylgifiskur númer tvö eða þrjú þessarar Schengen-aðildar okkar og er þá fátt upp talið. Rétt er að hafa í huga að þetta tengist þeim grundvallarbreytingum sem eru að verða með þessu á mestöllu meginlandi Evrópu og Íslandi sem valið hefur. Reyndar hefur landið ekki valið það eða þjóðin heldur þeir sem hafa farið fyrir henni og ber þar fyrstan að telja hæstv. utanrrh. sem hefur gert það að sérstöku kappsmáli sínu að koma aðild Íslands að Schengen-samningnum í höfn. Þetta svæði verður sem sagt með sameiginleg ytri landamæri og innan þess verður frjáls för allra þeirra tryggð sem komist hafa með einhverjum hætti, löglega eða ólöglega, inn á þetta svæði eða búa þar, m.a. með því að persónueftirlit á fyrrum landamærum ríkjanna verður beinlínis bannað. Þetta, herra forseti, mun auðvitað leiða til þess hvað sem stendur í greinargerð með tillöguni að aðstæður munu þvinga fram meira og minna algera samræmingu á meðferð allra þessara mála á hinu nýja svæði. Schengen-svæðið mun í æ ríkari mæli taka á sig einkenni ríkis, einnig að þessu leyti. Þetta er enn einn þátturinn í þróun Evrópusambandsins og þá þeirra landa sem hafa kosið að tengja sig við það í átt til ríkis. Það tekur á sig í æ ríkari mæli einkenni ríkis með sameiginlegum ytri landamærum, sameiginlegum gjaldmiðli, dómstóli, seðlabanka, sameiginlegum her sem er nú verið að stofna og hæstv. utanrrh. er einnig mjög mikill áhugamaður um eins og kunnugt er.

Að vísu á að heita svo að hvert land geti innan ramma þess sem Schengen-aðildin og aðild að Dyflinnarsamningnum, og hvað þetta nú heitir allt saman skapar, haft eigin pólitík í heiðri í þessum efnum en flestir þeir sem ég hef a.m.k. rætt við um þessi mál fara í engar grafgötur með að aðstæðurnar muni ósköp einfaldlega þvinga fram meiri og minni og algera samræmingu á þessu sviði að ógleymdu svo upplýsingakerfinu mikla, herra forseti, sem á að taka upp og væri tilefni til sérstakar umræðu.

Herra forseti. Ísland er með aðild sinni að þessu að taka á sig þær skyldur að gæta ekki aðeins eigin landamæra vegna þeirra sem hingað koma eða reyna að koma, berja hér á dyr og sækja um hæli heldur tökum við á okkur að vera hluti af ytri landamærum þessa risastóra svæðis, frá Grikklandi, Ítalíu og Spáni í suðri og austur, norður og vestur um til Íslands stranda. Þetta þýðir, herra forseti, að þeir sem hefðu t.d. áhuga á því að koma sér með einhverjum ráðum til Frakklands frá Asíu eða Afríku eða hvaðan sem það nú væri, geta alveg eins reynt að gera það í gegnum Ísland eins og Frakkland sjálft, ósköp einfaldlega vegna þess að þegar þeir eru einu sinni komnir inn fyrir ytri landamæri Schengen-svæðisins eru þeim allir vegir færir innan svæðisins. Þetta er staðreynd sem ég held að menn hafi allt of lítið gefið gaum að, hvaða skyldur, stöðu og möguleg útgjöld Ísland er að taka á sig með þessu, lítið land sem hefur af ýmsum ástæðum ekki sömu hagsmuni eða sömu ástæður til að gerast aðili að þessu eins og landlukt smáríki inni á meginlandi Evrópu sem eru af augljósum ástæðum að þessu leyti í allt annarri stöðu en við.

Mér segir svo hugur, herra forseti, að þarna hafi menn farið fram af meira kappi en forsjá og miklu ítarlegri skoðun og rækilegri úttekt hefði þurft á því burt séð frá afstöðu manna að öðru leyti hvað í þessu fælist, hverjir væru hagsmunir okkar í stöðunni en hverjar gætu verið þær byrðar, skuldbindingar og þeir erfiðleikar sem við værum að taka á okkur með þessari aðild umfram það sem tilefni væru til hvað það varðar að eiga góð samskipti við nágrannaríki okkar og greiðan aðgang og auðvelda för ferðamanna og annað í þeim dúr.

Ég vil taka það skýrt fram, herra forseti, að ég hef ekki efasemdir um ýmislegt í þessum efnum vegna þess að ég telji að framganga Íslands í málefnum flóttamanna eða hvað varðar meðhöndlun hælisbeiðna hafi verið til mikillar fyrirmyndar. Ég held reyndar að það hefði fyrir löngu mátt setja miklu meiri vinnu í gang af Íslands hálfu að undirbúa sig undir þá framtíð sem er auðvitað að berja hér á dyr að við fáum til okkar þann mikla straum flóttamannavanda og fólksflutninga með ýmsum hliðargreinum sem er í æ ríkari mæli viðvarandi veruleiki, t.d. í næstu nágrannalöndum okkar. Að mörgu leyti höfum við Íslendingar komist upp með að sinna þessum málum lítið fram undir síðustu ár, kannski vegna landfræðilegrar einangrunar, en sá tími er augljóslega liðinn. Það er því engin ástæða til að draga dul á það að þörf er á því að taka á ýmsum málum heima fyrir. En það gætum við og ættum að mínu mati að gera á sjálfstæðum forsendum okkar og halda því algerlega aðgreindu frá hinu, hvort það var skynsamleg ráðstöfun af hálfu okkar að gerast aðilar að þessu Schengen-svæði eða hvort hyggilegra hefði verið að fara t.d. leið eyþjóðanna eða eyríkjanna austan við okkur þar sem eru Bretland og Írland og hafa valið að gera það ekki.

Í fjórða lagi, herra forseti, hlýt ég að nefna það að mér finnst þetta mál nokkuð seint fram komið. Nú er því loks stunið upp að endilega verði að lögfesta þetta í hvelli og í þessum mánuði vegna þess að Schengen-samningurinn mikli eigi að ganga í gildi 25. mars og þar af leiðandi hefði helst þurft að afgreiða þetta í gær, herra forseti. Það eru náttúrlega ekki vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar að málin beri svo seint að.

Þar sem ég sit í utanrmn. á ég kost á því að skoða þetta mál nánar þar og sé því ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta enda ræðutími minn um það bil búinn, herra forseti. Mér telst svo til að núna séu eftir 5, 4, 3, 2, 1 sekúnda og ég lýk því máli mínu.

(Forseti (HBl): Það er til eftirbreytni.)